Tengdar greinar

Borgar sig ekki að eyða ævinni í væl

Það sem að baki býr, er heiti á sögu eftir danska rithöfundinn Merete Pryds Helle sem Mál og menning gaf nýlega út, en það var Magnea J. Matthíasdóttir sem þýddi.  Þetta er saga barnmargrar fjölskyldu sem býr við mikla fátækt á eyjunni Langeland. Lífið er heldur nöturlegt. Hungur og ofbeldi eru daglegt brauð og það er til siðs að löðrunga börnin ef þau leyfa sér að hafa skoðanir á hlutunum. Það fer lítið fyrir hlýju viðmóti í þeirra garð og svo skellur á stríð.  En skelfilegastar eru lýsingar á kynferðislegu ofbeldi, sem aðalsöguhetjan Marie, verður fyrir af hálfu elsta bróður síns. Móðir hennar lætur sér hins vegar fátt um finnast.

-Af hverju ertu að væla? spurði mamma.

– Það var Kaj, sagði Marie.

– Ætlarðu að eyða ævinni í væl?

Mamma kreisti heitt vatn yfir Marie.

-Það borgar sig ekki.

En ljósið í myrkri Marie, er fallegt málverk á veggnum í hreysi fjölskyldunnar og bláeygði rafvirkjaneminn Ottó sem kemur eins og frelsandi engill  inn í líf hennar og býður henni á ball, skömmu áður en hún fermist. Hann mætir svo í fermingarveisluna, slær í glasið og heldur ræðu.

-Þið vitið öll að Marie er mér afar kær og ef þið vissuð það ekki þá vitið þið það núna og þótt ykkur finnist, þótt þér finnist það kannski, Marie, að við séum mjög ung, kannski of ung til að heita hvort öðru ævilangri ást, þá heiti ég þér minni ást, því við vitum öll að ástin skeytir ekki um aldur.

Saga Marie er dramatísk og áhugaverð aflestrar, vel þýdd og vel skrifuð, en það er dóttir „Marie“ sem ritar söguna og styðst við eigin fjölskyldusögu. Unga fólkið á Langeland yfirgefur heimabyggðina til að freista gæfunnar í Kaupmannahöfn, þar sem Marie fær vinnu í símaverksmiðju og mikil umskipti verða á lífi hennar.

Marie hallaði sér fram yfir grátt gúmmífæribandið og tók upp málmstöng. Málmurinn var heitur en ekki brennheitur. Ekki í dag. Hinum megin við færibandið stóð Kirsten með aðra stöng sem hún var að reka niður í eitt af ljósbrúnu talsímatækjunum sem var staflað upp við hliðina á vinnubekkjunum þeirra. Kirsten brosti til hennar og deplaði öðru auganu og kinkaði kolli til einhvers fyrir aftan Marie. Kirsten var vel til höfð eins og alltaf, með bylgjur í ljósu hárinu og púður á kinnunum. Ósvikin Kaupmannahafnarstúlka, eins og Birte sagði með aðdáun. En þótt Kirsten væri Kaupmannahafnarstúlka var hún ein af fáum í talsmímatækjaverksmiðjunni sem gerðu ekki grín að Langeland mállýskunni í fyrstu skiptin sem Marie og Birte opnuðu munninn.

Líf söguhetjanna í bókinni tekur stakkaskiptum þegar árin líða og lífskjör Dana almennt batna. Líf Marie á eftir að breytast gríðarlega og það er forvitnilegt að fylgjast með því hvernig stúlka með hennar bakgrunn tekst á við lífið og tilveruna.  Við lestur bókarinnar reikar hugurinn ósjálfrátt til þeirrar kynslóðar hér á landi sem ólst upp í torfbæjum og þeirra gríðarlegu þjóðfélagsbreytinga sem menn hafa upplifað hér, síðustu 100 árin eða svo.  Marie, fátæka stúlkan frá Langeland upplifir í bókinni álíka miklar breytingar á sinni ævi og þannig er sagan einnig saga mikilla þjóðfélagsbreytinga í Danmörku. Á dönsku heitir bókin Folkets skønhed. Hún hefur hlotið góðar viðtökur og viðurkenningar í heimalandi höfundarins.

Ritstjórn ágúst 15, 2018 09:57