Tengdar greinar

Fleygðu þessum 13 hlutum strax

Ekki dragnast með hluti sem gera ekkert fyrir þig og eru aldrei notaðir.

Hvað skyldu vera margir hlutir á venjulegu íslensku heimili? Margir eiga alltof mikið af öllu og á undanförnum árum hefur verið tilhneiging í átt að „minimalisma“ sem gengur út á að menn hafa ekki í kringum sig hluti, nema þeir þurfi virkilega á þeim að halda. Það hafa verið gerðar alls kyns rannsóknir á því hvers vegna fólk safnar í kringum sig alltof miklu dóti og drasli. Það hefur verið tengt við stress og kvíða og hefur jafnvel leitt til þess að menn fara að borða of mikið eða fyllast frestunaráráttu. Og ekki nóg með það, þeir sem aðhyllast „minimalisma“ segja að drasl og dót taki ekki bara pláss, það kosti peninga, sé stressvaldandi og menn þurfi að bæta við sig vinnu til að kaupa meira.

Þó fyrstu viðbrögð fólks séu að reyna að koma skipulagi á dótið, þá er það ekki svarið að dómi „minimalistanna“ . Að skipuleggja dótið sé bara vel skipulögð söfnun. Besta leiðin til að „skipuleggja“ dótið sitt segja sérfræðingar, er að halda einungis eftir því sem bætir einhverju við líf þitt, eitthverju sem þú notar.

Í grein á aarp.org, sem hér er stuðst við að hluta, er spurt hvort menn séu tilbúnir að losa sig við dót til að koma fyrir því sem skiptir mestu máli. Síðan koma ráðleggingar um hverju menn eiga að henda, sem við endursegjum hér í stuttu máli.

 1. Öllu sem bætir engu við líf þitt

Spyrjið ykkur, hvernig getur líf mitt orðið betra ef ég er með minna dót í kringum mig? Svarið við spurningunni hjálpar ykkur að skilja hvers vegna þið viljið losa ykkur við dótið, en ástæðurnar geta verið mjög mismunandi. Sumir vilja til dæmis breyta kauphegðun sinni til að öðlast meira fjárhagslegt frelsi á meðan aðrir vilja eiga minna dót sem þarf að eyða tíma í að hugsa um og hafa meiri tíma fyrir fjölskyldu og vini.

Það er mikilvægt að skilja hvers vegna við viljum minnka við okkur dótið, því það er hvatning til að byrja og hjálpar fólki til að skilja hverju er ofaukið.

 1. Því sem „gæti verið gott að grípa til“

„Minimalistar“ segja ákveðna hættu felast í að geyma eitthvað, sem menn halda að gæti verið gott að geta gripið til síðar. Ef fólk horfir í kringum sig heima hjá sér finnur það líklega hundruð hluta sem það hefur geymt, ef ske kynni að það yrði þörf fyrir þá í fjarlægri og ófyrirsjáanlegri framtíð. Hendið þeim bara, það er yfirleitt hægt að útvega nýja fyrir lítinn pening, ef svo ólíklega vildi til að það þyrfti að nota þá síðar. Undantekning frá þessu er neyðarútbúnaður, svo sem Fyrstu hjálpar kassinn sem ætti alltaf að vera innan seilingar.

 1. Myndum og pappírum

„Þetta er spurning um að safna minna efni,“ segir sérfræðingur sem rætt er við í þessari grein. Menn eiga ekki að geyma myndir í tvíriti, eða lélegar myndir, afsláttarmiða og tilboð sem þú hefur fengið í póstinum en notar aldrei, og ekki halda til haga reikningum og opinberum pappírum sem auðveldlega er hægt að nálgast á netinu, ekki heldur gömlum blöðum, tímaritum eða úrklippum. Til að losa sig við gamlar ljósmyndir sem geta verið mikils virði fyrir eigandann má taka myndir af þeim með símanum og henda þeim svo.

 1. Alvöru rusli

Það er gott að byrja ferlið til að losa sig við hluti með því að laga vel til í húsinu. Það er auðvelt og hrærir ekki upp í tilfinningalífinu. Menn komast í gang, þetta minnkar ruslaóreiðuna og hjálpar fólki að sjá betur hvað er þarna. Losið ruslaföturnar og hendið pappírnum og ruslpóstinum sem hefur hlaðist upp í eldhúsinu.

 1. Skemmdum hlutum

Er ástæða til að geyma uppáhaldskaffibollann þegar komin eru skörð í hann eða hálsmen sem er dottið í sundur? Það er kominn tími til að sleppa af þessu hendinni. Játið fyrir ykkur að hlutir séu skemmdir og hendið þeim. Jafnvel þótt þið hafið ætlað að reyna að selja þá. Það er ekki líklegt að það sé hægt að selja þetta gamla dót fyrir jafnmikinn pening og þið haldið. Það sama gildir um hluti sem hafa týnst. Ef lokið af plastílátinu hefur týnst, hendið því þá.

