Ekki kaupa neitt handa mér -ég á nóg af dóti

Það getur verið fjandanum erfiðara að finna rétta afmælisgjöf handa konu eða karli sem er að fagna 50, 60 eða 70 ára afmælinu sínu. Margir vilja ekki gjafir eða svo segja þeir. „Ekki kaupa neitt handa mér, ég á allt af öllu,“ er setning sem oft heyrist. Þrátt fyrir það langar flesta í einhverja gjöf þegar þeir standa á tímamótum í lífi sínu. Fólk langar bara ekki í meira dót. Hér eru nokkrar hugmyndir að skemmtilegum gjöfum sem allar eiga það sameiginlegt að sýna væntumþykju.

Hvað finnst afmælisbarninu skemmtilegt. Langar það í spa, nudd, húðhreinsun, þyrluflug, gönguferð á Hornstrandir, á matreiðslunámskeið að læra að elda exótíska rétti. Af nógu er að taka og  það er auðvelt að kaupa gjafakort í eitthvað slíkt.  Góð heilsa er gulli betri og því ekki að gefa þeim sem þér þykir vænt um líkamsræktarkort, sundkort, aðild að golfklúbbi, dans- eða yoganámskeið. Reyna bara að hafa í huga hvað afmælisbarninu gæti þótt skemmtilegt.

Það er hægt að safna saman myndum af viðkomandi og setja í albúm og skrifa eitthvað skemmtilegt við hverja mynd. Rifja upp liðna tíma í máli og myndum.  Góðar myndir segja meira en þúsund orð. Einstaklega skemmtileg og persónuleg gjöf.

Í þriðja lagi er hægt að leggja peninga inn á reikninga góðgerðasamtaka í nafni afmælisbarnsins. Það er þakklátt að leggja þeim lið sem eru ekki jafn heppnir í lífinu og þið. Það er til að mynda hægt að leggja peninga inn á reikninga Rauða krossinn, Barnaheilla, Samhjálpar, Fjölskylduhjálparinnar svo eitthvað sé nefnt.

Í fjórða lagi er hægt að gefa afmælisbarninu gjafakörfu sem þið útbúið sjálf. Baka kökur sem því þykja góðar, sjóða marmelaði, gefa því kryddstauka með uppáhaldskryddunum þess, kaupa uppáhalds vínið, velja osta sem það hefur dálæti á.  það eru ótal hlutir sem gætu átt heima í körfunni og gætu glatt viðkomandi.

Blóm eru oftast vel þegin. Hvaða blóm þykja afmælisbarninu falleg, hver eru uppáhaldsblóm þess. Sumir eru ekki hrifnir af afskornum blómum, þeim er hægt að gefa pottaplöntur eða kryddplöntur til að rækta í eldhúsglugganum.

Gefðu tíma þinn. Farðu í heimsókn til afmælisbarnsins og eyddu tíma með því. Það er kannski besta afmælisgjöfin.  En sama hvaða gjöf þú ákveður að gefa veldu hana af ást og umhyggju.

Ritstjórn nóvember 20, 2018 10:00