Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárlagafrumvarpið 2022 er lýst miklum vonbrigðum með að frumvarpið „endurspegli hvorki gefin loforð um fjármögnun hjúkrunarheimila né nýjan stjórnarsáttmála en þar segir að þróa verði heilbrigðiskerfið í takt við breytta samsetningu þjóðarinnar, mönnunarþörf og lífsstílssjúkdóma.“ Frumvarpið virðist boða „í raun stórfelldan niðurskurð á rekstri og þjónustu hjúkrunarheimila landsins“.
Um þetta segir nánar í umsögninni: „Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 2 ma. kr. hækkun til hjúkrunarheimila þá nægir það ekki þar sem verulega virðist vera skorið niður á móti. Þá vantar jafnframt inn fjármagn til að mæta stórum kostnaðarliðum hjúkrunarheimila. Þar skal helst nefna að þar er ekki að finna milljarð sem bætt var inn í daggjaldið í sumar í fjáraukalögum til að afstýra neyðarástandi í rekstri heimilanna. Í því samhengi má benda á að vinnuhópur um framhaldsgreiningu á svonefndri „Gylfaskýrslu“ kom sér saman um að árið 2019 hefði vantað inn 1 milljarð til að viðhalda þjónustustiginu. Þá er ekki að sjá í frumvarpinu að kostnaður hjúkrunarheimilanna vegna „Betri vinnutíma“ vaktafólks sé bættur. Auk þessara þátta má nefna að það virðist langt frá því að nægt tillit sé tekið til aukinnar hjúkrunarþyngdar, útlagakostnaðar eða verðlags- og launahækkana.
Reynist ofangreint rétt þá boðar fjárlagafrumvarp 2022 í raun stórfelldan niðurskurð á rekstri og þjónustu hjúkrunarheimila landsins.“