Hver verður staða mín við starfslok?

                                   

Guðmundur Ragnarsson

Guðmundur Ragnarsson hjá GR-Ráðgjöf slf. skrifar                                                              gr.radgjof@outlook.com

Áhyggjulaust ævikvöld er fallegt hugtak og öll óskum við þess að geta komist á þann stað þegar við förum á eftirlaun. Það er hinsvegar með þetta verkefni í lífinu eins og flest önnur að góður undirbúningur og raunsætt mat á stöðunni gerir okkur kleift að komast eins nálægt því eins og hægt er.
Ekki er það minna mikilvægara verkefni, að við ætlum að hafa eins gaman á þessu æviskeiði og við mögulega getum.
Við eigum að byrja að skoða og undirbúa þessi mál um fimmtíu og fimm ára aldurinn og í síðasta lagi um sextugt. Auðvitað eigum við að vera meðvituð um hvert við stefnum með framfærslu okkar á eftirlaunaárunum allan tímann sem við erum á vinnumarkaði.

Höfum stjórn á breytingunum og tökum ákvarðanir

Það er mikil áskorun að fara inn í eftirlaunaárin og hætta á vinnumarkaði, það má ekki gera
lítið úr því. Það verða bæði fjárhagslegar og félagslegar breytingar sem margir hræðast.
Við eigum hinsvegar að líta á þetta sem skemmtilegt verkefni og enginn er ómissandi
til dæmis á vinnustað. Ef við höfum tök á því þá eigum við að láta þessi ár snúast um okkur,
því er mikilvægt að fara ekki of seint af stað í verkefnið til dæmis með því að vera alltaf að fresta því að hætta að vinna.
Allt of margir leiða það hjá sér að vera mikið að velta þessu fyrir sér, hafa hlustað á allskonar fullyrðingar um lífeyrissjóðina og annað sem við vitum að framfærsla okkar kemur til með að byggjast á og trúa því að það sé allt í klessu.

Að fara úr því að halda yfir í að vita breytir öllu

Óvissa veldur áhyggjum það þekkjum við öll, en við það að fara úr því að halda yfir í að vita hver staða okkar er, þá kemur ný og raunveruleg sýn á framtíðina og við getum farið að vinna út frá henni hver sem hún er. Allar áhyggjurnar voru kannski óþarfar?

Nú er kominn tími til að eyða sparnaðnum í okkur sjálf ef hann er til. Við þurfum að átta okkur á því að tíminn líður hratt og það var ekki tilgangur okkar í lífinu að skilja allt eftir okkur fyrir erfingjana.
Ég legg áherslu á að við séum meðvituð um að árin frá 65 ára til 74 koma aldrei aftur og þó meðalaldur Íslendinga sé að hækka þá eru ekki mörg hjón, þar sem báðir aðilar eru að fara á Úlfarsfellið annan hvern dag eftir 74 ára aldur. Síðan er það kjarkurinn sem fer að minnka þannig að þegar aldurinn færist yfir er ekki sami kraftur og áður til að fara t.d. í ferðalög.

Verðum að vita hver staða okkar er

Staðan er mjög misjöfn hjá okkur öllum og ekki hægt að búa til eina formúlu fyrir alla.
Það verður að skoða hvert einstakt dæmi og vinna út frá því. Þetta er ekki keppni um það hver er ríkastur heldur að átta sig á sinni stöðu og fá yfirlit yfir hver framfærsla okkar verður og hvað við getum leyft okkur eftir að við hættum á vinnumarkaði.
Við þurfum að skoða, hver verður framfærsla okkar úr lífeyrissjóði, samtryggingu, tilgreindri séreign, séreignarsparnaði og frá Tryggingastofnun ríkisins.
Hver er eignarstaðan og uppsafnaður sparnaður? Erum við á leigumarkaði og eða skuldug.
Ef það eru skuldir, er gott að losa sig við þær ef það er einhver möguleiki á því.
Hver verður framfærsla eftirlifandi maka og fleira og fleira. Það er margt sem þarf að skoða.
Þær eru margar sviðsmyndirnar sem geta komið upp en það er okkar að velja hvað við viljum gera og hvernig við viljum haga hlutunum.
Við getum gert lista yfir allt sem okkur langaði að gera en höfum ekki komið í framkvæmd, það er hugsanlega fyrst núna sem við höfum tíma og tækifæri til að gera það og láta drauma rætast.

