„Ég fékk allt í einu símtal frá honum, en þá var ég búin að vera skilin í mörg ár. Ég var komin heim frá Þýskalandi og var búin að fara á einhver stefnumót með mönnum sem mér leist ekkert á. Hringir ekki síminn, bara Sæli á hinum endanum“, segir Margrét Pálsdóttir kennari, málfræðingur og tónlistarkona.
„Ég var þá skilinn og einhleypir vinir mínir voru að draga mig útá lífið. Ég nennti þessu ekki, fór bara heim“, rifjar Ársæll Másson stærðfræðingur og heimspekingur upp. „Svo datt mér í hug að það gæti verið gaman að vita hvað Gréta væri að gera, kíkti í símaskrána og sá ekki betur en að enginn karlmaður væri skráður á sama heimilisfang og hún.“
Framsagnarnámskeið fyrir stærðfræðikennara?
„Ég hélt að hann væri að spyrja um framsagnarnámskeið sem ég hef verið með fyrir hópa, kannski fyrir stærðfræðikennara. Hann spurði hvort ég væri laus á föstudag eða laugardag. „Já ég er skilinn við konuna mína og langar að hitta þig“ sagði hann. Já, ég er alveg til í það sagði ég, mér fannst þetta svo skemmtilegt og óvanalegt símtal“, segir Margrét.
Hún og Ársæll kynntust í MR þegar þau voru unglingar. Þá bjó hún í herbergi hjá móðursystur sinni en sonur hennar og Ársæll voru vinir. „Það voru mörg partý þar sem Sæli spilaði á gítar, en við vorum aldrei saman. Vorum alltaf góðir vinir og vorum að spila og syngja“, segir hún.
Notalegt og auðvelt
Þau fóru saman út að borða eftir símtalið. „Það var mjög notalegt af því við þekktumst frá í gamla daga og mér fannst við alveg geta skroppið út að borða , þó það væri ekkert meira en það“, segir Ársæll. Margrét var á þessum tíma á söngnámskeiði hjá Andreu Gylfadóttur, að syngja jazz og blús. „Hann var alltaf að spila þessa tónlist og fór að lauma að mér lögum, svo fórum við að spila og syngja saman og eitt leiddi af öðru. „Það var allt auðvelt hjá okkur, engar flækjur, við vorum ekki ókunnug og ég vissi að hann var heiðarlegur, traustur og góður maður“, segir Margrét. Fljótlega fóru þau að búa saman og fyrir þremur árum keyptu þau saman raðhús, þar sem tónlistin er í öndvegi, heill bílskúr sem bíður þess að verða æfingasalur fyrir tónlist. Margrét getur líka haldið framsagnarnámskeiðin sín heima. Húsið er á einni hæð. „Við getum búið hér þar til við verðum níræð eða lengur“, segir hún hlæjandi.
Börn og barnabörn ná vel saman
Leiðir Ársæls og Margrétar lágu saman í Kennaraháskólanum um skeið, en síðan skildi leiðir, þau fóru sitt í hvora áttina, giftust og eignuðust börn. Margrét á tvær dætur og eitt barnabarn, en Ársæll á þrjú börn og eina stjúpdóttur. Barnabörnin hans eru fimm og það sjötta mun bætast við fljótlega. Þetta er stór hópur, en hvernig gekk þeim að stilla saman strengi í svo flókinni fjölskyldu? Ársæll segir að það hafi gengið vel og börn og barnabörn nái vel saman. „Þetta er mikið ríkidæmi fyrir mig, mig langaði alltaf að eignast mörg börn en átti bara tvö, svo bætist þetta við“ segir Margrét.
