Skiptir kyn læknisins máli?

Skiptir það máli hvort að læknirinn sem annast þig er karl eða kona. Einfalda svarið er, já ef marka má grein sem birtist nýlega á vef New York Times.  Í greininni segir að það geti  varðað líf eða dauða hvort að læknirinn er karl eða kona. Lifðu núna endursagði og stytti greinina. Samkvæmt rannsókn sem gerð var á 580 þúsund hjartasjúklingum sem komu á neyðarmóttökur sjúkrahúsa í Flórída á tuttugu ára tímabili var dánartíðni bæði karla og kvenna sem voru meðhöndlaðar af kvenkyns læknum lægri en þeirra sjúklinga sem voru meðhöndlaðir af karlkyns læknum. Konur sem voru meðhöndlaðar af karlkyns læknum voru þeir sjúklingar sem voru síst líklegir til að lifa af.  Aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum styðja niðurstöðu Florídarannsóknarinnar.  Í samantektarrannsókn sem gerð var á Johns Hopkins Bloomber School of Public Healt leiddi í ljós að kvenlæknar tala meira við sjúklinga sína en karlarnir. Konurnar eyddu um það bil 10 prósent lengri tíma í samræður við sjúklingana en karlarnir. Hjartasérfræðingurinn Nieca Goldberg og höfundur bókarinnar Woman Are Not Small Men kom af stað umræðu á landsvísu í Bandaríkjunum um hjartasjúkdóma hjá konum. Hún segir að niðurstöður rannsóknarinnar eigi ekki að nota til að útiloka karlkyns lækna heldur til að hvetja sjúklinga til að fara til lækna sem hlusta. „Læknar sama hvort þeir eru karlar eða konur gera allt sem í þeir geta til að bjarga lífi sjúklinga sinna,“ segir hún.  Goldberg segir að það sé mikilvægt fyrir sjúklingana að fá að tjá sig um veikindi sín og bendir á að einkenni hjartasjúkdóma geti verið önnur hjá konum en körlum. Brjóstverkir eru til að mynda sjaldgæfari hjá konum sem eru að fá hjartaáfall en hjá körlum en það er það sem karlkynslæknar spyrja oftast um þegar þeir eru að sjúkdómsgreina. „Ég vil að þeir spyrji konur um önnur einkenni,“ segir hún. Goldberg segir að sjúklingur hafi nýlega hafi sagt sér að hann hefði sóst eftir að komast hjá kvenkyns lækni því karlarnir væru ekki nógu og góðir í að hlusta, útskýra og svara spurningum.

Dr. Don Barr kennari við Stanford Medical School segir að hann ræði oft við nemendur sína um rannsóknir sem gerðar hafa verið á því hvernig læknar nálgist sjúklinga sína á mismunandi hátt eftir kynjum. Samkvæmt könnun sem gerð var í Bandaríkjunum kom í ljós að þegar sjúklingurinn er að greina frá líðan sinni trufluðu karllæknarnir frásögn sjúklinganna eftir 47 sekúndur en kvenlæknarnir eftir um þrjár mínútur.

Barr segir að hann hafi ákveðið að leyfa sjúklingi að að tala eins lengi og hann vildi án þess að grípa fram í fyrir honum. Sjúklingurinn var kona á sjötugsaldri og hún talaði viðstöðulaust í 22 mínútur um veðrið, að hún væri síhóstandi og vissi ekki hvaða lyf hún ætti að kaupa í apótekinu. Eftir að Barr hafði hlustað vandlega á hvað konan hafði að segja greindi hann hana með lungnakrabba sem fékkst svo endanlega staðfest síðar. Barr bauð henni samúð sína en konan sagði að hún hefði átt gott líf en hún vildi líka segja honum að hann væri besti læknir sem hún hefði komist í tæri við. Hann væri sá eini sem hefði hlustað á hana.