 1. Aukadóti

Menn nota alltaf sína uppáhaldshluti, en eiga samt sem áður aukahluti af sömu sort í geymslu. Kannski voru þeir keyptir á útsölu, eða þér hefur þótt vissara að eiga tvenns konar hluti af sömu gerð. Það kemur hins vegar að því að menn verða að ákveða hvað sé nóg. Þetta gildir um kaffibolla, mæliskeiðar og könnur, sleifar, þeytara, handtöskur, sólgleraugu, penna og fleira.

 1. Því sem aldrei er notað

Það gerir ekkert til þó ég geymi þetta. Ef menn hugsa þannig eru þeir hvattir til að spyrja sig frekar hvernig viðkomandi hlutur bætir lífsgæði þeirra. Er hann einhvern tíma notaður? Veitir hann ánægju? Ef hann gerir það ekki, er ekki pláss fyrir hann. Þetta geta verið hlutir eins og gömul krydd, óþægilegir skór, myndarammar sem aldrei hafa verið notaðir, kassar, gjafir sem fólk langaði ekki að eiga að hafa lent niður í geymslu og bækur sem menn eru búnir að lesa og munu aldrei lesa aftur. Ef svo ólíklega vill til að einhvern langi aftur að lesa bók sem hefur verið hent, er hægt að fá hana á bókasafni.

 1. Dóti sem tengist áhugamáli sem ekkert varð úr

Reynið að meta það raunsætt ef þið hafið haft áhugamál sem þið eruð ekki að sinna lengur. Hendið hlutunum sem fylgja því ef þeir eru ekki lengur í notkun. Kannski keypti einhver prjónadót og byrjaði að prjóna en náði ekki tökum á því. Þá er tími til kominn að gefa garnið. Sama er með golfsettið sem var notað nokkrum sinnum en endaði svo niður í geymslu. Ef menn rekast hins vegar á hálfklárað verkefni sem þeir höfðu áhuga á og langar til að ljúka, er það gott mál. Það má líka flokka það sem tiltekt. Að eiga málaragræjur sem aldrei eru notaðar flokkast undir hið gagnstæða.

 1. Farteski úr fortíðinni

Ef þið eigið ekki lengur hund og ætlið ekki að fá ykkur annan hund, losið ykkur við hundakörfuna, skálina og ólina. Ef þið eruð hætt störfum á vinnumarkaði, pakkið saman sem mestu af vinnufötunum og skrifstofudótinu. Þetta veitir fólki meira andrúm og pláss fyrir hluti sem koma sér vel á því æviskeiði sem það er á núna.

 1. Því sem er útrunnið

Þetta geta verið lyf, matur og snyrtivörur. Ef þú átt erfitt með að koma því í verk að henda þessu, gerðu það samt, heilsunnar vegna. Það er hægt að fá bólgur í andlitið ef menn nota útrunnið meik. Það getur valdið roða og bólum svo eitthvað sé nefnt. Komdu gömlu lyfjunum á viðeigandi stað og hentu gömlum matvælum, öryggisins vegna.

 1. Því sem veldur vanlíðan

Ef einhver hlutur veldur ykkur vanlíðan, fleygið honum strax. Hendið gömlum og vondum myndum, gjöfum frá vinum sem brugðust eða frá fyrrverandi mökum. Hreinsið til og opnið uppá gátt, þannig að hægt sé að hleypa nýju fólki og nýjum upplifunum inn í lífið. Stundum er hægt að selja dótið á Facebook.

 1. Fötum sem passa ekki lengur

Mörg okkar eiga þvengmjóar gallabuxur eða mussur frá því við vorum í menntaskóla. Þessi föt eru löngu hætt að passa okkur. Þegar við skoðum þessi gömlu föt minna þau okkur óafvitandi á að þessi skemmtilegu ár eru löngu liðin. Við eigum að geyma föt í skápunum sem við hlökkum til að fara í, í stað þess að nota skápinn sem geymslu fyrir föt sem við munum aldrei nota framar.

 1. Tölvurusli

Það safnast alls konar rusl fyrir í tölvunum okkar. Segið upp áskrift að síðum sem þið notið ekki lengur og tónlist sem þið hafið ekki gaman af. Takið gömul skjöl sem þið hafið vistað og tölvupósta sem þið þurfið ekkert á að halda og fleygið þeim í ruslið. Segið upp tölvupóstáskriftum sem fylla pósthólfið í tölvunum og þið notið ekki lengur. Eyðið öppum sem taka frá ykkur orku og hættið í hópum á netinu sem þið hafið engan áhuga á að vera í. Myndirnar í tölvunni eru svo sérkapítuli. Flestir eiga ógrynni af myndum í tölvunum sem þeir skoða afar sjaldan. Þær eru hugsanlega ekki aðgengilegar heldur og liggja þarna óflokkaðar og illa merktar. Farið í gegnum myndasafnið, flokkið og hendið, en hafið það aðgengilegt þannig að hægt sé að skoða og njóta.

Ritstjórn september 26, 2022 12:00