Tengdar greinar

Sögupersónur sem öðlast sjálfstætt líf

Þörfin fyrir að segja frá og hlusta á sögur er innbyggð í manneskjur og hefur reynst ótrúlega áhrifrík leið til kenna lexíur, víkka sjóndeildarhringinn og skemmta. Af og til koma svo fram á sjónarsviðið sögupersónur sem öðlast sjálfstætt líf og verða tákn fyrir eitthvað oft án þess að menn viti nákvæmlega hver uppruninn er.

Líklega kannast margir við að hafa heyrt talað um Phyrrosarsigur. Það þarf ekki að hlusta lengi til að gera sér ljóst að slíkur sigur er lítt eða ekki eftirsóknrverður. Hann kostar sigurvegarann það mikið að lífið verður tæplega þess virði að lifa því eftir slíka raun. Þetta orðtak vísar til sögu af Phyrrosi konungi Epírus. Hann barðist gegn Rómverjum við Herakles í Grikklandi og síðar við Asculum og hafði sigur í bæði skiptin en mannfallið var svo skelfilegt að ríflega þriðjungur liðs hans féll og þar á meðal allir hans bestu vinir og herforingjar.

Annar lítið öfundsverður Grikki var Damokles. Dæmisagan af honum var á þá leið að hann var almennur hirðmaður við hirð Dionysosar II einræðisherra í Sýrakúsu á Sikiley. Hann öfundaði kónginn af völdum hans og lét í ljós að ekki margt skildi þá að annað en kórónan og hásætið sem hinn hafði frjálsan aðgang að. Dionysus bauð honum skipti og Damocles þáði það með þökkum og settist í hásætið. Yfir höfði hans lét Dionysus hins vegar hanga hárbeitt sverð í örþunnum þræði. Hvenær sem er gat þráðurinn brostið og þar með væru dagar Damoclesar taldir. Sagan hefur æ síðan verið notuð til að lýsa óöruggri stöðu þeirra sem sitja á valdastóli.

Allflestir Íslendingar kannast við Pollýönnu, bjartsýni hennar og jákvæðni. Nafn hennar er orðið nokkurs konar lýsingarorð haft yfir þá sem gæddir eru þessum eðliseiginleikum og stundum til að lýsa hvernig maður sjálfur ætlar að taka á því sem að höndum ber. „Maður tekur bara Pollýönnuna á þetta.“ Sagan af Pollýönnu kom út í Bandaríkjunum árið 1913 . Höfundur hennar hét Eleanor H. Porter var fædd í Littleton í New Hampshire 19. desember árið 1868.  Hún lærði söng en hóf að skrifa barnabækur og skáldsögur eftir að hún gifti sig. Frægasta bók hennar er auðvitað Pollýanna og framhaldið, Pollýanna vex upp.

Gleðileikurinn og gleðiklúbbar

Plottið í sögunni um Pollýönnu var reyndar mjög vinsælt á þessum tíma. Ungum munaðarleysingja er komið fyrir hjá ættingja, venjulega í húsi þar sem lítil hamingja ríkir, og breytir andrúmslofti heimilisins til hins betra. Fleiri slíkar sögur eru vel þekktar m.a. bækurnar um Önnu í Grænuhlíð og Hildu á Hóli. Hins vegar var Pollýanna sérstök að því leyti að hún hafði ákveðið að leika gleðileikinn þ.e. að horfa ævinlega á björtu hliðarnar og finna eitthvað til að gleðjast yfir í öllu sem mætti henni. Hún er send eftir dauða föður síns til móðursystur sinnar, hinnar köldu og hörðu, Polly. Það væri fulldjúpt í árina tekið að segja að Pollýanna bræði frænku sína en hún nær að milda hana allmikið smátt og smátt.

Eftir að bókin kom út spruttu upp svokallaðir Gleðiklúbbar ungra stúlkna og kvenna um öll Bandaríkin. Markmið þeirra var að styðja meðlimi til að leika gleðileikinn hennar Pollýönnu í eigin lífi og vera trúar þeim orðum Abrahams Lincolns að ef þú leitar að illsku í manneskjunni muntu finna hana en sömuleiðis hið góða ef þú leggur jafnríka áherslu á að leita þess.

Löngu áður en Pollýanna ákvað að leika gleðileikinn var þó ímynd hins varnarlausa munaðarleysingja vel brennd í huga áhugasamra lesenda. Oliver Twist eftir Charles Dickens kom fyrst út á árabilinu 1837-1839 en sagan var framhaldssaga í The Magazine Bentley’s Miscellaney. Áratug síðar birtust fyrstu kaflarnir í David Copperfield í Hablot Knight Browne og þar sem báðar þessar sögur byggðu á eigin reynslu Dickens af skuldafangelsum Lúndúnaborgar og því að alast upp í fjölskyldu þar sem faðirinn var reglulega í fangelsi vegna skulda höfðu þessar sögur ótrúleg áhrif í þá átt að opna augu fólks fyrir því að syndir feðranna ættu ekki endilega að koma niður á börnunum. Líklega hafa fá önnur skrif gert meira til þess að flýta félagslegum umbótum til handa börnum sem áttu um sárt að binda vegna foreldramissis eða fátæktar. Enn í dag eru þeir David og Oliver þó ímynd hins varnarlausa munaðarleysingja og ekki alveg víst að allir viti að eingöngu er um skáldsagnapersónur  að ræða.