Elsa Valsdóttir skurðlæknir á Landspítala skrifaði grein í Læknablaðið fyrr á þessu ári undir fyrirsögninni Eru konur betri læknar en karlar  Í greininni segir hún meðal annars „Í febrúar birti JAMA grein þar sem skoðaðar voru útkomur sjúklinga úr Medicare-kerfinu í Bandaríkjunum (65 ára og eldri) eftir því hvort lyflæknirinn þeirra (general internist) var kona eða karl. Yfir ein og hálf milljón innlagna voru skoðaðar í handahófskenndu úrtaki og sérstaklega skráð dánartíðni og tíðni endurinnlagna. Í ljós kom að dánartíðni sjúklinga kvenkyns lækna var marktækt lægri en þeirra sjúklinga sem höfðu karlkyns lækni, 11,07% á móti 11,49%, eða hlutfallsleg áhættuminnkun upp á 4%. Það sama gilti um endurinnlagnir, 15,02% á móti 15,57%,

Í október birtist grein í British Medical Journal frá háskólanum í Toronto, Kanada, þar sem skoðaðar voru útkomur 104.630 sjúklinga eftir skurðaðgerðir. Þegar búið var að leiðrétta fyrir þáttum tengdum sjúklingum, skurðlæknum og spítölum stóð eftir að dánartíðni sjúklinga í valaðgerð sem höfðu konu sem skurðlækni var marktækt lægri en þeirra sem höfðu karl sem skurðlækni, 11,1% á móti 11,6%, hlutfallsleg áhættuminnkun 12%.

Af hverju er verið að rannsaka þetta? Atferlisfræðilegar rannsóknir hafa sýnt með vísindalegum hætti að konur og karlar hegða sér ekki eins – þó það megi að sjálfsögðu deila um hver ástæðan fyrir því sé. Í samtali almenns eðlis eru konur líklegri til að segja meira frá sjálfum sér, hafa hlýrra viðmót, hvetja aðra til að tjá sig og draga markvisst úr eigin stöðu til að ná jafnræði við þann sem þær tala við. Þá hefur verið spurt: skilar þessi munur sér í því hvernig konur og karlar stunda læknisfræði eða hverfur þessi munur í þeirri myllukvörn sem læknanámið er? Svarið við því er að munurinn heldur sér. Árið 2002 kom út safngreining sem skoðaði 29 greinar þar sem þetta var rannsakað og niðurstaðan var sú að kvenkyns læknar notuðu fleiri samskiptaleiðir sem ýttu undir sjúklingamiðaða meðferð (patient centered care) en karlkyns læknar og eyddu meiri tíma með sjúklingunum sínum. Konur eru einnig líklegri til að fylgja klínískum leiðbeiningum og sinna forvörnum.

 

Í niðurlagi greinarinnar segir Elsa: „Við höfum rannsakað endalaust hvaða þættir sem snerta sjúklinginn skipta máli varðandi útkomur, þættir sem snerta heilbrigðisstofnanir, svo ekki sé talað um rannsóknir á lyfjum og tækjum. Niðurstöður þessara tveggja rannsókna ættu að hvetja okkur til að beina sjónum að okkur sjálfum, því hvernig við vinnum og ekki síst hvernig við ölum upp unga fólkið sem eru læknar framtíðarinnar. Engir af þeim þáttum sem taldir voru upp hér að ofan, sem greina kvenkyns lækna frá karlkyns læknum, eru í raun bundnir kyni heldur einhverju sem hægt er að læra, meðal annars í samskiptafræði. Ef við gerum sömu vísindalegu kröfur til framkomu okkar sjálfra og við gerum til meðferðarúrræðanna sem við ráðleggjum, mun sjúklingum okkar allra farnast betur. Grein Elsu er hægt að lesa í heild hér. http://www.laeknabladid.is/tolublod/2018/01/nr/6591

Ritstjórn nóvember 14, 2018 09:29