Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar
Eftir að seinni heimsstyrjöldin skall á var erfiðara um vik fyrir íslenska námsmenn að leita sér menntunar á Norðurlöndunum og í Þýskalandi. En íslenskum námsmönnum voru þó ekki allar bjargir bannaðar: Bandaríkin voru opin og á þessum árum settist stór hópur íslenskra námsmanna á bekk við bandaríska háskóla.
Sumir þeirra ílengdust í Bandaríkjunum, en flestir snéru aftur til Íslands að námi loknu. Nokkrir úr þeirra hópi komu þó ekki aðeins heim með bandaríska prófgráðu, heldur líka með bandaríska eiginkonu,oftast konu sem hafði, eins og þeir sjálfir, lokið háskólaprófi.
Ekki veit ég hversu margar þessar konur voru, en þegar ég var að alast upp á fimmta áratugi síðustu aldar, þá vissi ég af sex bandarískum mömmum í Reykjavík. Ein þeirra bjó í næstu götu við mig og ég held að vinkonur mínar sem voru með mér í för, hafi aldrei gleymt því, þegar við sáum hana úti á svölum með börnunum sínum að blása sápukúlur!- Mamma að blása sápukúlur!!!!
Við höfðum aldrei séð neitt þessu líkt!
Þessar konur höfðu sig ekki mikið í frammi í íslensku samfélagi, nema ein, en það var rithöfundurinn og blaðakonan Amalía Líndal. Amalía var fædd árið 1926 inn í virta fjölskyldu í Boston. Faðir hennar, Eðvard O.Gourdin,var fyrsti dómari af afrískum og índíána ættum sem sat í hæstarétt Nýja Englands. Áður hafði hann afrekað það að vinna gullmedalíu á Ólympíuleikunum í París árið 1924. Hann setti þar heimsmet í langstökki, stökk ein 25 fet, sem var lengsta allra stökka á þeim tíma.
Amalía var vel gefin og metnaðarfull og þegar í menntaskóla birti hún greinar og smásögur í skólablaðinu. Síðan lagði hún stund á nám í blaðamennsku við Boston Háskóla og það var á þeim tíma, sem hún kynntist verðandi eiginmanni sínum Baldri Líndal, en hann var við nám í efnaverkfræði í M.I.T. í Boston.
Að loknu námi vildi Baldur snúa aftur heim og átti Amalía engra annarra kosta völ en að fylgja honum til Íslands, og fluttu þau til landsins árið 1949. Amalía varð strax önnum kafin við að koma upp búi og börnum, en hún og Baldur eignuðust fimm börn á ellefu árum.
Þrátt fyrir miklar annir hélt Amalía áfram að skrifa og var fréttamaður dagblaðsins Christian Science Monitor á Íslandi.
Auk þess að skrifa greinar um Ísland, nýtti hún sínar fáu frístundir til að skrifa smásögur og ljóð. Ritstjóri Amalíu í Boston fannst þessi skrif hennar fremur daufleg og stakk upp á því við hana að skrifa um það sem stóð henni næst, Ísland og líf hennar þar.
Amalía fór að hennar ráðum og uppskeran var bókin Ripples from Iceland, sem gefin var út af W. Norton and Norton bókaforlaginu árið 1962. Bókin fjallaði einkum um reynslu Amalíu á fyrstu árum hennar á Íslandi, árin 1949-1951, og fékk bókin góðar viðtökur Vestra.
Eins og sonur Amalíu benti síðar á, þá var bók Amalíu eitt af fyrstu framlögum til hinna svo kölluðu nýbúabókmennta á Íslandi.
