Nú fer að nálgast sá tími að börn fái í skóinn og það er gaman að fá að vera aðstoðarjólasveinn á heimili barna sinna. Á sumum heimilum hefur sá siður orðið til að minnsta kosti ein bók finnist í skónum að morgni. Kertasníkir á líka til að lauma heldur veglegri gjöfum að börnum en bræður hans sem á undan fara og við getum alveg mælt með að hann kynni sér eftirtaldar bækur þegar hann fer að nálgast byggðina og bókabúðir.
Skrímslaveisla er frábær bók fyrir þau sem hafa gaman af sögum og eru jafnvel farin að lesa svolítið sjálf. Þetta er ellefta bók þeirra Áslaugar Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal um litla og stóra skrímslið. Sagan er spennandi, myndirnar líflegar og skrímslin svo ótrúlega skemmtileg. Svo sendir hún góð skilaboð til barna og fullorðinna sem lesa með þeim.
Stella segir bless eftir Gunnar Helgason er fyrir stálpaðri krakka og ber öll sömu góðu höfundareinkennin og fyrri bækur hans. Hér er kappið og metnaðurinn, löngunin til að gera vel sem rekur börn áfram í svo mörgu sem þau taka sér fyrir hendur en lesandinn er minntur á að kapp er best með forsjá og margt fleira skiptir máli í lífinu en að sigra. Samt ætti enginn að gefa drauma sína upp á bátinn. Gunnar hefur góðan skilning á hugarheimi barna og nær að skrifa þannig að það höfði til þeirra. Hann er auk þess fyndinn og skemmtilegur og kann að kenna börnum góðar lífsvenjur án þess að predika eða skamma.
Stórkostlega sumarnámskeiðið er fjörug, fyndin og skemmtilega skrifuð barnabók eftir Tómas Zoëga og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur. Tómas er höfundur texta og Sólrún Ylfa myndlýsir. Hér eru á ferð persónur sem mörg íslensk börn þekkja þegar úr fyrri bókum, Skrímslavinafélaginu og Norninni í eldhúsinu. Þau Pétur og Stefanía eru úrræðagóðir krakkar og að þessu sinni gleymist að skrá Pétur á sumarnámskeið svo Stefanía, sem er á mörgum, finnur leiðir til að sjá til þess að hann sé ekki útundan. Stefanía setur að lokum saman stórkostlegt sumarnámskeið og enginn hætta er upp frá því á að Pétri leiðist.
Bakað með Láru og Ljónsa er bráðfalleg og skemmtileg matreiðslubók eftir systurnar, Birgittu og Sylvíu Haukdal. Sylvía er vel þekkt fyrir hugmyndríkan og fallegan bakstur og Birgitta fyrir barnabækur sínar og söng. Hér er að finna spennandi kökur, eftirrétti og meira að segja hryllilegt hryllingsnammi fyrir hrekkjavökuna. Bókin er afar vönduð og vel unnin og ekki ónýtt að athuga hvort Stekkjastaur sé ekki tilbúin til að færa barnabarninu þessa fínu bók og baka svo með börnunum fyrir jólin.
Fíasól í logandi vandræðum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur er fyndin, vel skrifuð og spennandi barnabók. Fíusól þekkja orðið allir krakkar og vita að þau gangi að því vísu að fá góða sögu þar sem hún er annars vegar. Það er Halldór Baldursson sem myndskreytir bækurnar um Fíusól og myndirnar hans eru lifandi og skoplegar. Hver sá jólasveinn sem lætur sér detta í hug að gefa þessa bók í skóinn mun án efa verða vinsælastur þeirra allra.
Tjörnin eftir Rán Flygenring er fjörug og stórskemmtileg saga af tveimur krökkum sem finna dularfulla dæld í garðinum sínum og taka að rannsaka hana. Í ljós kemur að þarna var áður tjörn og krakkarnir reisa hana úr rústunum og það breytir sannarlega ýmsu. Rán er án efa frumlegasti og skemmtilegasti myndskreytir landsins. Hugarflugi hennar virðast engin takmörk sett og hún er snillingur í að skapa ólíklegustu svipbrigði á andlit alls konar fyrirbæra og það getur allt gerst í myndunum hennar. Þessa bók er ofboðslega gaman a lesa en ekki síður sökkva sér ofan í myndirnar og finna alltaf eitthvað nýtt að gleðjast yfir.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.