Geir Jón Þórisson fyrrverandi yfirlögregluþjónn skrifar
Það var snemma árs 1975 að ég var beðinn um að koma í lögregluna í Vestmannaeyjum, en þar hafði ég búið síðan í upphafi árs 1974. Þetta var algjörlega fráleitt, kæmi aldrei til greina að ég gerðist lögreglumaður. Mér fannst þetta bara ekki spennandi starf. Ég starfaði sem verslunarstjóri í vélarverslun Magna í Vestmannaeyjum og líkaði það bara ágætlega. Síðan gerist það snemma árs 1976 að ég er aftur beðinn um að koma sem afleysingamaður í lögregluna. Hugleiddi ég aðeins málið því í ljós kom að ég átti inni um tvo mánuði í sumarleyfi og þyrfti að taka út það sumar.
Ég var að byggja og kominn með eiginkonu og sá fram á að launalaust frí í tvo mánuði gæti ekki gengið. Lét ég slag standa og tók að mér verkið. Það var síðan á minni fyrstu vakt að ég sá að þetta var starf sem hentaði mér mjög vel. Var mér boðið starf áfram eftir sumarleyfi og þáði ég það og starfaði sem lögreglumaður í Vestmannaeyjum í 16 ár og síðan í Reykjavík í 20 ár. Aldrei sá ég eftir því að hafa farið í lögregluna.Síðustu árin mín í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu voru orðin mjög slítandi og krefjandi. Sérstaklega þegar eftir hrunið var gengið í að skera fjárheimildir embættisins niður um hundruði milljóna og mér var gert að fækka lögreglumönnum sem undir mig heyrðu.
Þetta var mér mjög erfitt því fækkun lögreglumanna þýddi ekkert annað en minkandi löggæslu og hver lögreglumaður þurfti stöðugt að bæta á sig fleiri verkefnum. Ákvað ég þá að nýta mér eftirlaunaréttinn minn og hætta þegar ég yrði 60 ára. Sá að það var miklu skynsamlegra að fækka yfirmönnum, en þess í stað halda við fjölda lögreglumanna sem voru að vinna á götunni og fjölga þeim ef mögulegt væri. Var ég afar sáttur við þessa ákvörðun enda flutti ég strax til Vestmannaeyja aftur og þar er lífið alveg dásamlegt.
Árin mín í lögreglunni voru mjög gefandi. Það var mikill munur á að starfa sem lögreglumaður í Vestmannaeyjum en í Reykjavík. Ég þekkti hvern einasta mann í Eyjum og fann fljótlega taktinn hvernig best væri að höndla hvern og einn í anda laganna en ekki eftir bókstaf. Þegar ég kom til Reykjavíkur varð ég fljótt yfirmaður og oft talsmaður lögreglunnar út á við. Sá ég fljótt að ég yrði að höndla starf mitt með svipuðum hætti og í Eyjum. Eiga samtal við fólk og útskýra á mannamáli ástæðu afskipta lögreglu og eins að vera tilbúinn til að viðurkenna mistök ef þau voru gerð. Lögreglan er ekki fullkomin en hún hefur vald og það er afar vandmeðfarið. Þetta reyndi ég að hafa í huga þó svo að ég hafi oft brugðist þessum gildum, en ég er bara ófullkominn maður.