Breytingarnar snúast ekki bara um fjármál og sparnað

Þó framfærslan og fjármálin séu stórt atriði til að eiga áhyggjulaust ævikvöld eru önnur mál ekki minna mikilvæg sem við þurfum að ganga frá ef þess þarf.
Þau mál eru oftast miklu erfiðari en peningamálin og getur tekið tíma að vinna úr þeim. Það eru börn, stjúpbörn, seinni maki og allskonar flækjur sem þarf hugsanlega að ganga frá svo við förum sátt inn í ævikvöldið. Ef þarf að gera erfðaskrá til að tryggja stöðu maka þá á að gera það strax.
Einstaklingar í sambúð þurfa að átta sig á því að hjónaband er eina sambúðarformið til að tryggja stöðu maka þar sem það er ekki erfðaréttur á milli sambúðarfólk. Því er mikilvægt að ganga í hjúskap til að tryggja stöðu eftirlifandi maka. Það skiptir einnig máli ef aðilar eiga sérniðja, þ.e. ekki bara sameiginleg börn.  Þá er nauðsynlegt að gifta sig og gera erfðaskrá sem mælir fyrir um rétt til setu í óskiptu búi. Erfðaskrá og kaupmála þarf ekki að gera strax við hjúskaparstofnun, heldur er hægt að gera það seinna þegar niðurstaða er komin í hvernig við viljum hafa hlutina. Það er sorglegt að sjá einstaklinga enda ævikvöldið bitra og sára vegna svona mála sem ekki var gengið frá eins og viðkomandi ætlaði og vildi. Fjölmargt sambúðarfólk hefur búið saman í áratugi og virðist ekki gera sér grein fyrir því að við fráfall sambúðarmaka þá eru það bara börnin sem erfa. Skiptir þá engu þó fjárhagsleg samstaða sambúðarfólksins hafi varað í áratugi.  Hluti af því gæti til dæmis verið staðan í seinna hjónabandi, að staða eigna sé á hreinu milli aðila, réttlát og sanngjörn. Við verðum að forðast það að við séum föst í eignum og getum ekki lifað lífinu. ( mitt og þitt – mín börn og þín börn).

Verum tilbúin að fara á eftirlaun

Það er ekki mikil vinna að fá heildaryfirlit yfir stöðuna og flestir ættu að geta gert þetta sjálfir, það er hinsvegar að koma sér í það og klára dæmið, það er þar sem þessi vinna stoppar hjá flestum. Því er mjög gott að fá aðstoð við að fá þessa yfirsýn sem ég hef fjallað um.

Ég býð upp á fyrirlestra hjá fyrirtækum, stéttarfélögum, hópum og þeim sem hafa áhuga á að kynna sér þessi mál til að fara yfir það sem þarf að skoða og til að ýta við fólki að koma sér af stað í þessi mál.
Einnig er ég með ráðgjöf og aðstoð fyrir einstaklinga og hjón til af fá yfirlit yfir sína stöðu, hvað þarf að skoða til að undirbúa þetta æviskeið og fara inn í það eins áhyggjulaust og hægt er á okkar forsendum. Einnig leiðbeini ég við að fá lögfræðiráðgjöf ef þarf.
Ég hvet fólk til að fara í þessi mál og nýta sér aðstoð við að fá heildaryfirsýn yfir stöðuna.
Reynsla mín er að í flestum tilfellum er staðan talsvert betri en fólk heldur.
Það er áskorun og verkefni að eyða uppsöfnuðum sparnaði í sjálfan sig ef hann er til.
Ekki tökum við þetta með okkur þegar við yfirgefum þetta jarðlíf.

Ritstjórn október 16, 2023 11:00