Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar.
„Stíginn styrkir“ var mottó sem Ómar Ragnarsson notaði þegar hann hljóp upp og niður tröppurnar í RÚV í Efstaleiti sér til heilsubótar. Ég hef hugsað til þessara orða núna þegar ég er upptekin við að byggja mig upp eftir skurðaðgerð. Ég bý á fjórðu hæð þessar vikurnar. Dagurinn byrjaði á því að bíða eftir lyftunni og fara svo út í göngu. En af hverju lyftan, þröng og hæg? Ég ákvað að taka tröppurnar. Fyrst niður og næst upp. Nú hleyp ég upp og niður oft á dag. Ég finn hvernig það verður léttara með hverjum deginum. Mér fer hraðar fram en áður. Þetta er meira að segja orðinn leikur. Hvað komumst við langt án þess að mæðast? Ég fer upp þrjár hæðir án þess að blása úr nös. Markmiðið er fjórar hæðir áður en við förum heim í kulda og snjó.
Stigar eru vanmetnir sem æfingatæki. Eldra fólk fær oft að heyra að það verði að flytja úr lyftulausum fjölbýlishúsum. En kannski eru tröppurnar einmitt besti vinur þess. Fyrir marga er það eina hreyfingin sem það fær. Auðvitað eru líka einstaklingar sem ekki geta komist upp og niður tröppur og þá eru lyftihúsin frábær kostur.
Sumar tröppur eru flottari en aðrar. Í húsinu sem við leigjum í nokkrar vikur eru marmaratröppur með flottu handriði úr járni. Virkileg prýði. Ég var alin upp á annari hæð í húsi með tröppum sem voru ekki til prýði. Þær voru með slitnum dúk og stálköntum. Það var mitt verkefni að halda þeim hreinum. Ég náði fljótt ótrúlegri tækni við þvottinn. Mamma treysti því aldrei að ég gerði þetta nægilega vel. En ég komst alltaf í gegnum gæðaeftirlitið. Við systkinin rúlluðum of niður tröppurnar ef okkur lá of mikið á en ekkert okkar slasaðist illa við bylturnar. Kannski er það einmitt þessi stigi sem ég man best eftir frá æskuheimilinu á Akureyri. Stigar hafa nefnilega persónuleika.
En hvað varð til þess að ég fór að hafa efasemdir um lyftuna? Jú, það var þegar lyftan stoppaði á 2. hæð. Ungur, flottur Spánverji steig um borð í stuttum buxum, hlaupaskóm, með svitaband og vatnsflösku. Við biðum eftir að lyftan mjakaðist af stað. Við biðum eftir því að dyrnar opnuðust. Við biðum eftir að hann kæmi sér út. Þegar við komum út í sólskinið hljóp hann af stað. Hann hefði verið miklu fljótari að taka tröppurnar. Þarna sagði eitthvað inni mér stopp. Af hverju að standa hreyfingarlaus í þröngu boxi þegar glæsilegur stiginn bíður.
Hreyfingarleysi er vandamál, ekki síst fyrir eldra fólk. Við heyrum oft að öll hreyfing sé betri en engin. Ég hvet þá sem eru svo heppnir að búa í húsi með stigum að nota þá í stað þess að ýta á lyftuhnappinn. Það venst ótrúlega fljótt.