Þegar þeir Jónas og Jón Múli Árnasynir fengu þá hugmynd að semja gamanleik um misskiptingu auðs og pólitíska spillingu á Íslandi voru þeir búsettir hvor á sínu landshorninu. Jónas á Norðfirði en Árni í Reykjavík. Þetta var árið 1953 og ekki hægt að halda zoom-fundi eða hringja gegnum facebook. Engu að síður varð Deleríum búbónis til, fjörugur gamanleikur með söngleikja- og revíuívafi. Nú í vor lýkur sýningum á uppsetningu Borgarleikhússins á þessu dásamlega verki en tónlistarinnar má njóta áfram á Spotify.
Þeir sem séð hafa sýninguna vita að hún er einstaklega vel unnin og skemmtileg. Allir leikarnir í sýningu syngja vel og fara vel með þessa glettnu texta. Það er ekki auðvelt því tónlist Jóns Múla er mjög djassskotin og stundum þarf talsverða tækni til að fá orðin til að falla að taktinum. Esther Talía Casey er frábær söngkona og gerir þetta einstaklega vel. Aðrir leikarar ná einnig að túlka lögin frumlega og skemmtileg og skila þeim sérlega vel.
Þeir bræður, Jónas og Árni Múli, sömdu fleiri leikrit saman sem áttu það sammerkt að í þeim voru sönglög. Mörg þeirra lifa enn góðu lífi með þjóðinni en úr Deleríum búbónis eru það helst, Söngur jólasveinanna (Úti er alltaf að snjóa), Einu sinni á ágústkvöldi, Án þín og Ljúflingshóll. Jónas var orðsins maður. Hann var rithöfundur en starfaði einnig við blaðamennsku, sjómennsku og kennslu og sat á Alþingi. Tvær bóka hans slógu rækilega í gegn, Tekið í blökkina og Syndin er lævís og lipur. Þær voru til á flestum heimilum, enda þeir menn sem fjallað var um þekktir í þjóðlífinu. Jónas lést þann 5. apríl 1998. Jón Múli Árnason starfaði í áratugi í útvarpinu og hafði eina bestu útvarpsrödd sem heyrst hefur hér á landi. Hann var mikill djassunnandi og náði gegnum þætti í útvarpi að vekja ástríðu margra annarra fyrir því tónlistarformi.
Orðheppni þeirra bræðra var viðbrugðið og er óumdeilanleg og í Deleríum búbónis nýtur hún sín sérlaga vel til dæmis má nefna orðið skammdegisfátækrahjálp en hana kannast Íslendingar mæta vel við. Hinn magnaði Dreifbýlisflokkur kemur þar einnig fyrir og vekur óneitanlega upp margvísleg hugrenningartengsl. Nú svo eru það mannlýsingar eins og, „þriðja klassa karamellusali“ sem skilja eftir sig mjög skýra mynd af þeirri persónunni. Nú eða upphöfnu ljóðin sem hrjóta af vörum skáldsins Unndórs Andmars, „Gyðjan úr djúpinu, sveipuð rauðri slæðu dulvitundarinnar“. Já, íslenskt mál nýtur sín til fulls í meðförum þeirra bræðra. Og fyrir þá sem vilja rifja upp skemmtilegar minningar um sýningu Borgarleikhússins á Deleríum Búbónis eða bara almennt njóta þess að heyra lög þeirra bræðra vel flutt þá er hér tengill á plötuna með tónlistinni á Spotify.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.