Skrifar minningargreinar fyrir fólk

Anna Kristine Magnúsdóttir hefur ríka kímnigáfu og er af mörgum talin ein skemmtilegasta manneskja sem um getur. Anna hefur ekki alltaf haft ástæðu til að hlæja um ævina en hún hefur haldið í húmorinn sama á hverju hefur gengið og hann hefur komið sér vel í skrifum hennar. Hún hefur lengst af starfað sem blaðamaður og hefur skrifað fjórar bækur, Litróf lífsins 1 og 2, Milli mjalta og messu og Æviminningar Margrétar í Dalsmynni. Og nú hefur hún sérhæft sig í að skrifa minningargreinar fyrir fólk sem langar að minnast ástvina en treystir sér ekki í skrifin. “Ætli maður hafi ekki þurft að upplifa sorg sjálfur til að geta sinnt þessu starfi vel,” segir Anna Kristine. Hún reynir að milda sorg þeirra sem biðja hana um að skrifa um ástvin með því að laða fram það jákvæða og skemmtilega sem um þann látna má segja.

Flestir vilja kveðja hinstu kveðju

“Þetta fer þannig fram að ég hitti fólk eða tala við það í síma og fæ upplýsingar sem ég get notað í textann,” segir Anna. “Ég reyni að laða fram skemmtilega hluti og það sem hinn látni upplifði á æviferlinum, punkta niður allt sem ég get notað í skrifin. Síðan skrifa ég greinina og sendi viðkomandi til yfirlesturs. Síðan fæ ég ýmist samþykki eða breytingar sem ég færi inn og geng frá greininni til birtingar.

Stundum vill fólk hafa bara sálm sem það fær mig til að velja og lætur það duga og það er líka allt í lagi. Flestir vilja samt vera persónulegri.

Fékk hugmyndina hjá prófarkalesara

“Hugmyndina að því að bjóða þessa þjónustu að skrifa minningargreinar fyrir fólk fæddist í matarboði hjá Auði Haralds rithöfundi fyrir 20 árum og þar var líka prófarkalesari Morgunblaðsins,” rifjar Anna upp. “Lesarinn sagði okkur frá því hvað kæmu oft illa unnar greinar til birtingar og þá væri vinnan við að koma textanum á skiljanlegt mál svo mikil að hún væri að gefast upp á að lesa þessar greinar. Fólk áttar sig ekki á því hvað fer mikill tími í að lagfæra svona texta því enginn vill láta kauðslegan texta um ástvini birtast. Prófarkalesarinn sagði þá við mig af hverju ég tæki ekki að mér að skrifa þessar greinar fyrir fólk. Ég velti því fyrir mér í nokkurn tíma og úr varð að ég og vinkona mín tókum okkur til og auglýstum þjónustuna 2003. Við ákváðum þá að eðlilegt væri að taka 7.000 krónur fyrir og núna, eftir að vera komin með reynsluna, tek ég 10 – 12.000 eftir umfangi. Eitt sinn hitti þessi vinkona mín einn viðskiptavina okkar og kom til baka útgrátin af því sorgin var svo yfirþyrmandi hjá honum og hún varð fullur þátttakandi. Hún gat síðan ekki fengið af sér að rukka þennan sorgmædda aðstandanda fyrir skrifin. Þá sá ég að þetta væri nú ekki arðvænlegur bissness nema mér tækist að setja fjarlægð á milli mín og þess sem er að syrgja og það hef ég reynt að gera. Við hættum þessu eftir nokkurn tíma því við vorum báðar í annarri vinnu en nú hef ég bæði tíma og getu til að skrifa slíkar greinar,” segir Anna Kristíne og bætir við að galdurinn við að skrifa minningargrein sé að laða fram það jákvæða og skemmtilega sem hægt sé að nota við skrifin hjá ástvininum. Hún fullyrðir að það sé í flestum, ef ekki öllum tilfellum, hægt.

“Hrærivélin er þögnuð….”

Móðir Önnu Kristíne er 88 ára gömul og er húmoristi eins og Anna. Hún sagði við Önnu um daginn að nú ætlaði hún að hætta að baka því hún væri svo hrædd um að einhver myndi skrifa minningargrein um sig sem byrjaði svona: “Hrærivélin er þögnuð……”.

 

 

Ritstjórn september 19, 2019 08:47