William Shakespeare fæddist árið 1564. Hann skrifaði sitt fyrsta leikrit Hinrik VI, líklega í kringum tuttugu og fimm ára aldurinn. Þá þegar hafði margt gengið á í lífi hans, meðal annars hafði hann gifst og yfirgefið eiginkonuna og flutt til London. Þar hófst ferill sem enn stendur í miklum blóma rúmum fjögur hundruð árum síðar.
Margoft hefur verið rætt og ritað um hvers vegna verk Shakespeares lifa svo lengi og þau ótrúlegu áhrif sem hann hefur haft ekki bara á leikritun heldur almennt á leiklist og skáldskap. Enginn vafi leikur á að orðsnilld hans er hluti af því að eldgömul verk tala til okkar enn í dag en einnig umfjöllunarefnin. Hann fjallar um mannlegar tilfinningar fyrst og fremst og engin persónu í Shakespeare-verki er flöt eða einföld. Þær eru ávallt margræðar þótt þær séu misáhugaverðar. Það er ástæða þess að hægt er að sviðsetja þessi verk á hvaða tíma sem er, staðsetja þau hvar sem er landfræðilega og í sögunni og leika sér með sviðsmynd og túlkanir.
Hvers vegna á hann erindi enn í dag?
BBC gerði fyrir nokkrum árum einstaklega skemmtilega heimildaþætti, Shakespeare Uncovered. Þeir voru sýndir á RÚV undir yfirskriftinni Í saumana á Shakespeare. Þar tóku heimsþekktir leikarar fyrir verk stórskáldsins, hver og einn hafði eitt verk að viðfangsefni. Leikararnir fjölluðu síðan einnig um samfélagið, söguna og umhverfið sem verkið er sprottið úr og leituðu til ýmissa sérfræðinga sér til aðstoðar. Þetta fólki átti það sameiginlegt að hafa leikið aðalhlutverk í einmitt þessu verki og einbeitti sér þess vegna oft að því að greina það hlutverk umfram önnur. Þetta voru hreint út sagt dásamlegir þættir og ótrúlega fræðandi.
Togstreitan fylgir nöfnunum
Shakespeare & Hathaway eru breskir sakamálaþættir um einkaspæjarana Frank Hathaway og Luellu Shakespeare. RÚV hefur þegar sýnt allar seríurnar hingað til . Louella er hárgreiðslukona að mennt, rómantísk og ljúf en Frank hornóttur, kaldhæðinn og sauðþrár fyrrum lögreglumaður. Togstreitan á milli þeirra á auðvitað rætur í hjónunum Anne og William Shakespeare. Þau giftust þegar William var átján ára og Anne tuttugu og sex. Hún var ófrísk að fyrsta barninu þeirra og margt bendir til að þau hafi neyðst til giftast þess vegna. Ungu hjónin fluttu inn á foreldra Shakespeares og eignuðust saman þrjú börn. Margir telja að Shakespeare hafi ekki þolað konu sína og verið neyddur til að giftast henni en aðrir segja að svo hafi alls ekki verið. Hvað sem satt er í því efni eru þættirnir um Luellu og Frank bráðskemmtilegir.
Ótal kvikmyndir
Ef eyjarnar á Breiðafirði eru óteljandi fer að slaga í að kvikmyndirnar og teiknimyndirnar sem gerðar hafa verið eftir leikritum Shakespeares eða spunnar út frá þeim séu að verða það. Buzz Feed lagðist einhverju sinni í að telja og komst upp í 525 og talsvert hefur bæst í síðan þá. Enginn annar höfundur hefur náð sambærilegri útbreiðslu hvað þetta varðar en nefna má nokkrar eftirminnilegar, 10 Things I hate About You, The Lion King, Lady Macbeth, West Side Story, Big Buisness og Get Over It. En leikrit hans hafa líka verið kvikmynduð ótal sinnum og nefna má Taming of the Shrew með Richard Burton og Elizabeth Taylor í aðalhlutverkum, Much Ado About Nothing með Emmu Thompson og Kenneth Branagh, Ríkharður III með Ian McKellen, Christopher Bowen og Maggie Smith, Rómeó og Júlía með Leonardo di Caprio og Claire Danes og A Midsommer Nights Dream með Michelle Pfeiffer og Kevin Kline.
Það er alltaf vert að velta fyrir sér hvers vegna sum verk lifa meðan önnur falla í gleymsku og dá. Hvers vegna sumir höfundar virðast alltaf ná sér í nýjan lesendahóp í hverri kynslóð meðan aðrir ná eingöngu eyrum samtíðafólks síns. Hugsanlega er það orðkyngin og skilningurinn á mannsálinni sem gerir Shakespeare svo spennandi en margir samtíðamenn hans voru ekki síðri en hann að þessu leyti en þeir hafa ekki lifað á sama hátt. Hans helsti keppinautur Christopher Marlowe er til að mynda lítt þekktur utan Bretlands og William Congreve flestum gleymdur og ein af hans snilldarsetningum: „Heaven has no rage like love to hatred turned, nor hell a fury like a woman scorned,“ er iðulega kennd Shakespeare. En kannski er óþarfi að velta fyrir sér hvers vegna sumir séu svo áhrifamiklir og lífseigir og njóta bara verka þeirra aftur og aftur í ýmsum myndum og útgáfum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.