Mörgum sem komnir eru yfir miðjan aldur finnst tíminn fljúga áfram hraðar og hraðar. Hvers vegna skyldi það vera? Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurning sem vakti áhuga blaðamanns. Hefur hár aldur og hægari líkamsstarfsemi áhrif á það hvernig við skynjum hraða tímans? Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir svaraði spurningunni á vefnum og fer hluti af svari hans hér á eftir.
Í stuttu máli má segja að skynjun fólks á hraða tímans sé mjög breytileg, bæði eftir aldri, virkni og öðrum aðstæðum. Við vitum til dæmis að til er aldrað fólk sem er ekki síður frískt og nýtur lífsins en þeir sem yngri eru. En hjá hverjum og einum verða þó ákveðnar aldurstengdar breytingar sem hægja á hreyfingum og viðbrögðum.
Þannig nær eldra fólk ekki sömu hámarkstíðni hjartsláttar við áreynslu og yngra fólk. Vöðvasamdráttur verður hægari og stafar það meðal annars af því að fækkun verður á einni af tveimur tegundum vöðvaþráða, snörpu tegundinni. Taugaþræðir eru umvafðir efni, sem kallast myelín. Það sér til þess að hraða flutningi taugaboða. Ef myelín verður fyrir hrörnun, eins og gerist oft með hækkandi aldri, hægir á taugaleiðni.
Af þessu leiðir að aldraðir ganga og hlaupa hægar en yngra fólk. Til að mynda eiga margir aldraðir í vandræðum með að komast yfir götu á grænu ljósi. Síðan eru margir eldri borgarar með sjúkdóma og á lyfjum sem enn hægja á viðbrögðum. Þetta kemur til dæmis fram í því hvernig fólk bregst við byltum. Um sextugt nær fólk að rétta út höndina við byltu og verjast þannig, en þeir sem eru óheppnir brotna á úlnlið. Þeir sem eru 15 árum eldri ná ekki að setja höndina jafnlangt út og geta því brotnað á upphandlegg. Þeir sem eru enn eldri eða meira lasburða ná alls ekki að bera fyrir sig höndina og brotna því eða merjast á mjöðm.
Einnig verða margvíslegar breytingar í miðtaugakerfi aldraðra, þó að þeir séu frískir. Taugafrumum í miðtaugakerfi fækkar og minna verður af ýmsum boðefnum heilans. Við þetta hægir á allri úrvinnslu heilans.
Aldraðir eru mjög mismunandi. Mjög frískt eldra fólk, sem þjálfar sig líkamlega og viðheldur andlegu atgervi með lestri, tjáningu og hvers konar virkni, getur verið betur á sig komið en margur sá sem yngri er. En jafnvel þetta frískasta eldra fólk hefur þó óumdeilanlega orðið fyrir ýmsum aldurstengdum breytingum sem hægja á tauga- og vöðvaviðbrögðum miðað við það sem þau voru áður hjá sama einstaklingi.
Hvernig skynja menn hraða tímans með hækkandi aldri? Það er mjög misjafnt meðal aldraðra og munurinn vex með hækkandi aldri. Börn upplifa tímann þannig að hann sé lengur að líða en þeir sem fullorðnir eru, en frísku og önnum köfnu fólki á miðjum aldri finnst hann fljúga áfram. Hver tímaeining hjá ungri manneskju er stærra hlutfall af ævinni en sama tímaeining hjá eldra fólki og kann það að skýra upplifunina að nokkru leyti.
Hins vegar kann upplifunin einnig að tengjast þeim verkefnum sem manneskjan tekur sér fyrir hendur. Þegar komið er á eftirlaun setjast sumir í helgan stein í orðsins fyllstu merkingu, en aðrir taka upp margvísleg áhugamál. Þeir sem fylla tíma sinn með viðfangsefnum tjá sig gjarnan um að tíminn líði hratt, en þeir sem sitja í iðjuleysi kvarta oft um það hve tíminn sé lengi að líða. Andleg líðan spilar hér einnig inn í. Þeir sem eru daprir og niðurdregnir upplifa tímann þannig að hann sé lengi að líða, öfugt við þá sem eru virkir eða jafnvel ofvirkir.
Sjá svar Pálma í heild með því að smella hér.