Var boðinn velkominn með gítarinn
Margrét sem ólst upp á Suðurnesjum og bjó í Grindavík frá 10 ára aldri, kemur úr afar tónelskri fjölskyldu. Móðir hennar samdi lög og texta og söng og spilaði á ýmis hljóðfæri og systkinin sex hafa sungið lögin hennar inná geisladisk og uppáhaldslög föður þeirra á annan disk. „Fjölskyldan er öll í tónlist og Sæli var strax boðinn velkominn í fjölskylduna með gítarinn sinn“, segir Margrét, en hann spilaði á geisladiskunum tveimur sem þau systkinin hafa gefið út. Tónlistin var alla tíð áhugamál hjá þeim báðum.
Ársæll var alltaf að spila á gítar, á alls kyns samkomum og með hinum og þessum, en ákvað þegar hann var kominn á fertugsaldur að drífa sig í tónlistarnám hjá FÍH. „Ég var þar í um það bil tvö og hálft ár og lærði hjá Birni Thoroddsen og fleiri góðum mönnum“, segir hann. Margrét man eftir sér sjö ára að syngja í Stapanum fyrir fullu húsi á tónleikum, en það var ekki fyrr en á fullorðinsárum að hún fór að fara reglulega í söngtíma.
Lá í rúminu með Covid-19 í fimm vikur
Ársæll fékk kórónuveiruna í vetur og varð mikið veikur. Þau þurftu að vera í einangrun í sex vikur „Ég upplifði mig ekkert svo veikan“, segir Ársæll. „En samt gat hann lengi vel hvorki drukkið né borðað og léttist um sjö kíló í veikindunum!“, segir Margrét sem greindist ekki með veiruna.
„Þetta er eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum að horfa uppá hann svona veikan. Hann var í svefnherberginu en ég í gestaherberginu. Hann var svo veikur að stundum vissi hann varla af sér. Þetta var mjög erfitt og ég var hrædd um hann, var að kíkja inn til hans til að athuga hvort hann andaði og reyna að fá hann til að drekka. Við héldum okkur heima og hittum ekki börn eða barnabörn, en þau komu hérna á gluggann til að við gætum sést og við vorum í samskiptum á Facebook“, segir Margrét og þau sambýlingarnir hæla Covid-19-göngudeild Landspítalans á hvert reipi og eru þakklát fyrir aðstoðina sem þau fengu þar.
Hefur pappír uppá að hafa fengið kóvíd
Það kom ekki til að Ársæll færi á spítala, en það stóð tæpt. Loksins fór hann að borða og Margrét segir að það hafi markað tímamót þegar hann bað um að fá tómat. „Svo gerði ég kjötsúpu á hverjum degi þegar hann var farinn að borða meira, hún er ótrúlega holl og kraftmikil.“
Ársæll segist ekki hafa orðið var við mikil eftirköst eftir veiruna, en núna er um hálft ár liðið síðan hann fékk hana. „Ég myndi ekki segja að ég hafi farið illa út úr veikindunum, en ég lá náttúrulega lengi og það tekur tíma að ná sér eftir að hafa legið í rúminu í fimm vikur.“ Hann heldur áfram tveggja metra reglunni því þó hann sé einkennalaus getur hann borið smit milli manna. Hann skrapp til Berlínar að hitta dóttur sína og kærasta þegar sá gluggi opnaðist og segist hafa pappír uppá að hann hafi mælst með mótefni við veirunni.
Jesús minn ekki minnast á þetta
Ársæll hefur starfað við kennslu meira og minna eftir að hann lauk námi en Margrét hefur fengist við allt milli himins og jarðar. Einhverjir muna kannski eftir henni í sjónvarpsþætti um málfar, nokkuð snemma í sögu sjónvarpsins. Árni Böðvarsson íslenskukennari fjallaði um málfræði og framburð og stóð með prik upp við töflu eins og kennarans er von og vísa, en Margrét kom með útskýringar og bar fram orðin, skýrt og skilmerkilega. Þátturinn vakti athygli og endaði í áramótaskaupinu þar sem Edda Heiðrún Backmann fór með hlutverk Margrétar. „Jesús minn ekki minnast á þetta“, segir Margrét. „Þetta var eitt besta skaup allra tíma og Edda Heiðrún náði mér betur en ég sjálf. Ég hef aldrei losnað undan þessu“. Hún segist til að mynda hafa mátt sitja undir því í Breiðholtsstrætó að strákar í vagninum fóru með atriði úr skaupinu alla leið neðan úr bæ og uppí Breiðholt og hlógu mikið.
