Smellum saman þó við séum ólík

Flestir sem koma í klúbbinn eru þar í mörg ár.Fólk finnur það fljótt hvort það passar inn eða ekki.Þeir sem ekki hafa átt samleið með okkur eru djammarar og þeir sem eru eingöngu í makaleit,“ segir Hrafnhildur Einarsdóttir, félagi í Paris.

Paris er klúbbur fyrir þá sem búa einir að eigin vali, annað hvort í kjölfar skilnaðar eða makamissis en langar að eignast nýja vini til að gera eitthvað skemmtilegt með.

Hrafnhildur Einarsdóttir

Hrafnhildur Einarsdóttir

Innanlands og utan

Starfið í Paris byggist á hópastarfi, þar er bíóhópur, spjallhópur, gönguhópur, út að borða hópur, ferðahópur svo eitthvað sé nefnt. Svo hittist fólk á kaffihúsum og einu sinni í mánuði eru félagsfundir í hliðarsal Kringlukráarinnar. Sérstakur ferðaklúbbur er starfræktur og fólk ferðast saman bæði innanlands og utan.

„Fólk finnur það fljótt að við erum bara að lifa lífinu fyrir okkur sjálf og eignast góða vini,“ segir Hrafnhildur.

Klúbburinn er ekki nýr af nálinni en hann var stofnaður á vormánuðum 2003.

Mörgum finnst erfitt að hafa samband og drífa sig af stað og það þekkja þeir sem fyrir eru, því einu sinni komu þeir nýir. Klúbbfélagar gera því allt sem í þeirra valdi stendur til að láta fólki finnast það velkomið þegar það kemur. Nýjum félögum er gjarnan bent á að koma á Cafe Milanó á mánudags eftirmiðdögum. Þá koma margir og nýir félagar kynnast þeim eldri í gegnum spjall.

Hallar á karlana

„Í París er ósköp venjulegt fólk, frá 57 ára og uppí áttrætt. Fólk sem enn er að vinna, fólk sem er hætt að vinna, efnaðir og ekki efnaðir. Öll smellum við saman þótt ólík séum. Ekkert aldurstakmark er í klúbbnum en það væri gaman ef okkur tækist að yngja aðeins upp svona bara til að halda klúbbnum gangandi,“ segir Hrafnhildur. Hún segir að ekkert aldurstakmark sé í Paris en það hafi æxlast þannig að yngra fólk hafi ekki komið. Yngsti félaginn hafi verið 48 ára en hann sé hættur.

Góður kaffisopi hleypir lífi í umræðurnar

Góður kaffisopi hleypir lífi í umræðurnar

„Við tökum á móti öllum sem vilja vera með okkur sama hvað fólk er gamalt.Það hallar töluvert á karlana. Það hafa margir nýjir félagar bæst í hópinn undanfarin misseri, flestir þeirra eru konur. Við þurfum með einhverju móti að fjölga körlunum ef þessir menn sem sitja bara heima vissu hvað við erum skemmtilegar, þá myndu þeir hoppa uppúr sófanum og koma með það sama,“ segir Hrafnhildur og skellihlær.

 

 

Ritstjórn nóvember 15, 2014 10:00