Sundhöllin opnar aftur 1. september

Sundhöll Reykjavíkur verður opnuð aftur mánudaginn 1. september klukkan 06:30 eftir rúmlega tveggja vikna lokun vegna vinnu við viðhald og endurbætur.

Flestir hlutar hússins og laugarinnar verða þá tilbúnir til notkunar. Gömlu heitu pottarnir þurfa þó lengri tíma áður en hægt er að hleypa í þá vatni, en stefnt er að því að þeir verði opnaðir fljótlega.

„Við erum ánægð að geta tekið á móti gestum á ný og þökkum þeim fyrir jákvæðni og þolinmæði á meðan á framkvæmdum stóð,“ segir Snorri Örn Arnaldsson, forstöðumaður Sundhallarinnar.