Robert Redford lék í meira en fimmtíu kvikmyndum á ferlinum en var aðeins einu sinni tilnefndur til Óskarsverðlaun fyrir leik. Hins vegar var hann tilnefndur og fékk Óskar fyrir að leikstýra Ordinary People árið 1980. Hann gerði meira en nokkur annar til að styðja við sjálfstæða kvikmyndaframleiðendur í Bandaríkjunum og kom meðal annars á fót Sundance-kvikmyndahátíðinni. Umfram allt var hann hins vegar góður maður sem lagði sig alltaf fram um að reynast samleikurum sínum sem best.
Hann naut gríðarlegra vinsælda, ekki hvað síst fyrir hversu glæsilegur maður hann var en sjálfur var hann ekki sérlega hrifinn af því að vera kallaður kyntákn eða hljóta titilinn fallegasti maður heims í kosningu einhverra tímarita. Hann kom því oftar en einu sinni að í viðtölum að hann teldi útlit sitt frekar hindrun en að vera sér til framdráttar. Hann taldi það verða til þess að hann fengi síður bitstæðustu hlutverkin því menn tækju hann ekki alvarlega í hlutverkum manna sem glímdu við ýmsa erfiðleika.
Engu að síður var hann í þeirri öfundsverðu stöðu að geta valið úr hlutverkum og hann valdi sér ævinlega verkefni sem hann taldi að myndu ýta undir samkennd og virðingu manna í millum. Í Bandaríkjunum var hann talinn vinstrisinnaður, enda barðist hann fyrir að velferðarmálum væri betur sinnt þar í landi og hann veitti baráttu frumbyggja í Norður Ameríku lið sitt hvenær sem hann gat. Auk þess var hann umhverfissinni og lét sig varða loftslagsmál.

Með Dustin Hoffman í All the Presidents Men.
Villingur á unglingsárunum
Charles Robert Redford júníor fæddist í Santa Monica í Kaliforníu þann 18. ágúst 1936. Hann var gott barn og gekk vel í skóla en á unglingsárunum komst hann í slæman félagsskap og var handtekinn fyrir að stela bíl. Engu að síður tókst honum að vinna skólastyrk til náms í Colorado háskóla en var rekin fyrir óreglu eftir eitt og hálft ár í námi. Meðal upptækja hans var að klifra nakinn upp í flaggstöng til að vinna veðmál. Um svipað leyti lést móður hans úr blóðsjúkdómi aðeins rétt ríflega fertug.
Hún hafði verið ófrísk og fætt tvíbura sem lifðu aðeins skamma stund. Robert var lamaður af sorg og flæktist stefnulaus um næstu ár eftir, fór meðal annars til Parísar og Flórens og lærði myndlist. Löngu seinna sagði hann að ferðalögin um Evrópu hafi orðið til þess að hann fór að líta sitt eigið land öðrum augum. Hann sá annars konar hugmyndir um velferð og mannréttindi sem mótuðu hann fyrir lífstíð. Eftir að hann sneri aftur heim komst hann inn í leikmyndadeild the American Academy of Dramatic Art en skipti fljótlega um og flutti sig yfir í leikaradeildina. Meðan hann var enn í námi fékk hann smáhlutverk í nokkrum vinsælum sjónvarpsþáttum og má þar nefna, The Untouchables, Perry Mason og Dr Kildare.
Eftir útskrift árið 1959 fékk hann sitt fyrsta stóra tækifæri á sviði í leikriti Neil Simon, Barefoot in the Park. Þar lék hann aðalkarlhlutverkið Paul Bratter en átta árum síðar átti hann eftir að leika hann aftur í kvikmynd gerðri eftir leikritinu og þá á móti Jane Fonda en það var ekki í fyrsta sinn sem þau mættust. Hans fyrsta bitastæða hlutverk í kvikmynd var í Tall Story árið 1960. Um var að ræða aukahlutverk en þar lék hann á móti Jane Fonda. Myndin fékk litla aðsókn og gagnrýnandi Time Magazine sagði að ekkert gæti bjargað þessari mynd en hún markaði upphaf vináttu milli hans og Jane sem entist meðan hann lifði.

