Það var sögulegur atburður þegar erfðabreytt svínsnýra var grætt í lifandi manneskju 16. mars síðastliðinn á Massachusetts General Hospital í Boston. Nýraþeginn var 62 ára gamall maður með lokastigsnýrnabilun. Aðgerðin markar mikilvæg þáttaskil í læknavísindum en það er alltaf þörf á nýrum til ígræðslu í fólk. Það er ánægjulegt að aðgerðin hafi farið fram á þessu stærsta og elsta kennslusjúkrahúsi Harvardháskóla en fyrsta aðgerðin þegar nýra úr manni var grætt í lifandi manneskju var einmitt gerð á einum af Harvardspítulunum, Brighams and Women´s-sjúkrahúsinu árið 1954. Þá aðgerð framkvæmdi skurðlæknirinn Joseph Murray sem var fyrstur til að græða líffæri milli manna og hlaut hann Nóbelsverðlaunin fyrir árið 1990. Það er engin tilviljun að ígræðsla svínsnýrans var gerð á Mass General Hospital því þessir tveir Harvardspítalar hafa haft fremstu lækna og vísindamenn á sviði ígræðslulækninga sem hafa unnið hafa að því að bæta og lengja líf sjúklinga í mjög langan tíma.
Áratuga vísindarannsóknir og tilraunir liggja að baki
Vísindavinna sem liggur að baki þessa risastóra áfanga nær yfir áratugi. Alls voru gerðar 69 breytingar á erfðamengi svínsins sem nýrað var fengið úr til að koma í veg fyrir höfnun nýrans og aðra alvarlega fylgikvilla eins og sýkingar. Grein sem byggir á vísindastarfi í tengslum við þessa ígræðslu birtist í Nature, einu virtasta vísindatímariti heims.
Af þessu tilefni sagði Anne Klibanski, læknir og forstjóri sameinuðu spítalanna tveggja Mass. General og Brigham and Women´s (Mass General Brigham). „Vísindamenn og læknar okkar eru stöðugt að þrýsta á mörk vísinda til að umbylta læknisfræði og leysa mikilvæg heilsufarsvandamál sem sjúklingar okkar standa frammi fyrir í sínu daglegu lífi. Næstum sjö áratugum eftir fyrstu árangursríku nýrnaígræðsluna hafa læknar okkar enn og aftur sýnt fram á skuldbindingu okkar til að veita nýstárlegar meðferðir og hjálpa til að létta sjúkdómsbyrði sjúklinga okkar og annarra sjúklinga um allan heim.“
„Óþreytandi skuldbinding lækna okkar og vísindamanna til að bæta líf ígræðslusjúklinga okkar, bæði núverandi og þeirra sem í framtíðinni munu þurfa ígræðslu líffæris, er þar sem hjarta og sál akademískra lækninga liggur og það er sú vinna og umönnun sem er veitt hjá hjá spítölunum okkar,“ sagði David F. M. Brown, læknir og stjórnandi hjá Mass General Brigham. „Við erum svo þakklát okkar magnaða starfsfólki sem hjálpaði til við að gera þessa aðgerð vel og sjúklingnum fyrir hugrekki hans.“
Sjúklingnum hefur vegnað vel eftir ígræðsluna. Þessi tímamóta aðgerð lofar góðu fyrir framtíðina og er risaskref í að græða líffæri úr dýri í mann. Eftirleikurinn á þó efir að koma í ljós, hver endingartími nýrans verður en eftir langan veg þrotlausa rannsókna er von til að árangurinn verði góður.
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.