Í bókinni kennir margra grasa og í mínum huga erub lýsingar hennar á lífinu á Íslandi, sem voru mín æskuár, sannverðugar og oft afar litríkar. Amalía lýsti meðal annars hinum læstu stássstofum á íslenskum heimilum, sem ég man vel eftir, og voru aðeins opnaðar á tyllidögum eða þegar gesti bar að garði. Hún lýsti einnig vel hinum litlu, látlausu eldhúsum, sem voru aðal íverustaður íslenskra fjölskylduna á þessum tíma, þar sem borinn var nær daglega fram fiskur og kartöflur með bræddu smjöri. Ískápar voru enn sjaldséðir og í þeirra stað voru kaldir skápar notaðir til að halda matnum köldum. Þar sem hitastig þeirra fór eftir veðri, var mjólkin köld á vetrum en volg á sumrin!
Amalía lýsti líka framkomu Íslendinga í sinn garð. Vinahópur mannsins hennar var stór, flestir í þeim hópi voru velmenntaðir og töluðu ágætis ensku. Þegar þeir komu í heimsókn heilsuðu þeir henni með virktum og sögðu við hana fáein orð á ensku. Eftir það töluðu þeir íslensku út í eitt og oft voru þessi kvöld Amalíu afar hvimleið, því gestirnir hurfu ekki á brott fyrr en síðasti dropinn hafði verið kreistur úr síðustu vínflöskunni, sem stundum gerðist ekki fyrr en undir morgun.
Amalía náði fljótt tökum á íslensku og gat þá farið að taka þátt í samræðum í boðum og veislum. En það fór fyrir brjóstið á henni hversu kynskiptar íslenskar veislur voru. Konurnar sátu saman í hnapp í einum enda stofunnar og töluðu um heimilishald og barnauppeldi, meðan karlarnir sátu í hinum endanum og töluð um heimsmálin. Amalíu leiddist umræða um börn og bú, sem hún sinnti alla daga. Þegar hún loks komst út úr húsi, langaði hana að ræða um heima og geima eins og karlarnir. En tilraun hennar til að komast inn í karlahópinn mistókst. Eitt sinn þegar henni leiddist kvennatalið,flutti hún sig um set yfir á karla hliðina, en þá sló þögn á mannskapinn: Hvað var þessi kona eiginlega að hugsa? Var hún að gefa körlunum undir fótinn?
Sagan af því þegar Amalía átti sitt fyrsta barn er mér einkar minnisstæð. Þegar hún gekk með sitt fyrsta barn og fór að finna fyrir hríðum, lét hún keyra sig, að bandarískum hætti, á Fæðingardeild Landspítalans. Þegar hún gekk inn í móttökuna og bar upp erindi sitt,var henni sagt að hún yrði að fara heim og panta sér sjúkrabíl. Eina leiðin fyrir verðandi móður til að vera lögð inn á Fæðingardeildina var að koma þangað í sjúkrabíl.
Hissa og hvumsa gerði Amalía það sem henni var sagt og ekki löngu síðar var hún borin, árekstralaust, inn á Fæðingardeildina í sjúkrakörfu og ól þar frumburð sinn.
Amalía átti eftir að fara í fjórar ferðir í sjúkrabíl upp á Fæðingardeild og hafði gaman að því, þegar krakkarnir í hverfinu þyrptust í kringum hana í sjúkrakörfunni, hoppandi af spenningi og kæti.
Ég minnist þess sjálf að hafa skipað mér í slíkan barnahóp í götunni minni í Hlíðunum, en fyrir mér sem og öðrum krökkum í Reykjavík á þessum árum, voru sjúkrabílar ekki aðeins tákn um veikindi, slys eða dauða, heldur líka nýtt líf.
Þegar á leið komu brestir í hjónaband Amalíu og Baldurs og leiðir þeirra skildu. Árið 1972 flutti Amalía alfarið til Torontó í Kanada. Þar bjó hún í 17 ár, starfaði þar meðal annars sem blaðafulltrúi Rauða Krossins og sem kynningarfulltrúi Samtaka Sykursýkissjúklinga. Hún kenndi einnig ritlist, sem hún stundaði sjálf af kappi. Hún skrifaði einkum smásögur og vann ein þeirra til verðlauna í smásagnakeppninni í dagblaði í Ontaríó.
Amalía lést haustið 1989, 63 ára að aldri. Banamein hennar var krabbamein.