Robert og Barbra Streisand í The Way We Were.
Efnilegasti nýliðinn
Betur gekk hins vegar þegar hann fékk hlutverk í Inside Daisy Clover á móti Natalie Wood. Hann fékk Golden Globe verðlaunin sem efnilegasti nýliðinn fyrir frammistöðu sína í henni árið 1965. Þrátt fyrir það hafnaði Mike Nichols honum þegar hann kom í prufutökur fyrir hlutverk Benjamin Braddock í The Graduate. Mike sagði að nýliðinn Robert Redford væri of myndarlegur til að passa í hlutverkið. En heimsfrægð beið hans engu að síður handan við hornið. Árið 1969 lék hann í Butch Cassidy and the Sundance Kid. Í fyrstu leit ekki vel út með að hann fengi það hlutverk heldur. Einum framleiðenda myndarinnar þótti lítið til hans koma og hann á að hafa sagt þegar hann horfði á prufutökuna: „Hann er bara enn ein Hollywood ljóskan. Kastaðu spýtu út um glugga í Malibu og hún lendir á sex nákvæmlega eins einstaklinga og hann er.“ En Paul Newman sá eitthvað allt annað og hann krafðist þess að Robert fengi hlutverkið.
Paul var þá þegar orðinn stórstjarna og gat ráðið því sem hann vildi ráða. Þeir tveir virkuðu svo vel saman að bíógestir streymdu að og voru yfir sig hrifnir. Og þeir áttu ekki síður vel saman bak við myndavélarnar en fyrir framan þær. Báðir voru miklir áhugamenn um leikhús og leikbókmenntir og þeir voru báðir miklir mannvinir og lögðu sig fram um að styðja góð málefni. Vinátta þeirra var mjög traust og þeir skemmtu sér við að hrekkja hvorn annan. Það kom því engum á óvart þegar þeir voru aftur paraðir saman í The Sting árið 1973. Robert var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í þeirri mynd og það var eina tilnefningin sem hann fékk fyrir leik á ferlinum. Hann tapaði fyrir Jack Lemmon en The Sting hlaut sjö Óskarverðlaun meðal annars sem besta myndin það ár.
Robert Redford var hins vegar kominn til að vera og hver stórmyndin rak aðra næstu árin, meðal annarra, The Great Gatsby, The Way We Were og All the President’s Men. Robert hafði keypt kvikmyndaréttinn af þeim Bob Woodward og Carli Bernstein þegar bók þeirra um Watergate-hneykslið kom út. Í fyrstu voru eigendur, The Washington Post, hræddir við að sagan yrði kvikmynduð en þegar myndin kom út árið 1976 voru þeir einstaklega ánægðir með hvernig farið var með efnið. Dustin Hoffman lék Carl Bernstein en Robert lék sjálfur Bob Woodward. Myndin hlaut fjögur Óskarverðlaun meðal annars fyrir besta handrit unnið upp úr öðru efni. Jason Robards fékk Óskar fyrir aukakarlhlutverk en hann lék Ben Bradlee.

Robert Redford að leikstýra, Ordinary People.
Óskarinn fyrir leikstjórn
Það var svo árið 1980 að Robert reyndi sig við leikstjórn og Ordinary People, kom út árið 1980 og fyrir það hlaut Óskarsverðlaun og árið 2002 hampaði hann heiðursverðlaunum Kvikmyndaakademíunnar. Um þetta leyti keyptu Robert og kona hans, Lola, skíðasvæði í Utah. Hann endurnefnd staðinn og kallaði hann Sundance en það var vísun í Sundance Kid sem var hlutverkið sem kom honum endanlega á kortið. Um svipað leyti stofnaði hann, the Sundance Institute, en tilgangur og markmið þeirra samtaka var að veita styrki til sjálfstæðra kvikmyndaframleiðenda og stuðla að því listrænar kvikmyndir fengju framgang og smærri kvikmyndagerðarmenn tækifæri. Hann var kosinn stjórnarformaður the Utah/US Film Festival, en fljótlega eftir það fékk sú kvikmyndahátíð nafnið the Sundance Film Festival.
Í dag er Sundance-kvikmyndahátíðin sú virtasta og stærsta utan Hollywood og það þykir heiður og góð lyftistöng ef kvikmynd er valin til sýningar á henni. Meðal leikstjóra sem hafa fengið sitt fyrsta stóra tækifæri þar eru Quentin Tarantino og Steven Soderbergh.

