Fólk á vinnumarkaði fimmtíu ára og eldra þarf oft að yfirvinna neikvæða ímynd. Það er talið dýrari starfsmenn en þeir sem yngri eru. Tæknikunnáttu er talið ábótavant auk þess sem miðaldra og eldri eru taldir skila lítilli framleiðni. Ekkert af þessu virðist eiga við rök að styðjast, samkvæmt rannsókn sem gerð var á vegum vefsíðunnar AARP.org. Könnun sem kallaðist „Viðskiptamódel um starfsmenn 50 ára og eldri – gildi reynslunnar skoðað“ var unnin af ráðgjafanum og mannauðsfræðingnum Aon Hewitt. Könnunin byggði að mestu á svörum frá stórum fyrirtækjum. Lifðu núna ákvað að birta helstu niðurstöður Hewitt.
Staðan batnað frá 2005
Sambærileg könnun var gerð árið 2005 og síðan hefur margt breyst á bandarískum vinnumarkaði. Það hafa til að mynda orðið breytingar á lífeyriskerfinu sem gera það að verkum að það kostar minna fyrir fyrirtækin að ráða eldri starfsmenn en áður. Annað sem hefur bætt möguleika 50 ára og eldri á vinnumarkaði er sú staðreynd að stórum fyrirtækjum gengur illa að finna hæfa starfsmenn. Sú þróun er líkleg til að halda áfram segja niðurstöður annarar stórrar bandarískrar könnunar sem sýndi að 4 af hverjum 10 atvinnurekendum búast við spekileka í framtíðinni þegar starfsmenn 55 ára og eldri fara á eftirlaun eða hætta af öðrum orsökum.
Meðal þess sem kemur fram í könnum AARP er:
- Sextíu og fimm prósent starfsmanna 55 ára og eldri eru taldir áhugasamir um vinnuna í samanburði við sextíu prósent þeirra sem eru yngri en 45 ára. Hagnaður fyrirtækja og áhugi starfsmanna er samofinn. Eftir því sem starfsmenn hafa meiri áhuga eykst hagnaðurinn.
- Eldri starfsmenn eru ekki mikið dýrari í rekstri en þeir yngri vegna þess að launastefna margra fyrirtækja hefur breyst. Atvinnurekendur hafa í ríkari mæli tekið upp launastefnu sem byggir á árangri í starfi en ekki starfsaldurshækkunum. Bætt heilsa eldra fólks hefur orðið til að veikindakostnaður eldri starfsmanna er minni en þeirra sem yngri eru.
- Framleiðni getur aukist með aldri, jafnvel í erfiðum störfum. Rannsókn á vinnu við færibönd sýndi til dæmis að framleiðni jókst með hækkandi aldri allt að 65 árum. Ástæðan er sú að eldri starfsmenn gera færri alvarleg mistök en þeir sem yngri eru.
- Eldri starfsmenn nota ekki aðeins tölvur, snjallsíma og samfélagsmiðla heldur eru þeir áhugasamir um að læra nýja tækni.
Bjóða eldri starfsmönnum upp á sveigjanleika
Ekki þarf að sannfæra alla atvinnurekendur um gildi eldri starfsmanna segir á aarp.org. Sumir atvinnurekendur leggja ýmislegt á sig til að laða til sín og halda eldri starfsmönnum, eins og að setja þá í ráðgjafastöður, eða bjóða upp á færri vinnustundir á dag, sveigjanlegan vinnutíma eða stöður sem gætu orðið einskonar brýr yfir á eftirlaunaaldurinn.Vonin er sú að fyrirtæki noti könnunina þegar þau móta starfsmannastefnu sína með því markmiði að draga úr núverandi spekileka og að þau átti sig á því að ráðning eldri starfmanna geti verið hagkvæmur kostur.