Þá tók hjartað kipp
Eftir að hafa starfað við kennslu í Leiklistarskóla Íslands í sjö ár, fór Margrét að vinna sjálfstætt. „Ég var með framsagnarnámskeið út um allt land, fyrir kennara, stofnanir og fyrirtæki. Útvarps- og sjónvarpsstöðvar. Árið 1996 var ég hvött til að sækja um stöðu málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins“, segir hún og bætir við að hún hefði alltaf stefnt að því að fara í framhaldsnám til Þýskalands. En eftir að hún fór að kenna, gifti sig og eignaðist barn, varð ekki af því.
„Þegar ég var búin að vinna sem málfarsráðunautur í tvö ár, sá ég auglýsingu í blaði en þar var auglýst eftir sendikennara í íslensku við Háskólann í Kiel. Þá tók hjartað kipp“, segir hún en hún var í fimm ár úti, með yngri dóttur sína, sem síðari hluta tímabilsins var hjá föður sínum. Þau heimsóttu hana, Margrét þegar hún var hjá föður sínum á Íslandi og öfugt, hann þegar hún var úti hjá mömmu sinni.
Frá því Margrét kom frá Þýskalandi hefur hún verið sjálfstætt starfandi. Hún heldur framsagnarnámskeið og hefur verið stundakennari við HÍ og HR. Hún hefur einnig fengist við þýðingar og verið tengiliður stærstu sjónvarpsstöðvanna í Þýskalandi, ARD og ZDF, hér á Íslandi. Ársæll er að kenna stærðfræði í Kvennaskólanum.
Fjölþjóðlegur kór kvenna
Margrét segir að eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið hennar í dag sé að stjórna Múltíkúltíkórnum,fjölþjóðlegum sönghópi kvenna. „Þetta er fjórða árið sem kórinn starfar, en í honum eru konur frá öllum heimsálfum nema Ástralíu. Þetta er fjölbreyttur hópur kvenna og í honum eru meðal annars námsmenn, húsmæður, verkakonur og sendiherrar. Í hópnum eru líka alltaf einhverjir flóttamenn. „Konurnar koma með lög frá sínum löndum, ég skrifa upp nótur og texta og þýði þá yfir á íslensku og ensku. Við syngjum þau svo öll á upprunalegum tungumálum. Það eru alls konar trúarbrögð og menningarheimar sem mætast þarna. Konur frá löndum eins og til dæmis Íran, Ísrael og Palestínu, Serbíu, Króatíu og Kosóvo. Þarna mætast þær og syngja á persnesku, hebresku, arabísku, dönsku, sænsku og portúgölsku svo eitthvað sé nefnt“, segir Margrét. „Sæli spilar alltaf með á gítar, stundum fáum við fleiri hljóðfæraleikara með í hópinn og við fáum alltaf gesti til að syngja með okkur“.
Erum bara á sama stað
Margét segir að þau séu ekkert farin að velta efri árunum fyrir sér. „Ég er ekkert farin að hugsa um eftirlaunin. Sæli hefur minnkað við sig vinnu. Við viljum hafa rýmri tíma fyrir tónlistina og okkur sjálf.“ Hún segir að þrátt fyrir að þau búi saman, eigi þau hvort um sig sitt sjálfstæða líf. „Ég var búin að vera lengi ein og hugsaði alltaf með mér að ef ég færi í sambúð þyrfti það að vera viðbót við það frelsi sem ég hefði“. Margrét og Ársæll eru ekki gift og ekki skráð í sambúð. „Við erum bara á sama stað og hyggjumst vera það áfram“, segja þau að lokum brosandi.