Heilsugæslan er ekki að skila þeim árangri sem hún ætti að skila og sérfræðiþjónusta úti á landi er í molum, sagði Birgir Jakobsson landlæknir á landsfundi Landssambands aldraðra sem var haldið í Kópavogi fyrir skömmu. Hann sagði að ef heilsugæslan væri ekki nógu skilvirk, lenti fólk sem þyrfti ekki á hátækniþjónustu að halda, beint inná sjúkrahús. Það telur hann beinlínis slæmt fyrir aldraða, en það beri að forðast í lengstu lög að leggja þá inná spítala.
Heilsugæslan vinni á breiðara sviði
„Fyrsti snertipunktur fólks á að vera í heilsugæslunni sem þarf að vera hæf til að taka við öllum. Hún þarf að vera miklu öflugri en hún er í dag. Þar þurfa að vinna sálfræðingar, geðkunnátta þarf að vera þar fyir hendi, kunnátta á málefnum aldraðra og næringarráðgjafar og sjúkraþjálfar ættu að vera aðgengilegir þar“, sagði Birgir sem telur að heilsugæslan ætti að starfa á miklu breiðara sviði en hún gerir í dag.
Allir á sjúkrahús
„Ef heilsugæslan sinnir þessu ekki, lenda allir á Landsspítalanum, hvort sem þeir þurfa á bráðaþjónustu að halda eða ekki“ sagði hann og bætti við að svona umhverfi væri hættulegt öldruðum. Hann benti á að þessi hópur væri í dag 10 árum yngri en árin segja til um, ef miðað væri við fyrri tíð. Þannig hefði aldurinn færst aftur. Margir væru í fullu fjöri og gætu unnið ef þeir vildu og hefðu þrek til þess.
Sjúkrahús hættuleg öldruðu fólki
Hann sagðist ekki líta á fjölgun eldri borgara sem ógn ef rétt væri haldið á málum. „Við getum ekki reiknað með að allt þetta fólk fari inná stofnanir“ sagði hann á landsfundinum. „Það þarf að fá þjónustu í heimahúsum og það á að halda því frá sjúkrahúsum eins lengi og hægt er. Sjúkrahús eru hættuleg öldruðu fólki. Vöðvamassi gamals fólks rýrnar fljótt þegar það hættir að hreyfa sig reglulega, sem gerist þegar það er lagt á sjúkrahús, það er hætta á að það ruglist í nýju umhverfi með nýju fólki og ennfremur eykst hætta á sýkingum, falli og vannæringu. Heilsugæslan þarf að sinna breiðu sviði og heimahjúkrun heldur öldruðum frá heilbrigðiskerfinu“, sagði hann.
Meira en 10 lyf of mikið
Hann telur einnig að aldraðir þurfi að taka meiri ábyrgð á eigin heilbrigði og segir að margir séu að taka alltof mörg lyf. „Meira en 10 lyf er alltof mikið. Menn eiga að spyrja hvers vegna þeir fái svo mörg lyf og hvort þeir þurfi á þeim að halda. Birgir telur mikilvægt að forðast að leggja aldrað fólk inná sjúkrahús. Það eigi að vera heima hjá sér eins lengi og kostur er.
Aldraðir ekki vandamál
„Það er ekki rétt að líta á aldraða sem vandamál“, segir Birgir. „Mér líkar ekki þessi umræða um að 80 bíði eftir að útskrifast af Landsspítalanum til að komast á hjúkrunarheimili. Erum við með rétt vinnubrögð, þurfti þetta fólk að leggjast inná sjúkrahús á sínum tíma eða átti það var að vera lengur heima hjá sér. Á það að fara á hjúkrunarheimili eða heim til sín?“