„Það er allt annað að hitta fólk augliti til auglitis eða að vera í samskiptum við það í gegnum stefnumóta- eða samskiptasíður á netinu,“ segir Guðfinna Eydal, sálfræðingur. Þetta sé raun mjög ólík nálgun. Í hvert sinn sem fólk hittist í fyrsta sinn verði það fyrir áhrifum af þeim sem það hittir. „Okkur getur ýmist fundist fólk aðlaðandi eða fráhrindandi. Allt eftir því hvernig fólk ber sig og tjáir sig og eftir því hvernig við skynjum framkomu þess. Þegar við erum í samskiptum við einhvern á netinu eru samskiptin allt önnur því það vantar þessa persónulegu tengingu.“
Eins og komið hefur fram í viðtölum við forsvarsmenn maka.is og makleit.is er fjöldi fólks sem komið er á miðjan aldur og þaðan af eldra á stefnumótasíðum. Margir sem skrá sig inn á stefnumótasíður gera það í von um að hitta hinn eina sanna lífsförunaut. Það er hins vegar misjafn sauður í mörgu fé og fólk þarf að læra að nota þennan samskiptamáta.
Siðblint fólk
Guðfinna segir að margir hafi tjáð henni að það megi nokkurnveginn skipta þeim sem eru á stefnumótasíðum í þrjá hópa.
- Í fyrsta hópnum eru þeir sem villa á sér heimildir. Þetta er fólk sem lýgur til um aldur, falsar myndir eða birtir myndir á vefnum af einhverjum öðrum en þeim sjálfum. Stundum eru viðkomandi í sambandi eða giftir og eru því bara að leita að einhverjum til að sofa hjá. Sumt af þessu fólki getur verið siðblint.
- Annar hópurinn eru þeir sem eru að prófa, þetta er fólk sem er oft á tíðum ekki tilbúið að gefa mikið af sér. Þetta er fólkið sem segir gjarnan hálfan sannleikann og lætur oft ekki mikið uppi um sjálft sig. Það getur oft verið erfitt að átta sig á þessum hópi.
- Þriðji hópurinn eru þeir sem eru í raun og sannleika að leita sér að félaga og lífsförunaut. Þetta er einlæga fólkið. Fólkið sem segir satt til um aldur og fyrri störf. Þetta eru þeir sem birta myndir af sér eins og þeir líta út í raunveruleikanum. Upp til hópa er þetta er heiðarlegt og áreiðanlegt fólk.
Sumir skammast sín
Margir skammast sín fyrir að vera inn á stefnumótasíðum. Fólk vill oft ekki segja frá því að það sé á netinu til að leita sér að félaga. Það er oft ekki fyrr en sá eini sanni eða sú eina sanna er fundin sem fólk tjáir sig um þetta. Aðrir segja aldrei frá þrátt fyrir að þeir hafi verið árum saman að leita sér að félaga.
„Það er getur verið margt varasamt á netinu og þess vegna er þetta enn meira leyndarmál. Með tilkomu ýmisskonar samskiptavefja er svo auðvelt að villa á sér heimildir, það langar engan að viðurkenna að hann hafi verið plataður upp úr skónum,“ segir Guðfinna og bætir við að fyrir suma fylgi því ákveðin skömm að vera á stefnumótavefjum. Mörgum finnst að þeir séu minnimáttar og það sé tákn fyrir lítið sjálfstraust að þeir geti ekki hitt einhvern á „eðlilegan hátt.“
Nýjar lendur opnast
Svo eru aðrir og þeim fer fjölgandi sem finnst þetta góð leið, að fara inn á netið til að kynnast nýjum félaga. Mörgum finnst gott að spjalla í rólegheitum og sjá hvert það leiðir. Svo hittist fólk og einstaka sinnum smellur það saman. Aðrir átta sig strax á því að þetta er ekki neitt, neitt og hætta þá við.
„Netið opnar óneitanlega möguleika fyrir marga sem eru í makaleit, sérstakalega í litlum samfélögum þar sem fólk vill kannski ekki að það sé á allra vitorði að það sé að leita. Netið gefur fólki af mismunandi stéttum og úr mismunandi hópum tækifæri á að kynnast. Það getur því margt verið gott við þennan samskiptamáta,“ segir Guðfinna.