Eitursnjall spæjari

Sherlock Holmes er fyrir löngu orðinn ímynd hins snjalla spæjara í hugum fólks út um allan heim þótt stór hluti þeirra hafi aldrei lesið nokkra bók um þennan meistara rökhyggjunnar. Sherlock hafði næmari athyglisgáfu en flestir menn, var einstaklega greindur og lét aldrei slá ryki í augu sín því hann horfði fyrst og fremst á staðreyndir, dró ályktanir af þeim og komst ævinlega að hárréttri niðurstöðu.

Samkvæmt bókum Arthurs Conan Doyle bjó Sherlock í Baker Street 221B. Það heimilisfang var ekki til en það skipti túrista litlu máli og þeir fóru í stórum hópum um Baker Street í leit að heimili hans. Úr varð að menn breyttu númer 221 í 221B og þar er nú safn helgað spæjaranum og vini hans dr. Watson. Safnið er búið húsgögnum frá þeim tíma er Sherlock og Watson flæktust um götur Lúndúna í leit að glæpamönnum og þar liggur fiðla á borði, frakki hangir á fatapresti og hattur af þeirri gerð sem spæjarinn notaði trónir þar líka. Enginn sérvitur ópíumfíkill hefur þó strokið strengi fiðlunnar þótt í hugum sumra sé ómögulegt annað en að hinn þunglyndi Sherlock hafi spilað á hana sér til hugarhægðar.

 „Samkvæmt bókum Arthurs Conan Doyle bjó Sherlock í Baker Street 221B. Það heimilisfang var ekki til en það skipti túrista litlu máli og þeir fóru í stórum hópum um Baker Street í leit að heimili hans.“

Sannleikurinn er sagna bestur

Litli spýtustrákurinn Gosi þráði heitast af öllu að verða raunverulegur. Í lok sögunnar fær hann ósk sína uppfyllta vegna þess að hann hefur lært heiðarleika, hlýðni og að meta föður sinn að verðleikum. Líklega nær Gosi hins vegar aldrei að verða fyllilega áreiðanleg persóna að minnsta kosti er gjarnan teiknað langt nef á alla sem uppvísir verða að lygum en það var einmitt það sem henti vesalings spýtustrákinn.

Þótt klásúla í reglugerð geti tæpast kallast persóna er samt eiginlega ekki annað hægt en að minnast á „Catch 22“ en allir skilja að þegar þetta orðasamband er notað er átt við að gallað kerfi hafi gert mönnum ómögulegt að komast út úr aðstæðum því reglur, lög og reglugerðir séu svo mótsagnakenndar að slíkt sé í raun ómögulegt. Uppruni þessa er í samnefndri skáldsögu eftir Joseph Heller en þar reynir orrustuflugmaður að fá læknana til að senda sig heim úr stríði á grundvelli þess að hann sé geðbilaður. Doc Daneeka bendir honum snarlega á að hængur sé þar á.  Nefnilega sá að hver sem reynir að komast undan því að fljúga í flugárásum getur tæplega talist bilaður á geði því það væri geðbilun að vilja fljúga slíkar ferðir.

 „Líklega nær Gosi hins vegar aldrei að verða fyllilega áreiðanleg persóna að minnsta kosti er gjarnan teiknað langt nef á alla sem uppvísir verða að lygum en það var einmitt það sem henti vesalings spýtustrákinn.“

„Catch 22“ snerist þess vegna um að útskýra að eðlilegt væri að mönnum væri umhugað um eigið öryggi og kvíði og ótti því ekki næg ástæða til að senda menn heim og leysa frá herþjónustu. Þessi dásamlega þversagnakennda klásúla hefur lifað æ síðan sjálfstæðu lífi meðal manna og notuð til að lýsa aðstæðum þar sem í raun er engin leið út úr. Þar sem óvinveitt kerfi stokkar spilin og ávallt er vitlaust gefið.

Vafalaust er hægt að finna fleiri dæmi um sögupersónur og atriði úr bókmenntum sem taka flugið og öðlast sjálfstætt líf utan bókanna. Ótalmargir kannast við persónuna og það sem um er rætt án þess að hafa nokkru sinni lesið verkið sem þær spretta úr en af íslenskum karakterum er Gróa á Leiti ábyggilega sú sem hvað flestir þekkja. Hins vegar verður fróðlegt að sjá hvort einhverjar ástsælar sögupersónur úr nútímabókmenntum stökkvi af hreinum hvítum blaðsíðunum út í veruleikann í framtíðinni.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 18, 2024 07:04