Robert í hlutverki sínu í Dark Winds en þeir þættir fjalla um lögreglumenn á verndarsvæði frumbyggja sem rannsaka morð.
Robert Redford hélt hins vegar áfram að leika og þótti halda sjarmanum einkar vel þótt aldurinn tæki að færast yfir. Hann var enn draumaprins ótal kvenna um allan heim og það endurspeglaðist í myndum á borð við,The Horse Whisperer, Indecent Proposal og Out of Africa. Margir töldu reyndar að Robert hefði átt að fá tilnefningu til Óskarverðlauna fyrir túlkun sína á Denys Finch Hatton. Robert var líka kominn á bragðið með að leikstýra og næst sendi hann frá sér, A River Runs Through It og síðan kom The Legend of Bagger Vance, en það var síðasta mynd Jack Lemmons. Hann fékk misjafna dóma fyrir leik sinn í, Lions for Lambs en einróma lof fyrir All is Lost. Þá tók hann skref langt út fyrir þægindarammann þegar hann lék Alexander Pierce, starfsmann S.H.I.E.L.D í Captain America: The Winter Soldier. Hið sama mátti eiginlega segja þegar hann lék í Avengers: Endgame árið 2019. Hann lýsti því yfir eftir það að hann væri hættur að leika en þegar færi gafst til að styrkja frumbyggja með því að koma fram í sjónvarpsþáttunum Dark Winds gerði hann það glaður.
Hugsjónamaður af lífi og sál
Margir hefðu líklega látið sér nægja að sinna jafn krefjandi starfsferli og raunin var hjá Robert en hann vann ötullega í sjálfboðavinnu að náttúruvernd og mannúðarmálum þegar hann var ekki að leika eða leikstýra. Hann er þekktur fyrir að hafa beitt sér sérstaklega fyrir málefnum frumbyggja Ameríku en einnig fyrir að hafa leitast við að stuðla að aðgerðum í loftslagsmálum og í forsetatíð Bills Clinton varð honum og samverkamönnum hans þónokkuð ágengt.

Robert með börnum sínum, David James, Amy og Shaunu.
Einkalíf Roberts var um margt farsælt þótt sorg hafi einnig litað líf hans. Hann giftist Lolu Van Wagenen árið 1958 og þau eignuðust fjögur börn saman. Þau misstu elsta son sinn, Scott, árið 1959. Hann dó vöggudauða aðeins tveggja mánaða. David James fæddist árið 1962 og lést úr gallleiðarakrabbameini árið 2020. Hann var kvikmyndagerðarmaður og leikari. Þeir feðagar stofnuðu saman, The Redford Center, en það er stofnun sem vinnur að gerð heimildakvikmynda er stuðla að umhverfisvernd og því að vekja athygli á loftslagsvánni. Dæturnar, Shauna og Amy lifa föður sinn. Shauna er fædd árið 1960 en Amy er tíu árum yngri. Shauna vinnur fyrir The Sundance Institute og er gift rithöfundinum Eric Schlosser. Amy er leikkona og hefur leikið á sviði, í sjónvarpi og í kvikmyndum.
Robert og Lola skildu árið 1985 og Robert átti eftir það í ástarsambandi við brasilísku leikkonuna Soniu Braga en þau slitu sambandi sínu í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar. Hann var um tíma með búningahönnuðinum Kathy O’Rear en hún hannaði búningana í A River Runs Through It. Árið 2009 kvæntist hann Sibylle Szaggars. Hún er listamaður og umhverfisverndarsinni eins og hann. Hún og dætur hans voru hjá honum þegar hann dó þann 16. september síðastliðinn.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.