Skrítið að vakna á morgnana og fara ekki í vinnu

„Mér fannst það svolítið skrítið fyrst, þegar ég hætti að vinna. Aðallega að vakna á morgnana og fara ekki í vinnuna. En ég kom mér upp nýjum lífsstíl“, segir Hólmfríður Kolbrún Gunnarsdóttir heilbrigðisvísindamaður, sem hætti að vinna fyrir 10 árum. „Ég hætti eins og vera ber í sama mánuði og ég varð sjötug“, segir hún, en þá hafði hún unnið lengi á rannsóknar- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlits ríkisins.  Hún segir rannsóknir hafa sýnt að heilsufar fólks er misjafnt eftir starfsstéttum og líka eftir menntun.  Það sé talað um að Ísland sé stéttlaust land, en svo sé ekki. „Það er mikill áhugi á þessu núna, menn eru t.d. að átta sig á að menntun hefur mikil áhrif á heilsu. Þar kemur lífsstíll og heilsuhegðun við sögu. Reykingar eru til dæmis miklu meiri meðal þeirra sem hafa skamma skólagöngu að baki. Menntun og fjárhagur skipta verulegu máli og starfið er samþætt þessu tvennu. Þetta hefur verið rannsakað mikið erlendis, en við vorum ein á báti við þetta hjá Vinnueftirlitinu á sínum tíma. Á síðari árum hefur rannsóknarþáttur starfseminnar þar farið minnkandi og það stendur til að leggja hann alveg af“, segir hún.

Eitthvað í gangi á hverjum degi

Hólmfríður sem hafði unnið lengi og mikið utan heimilisins kom sér upp ákveðnum lífsstíl þegar hún hætti að vinna launaða vinnu. „Ég skrifaði vinkonu minni bréf með leiðbeiningum um að hætta að vinna, en því miður hafði það engin áhrif á hana“, segir hún hlæjandi. „Ég er í tveimur gönguhópum, bókaklúbbi, leikfimi, spila bridge og svo er ég í kór. Þar fyrir utan fer ég í Hjálparstarf kirkjunnar einu sinni í viku. Þar er ég í hópi um það bil tíu kvenna, sem úthluta fötum til þeirra sem þurfa á því að halda. Það er eitthvað um að vera hjá mér á hverjum degi. Svo hugsaði ég með mér að það væri leiðinlegt ef börnin mín vissu ekkert um hvaðan þau koma. Það er auðvelt að leita heimilda um forfeður mína en saga formæðranna er hvergi skráð. Ég settist því við að draga þær fram í dagsljósið.  Bókin um formæður Hólmfríðar, …hjá grassins rót, kom nýlega út hjá bókaútgáfunni  Tindi á Akureyri.

Fötin koma sér vel

„Ég fór í hjálparstarfið til að reyna að láta gott af mér leiða. Við úthlutum fötum. Áður var líka úthlutað mat, en það er hætt. Nú fær fólk kort hjá félagsráðgjafa til að geta keypt mat. En við afgreiðum föt, svipað og í verslun, nema fólk borgar ekki fyrir þau“, segir Hólmfríður . Hún segir að fatnaðurinn komi frá fólki sem kemur með hann og gefur Hjálparstarfinu. Þetta sé mikið magn, en þó ekki jafn mikið og hjá Rauða krossinum sem sé með stóra skemmu yfirfulla af fötum.  Reyndar vantar okkur alltaf föt á stálpuð börn og skó, bæði á karla og konur. Það er fjölbreyttur hópur sem fær föt hjá Hjálparstarfinu, bæði einstaklingar og fjölskyldur með börn, segir hún.  Íslendingarnir séu fáir, en í hópnum séu innflytjendur sem ýmist hafi verið hér í skamman tíma, eða búið hér lengi.  Hólmfríður segir að fötin komi sér vel, en leysi ekki ein og sér þann vanda sem margir standi frammi fyrir. Þar þurfi meira að koma til svo sem íslenskukennsla og fleira. Hún segir að hún hafi eignast góðar vinkonur í sjálfboðaliðsstarfinu og starfsmenn Hjálparstarfs kirkjunnar séu til fyrirmyndar, sýni virðingu og hlýju í sínum störfum, enda sé ekki litið á fataúthlutunina sem ölmusu.

Margir að gera ýmislegt skemmtilegt

Hólmfríður segir margt fólk í kringum sig sem er hætt að vinna, vera að gera allt mögulegt skemmtilegt. Hún nefnir smið sem er að vinna fyrir þau hjónin. Hann er hættur störfum, en vinnur tilfallandi verkefni sem honum finnst henta. Þá eigi hún vinkonu, Hallveigu Thorlacius, sem sé að flytja brúðuleikhúsverkefni í öllum grunnskólum landsins, en það er verk um ofbeldi s.s. kynferðislega áreitni og misnotkun barna. Hallveig er að verða áttræð.  „En fólk er svo misjafnt, það er stórmerkilegt. Mér hefur alltaf fundist svo gaman að gera eitthvað. Það er alls ekki dyggð. Sumir hafa þannig sálarró að þeir geta tekið því rólega. Ég hef þetta frá pabba mínum. Þegar ég var yngri hélt ég að allir væru steyptir í sama mót, en þannig er það ekki, fólk er mjög ólíkt“.

Heimur batnandi fer

Annað sem Hólmfríður hefur haft meiri tíma fyrir en áður, eru barnabörnin. Hún er gift Haraldi Ólafssyni prófessor og þau eiga tvö börn saman og sex barnabörn. Haraldur á auk þess son og sonardóttur. Hólmfríður telur að streitan í samfélaginu stafi af því að fólk sem vinnur fulla vinnu nú á dögum, auk þess að reka heimili, vilji gera svo margt annað, fara í ræktina, ganga á fjöll, vera í kór og margt fleira. „Þetta var ekki svona hjá minni kynslóð“, segir hún. „ Maður vann mikið og var svo heima hjá börnunum. Nú fara allir allt með börnunum sínum horfa t.d. á þau í íþróttum. Þetta var ekki til þegar ég var með börnin mín lítil. Börnin gengu og fóru í strætó til dæmis í tónlistartíma. Dóttir mín fór að passa börn 12 ára. Nú er verið að passa börn sem eru 12 ára“, segir Hólmfríður um þessa breyttu tíma. En hún telur að heimurinn fari batnandi. „Það er stundum talað um að unga fólkið viti ekkert í sinn haus. En það er öfugt, barnabörnin vita margt og kunna ýmislegt sem vefst fyrir mörgum lærdómsmanninum“, segir hún að lokum.

Að loknu viðtalinu göngum út í sólina  í garðinum hjá Hólmfríði, sem er sannkallaður skrúðgarður. Þau Haraldur búa í raðhúsi í vesturhluta borgarinnar og eru ekkert að hugsa um að minnka við sig. „Það segja allir að það sé svo gott að minnka við sig“, segir hún „Þá taki fólk svo mikið til. En ég segi nú bara, að það er hægt að taka til þó maður flytji ekki“.

 

 

Ritstjórn maí 30, 2019 07:00