Það gerist ekkert sjálfkrafa í kerfinu, ég komst að því þegar ég fór að vinna í réttindamálum fyrir aldraða ættingja mína, sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi í vikunni. Hann bætti við: „Ef þú sækir ekki um þá færðu ekki það sem þú átt að fá út úr kerfinu. Þú þarft alltaf að sækja um allt. Það gerist ekkert sjálfkrafa. Þetta kom mér á óvart því að ég hélt að kerfið væri þannig uppbyggt að eldri borgarar þyrftu ekki að fara inn á fullt af einhverjum síðum til að leita að einhverjum dálkum og eyðublöðum til að fylla út. En það er þannig.“ Þessi ummæli lét Karl falla í umræðum um þingsályktunartillögu sem kveður á um stofnum embættis umboðsmanns aldraðra sem hann er fyrsti flutningsmaður að.
Að leiðbeina um réttindi
Karl sagði að hlutverk umboðsmanns verði að gæta réttinda og hagsmuna sístækkandi hóps aldraðra. „Það geri hann meðal annars með því að leiðbeina öldruðum um réttindi sín og bregðast við telji hann að brotið sé gegn þeim, gera tillögur um úrbætur á réttarreglum er varða aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra. Þjónusta við aldraða dreifist á hendur ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila. Löggjöf sem varðar málaflokkinn er flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur og misjafnlega fær um að gæta réttar síns og hagsmuna sjálfur. Að mati flutningsmanna er því rík þörf á málsvara sem gæti réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeini þeim um rétt þeirra.“
Stórgóð tillaga
Þingmenn sem tóku þátt í umræðunni lýstu allir stuðningi við tillöguna. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði að tillagan væri afar góð og hún styddi hana. „Ég vil gjarnan sjá þetta embætti umboðsmanns verða að veruleika og tek undir margt sem kom fram í orðum þingmannsins, meðal annars að ekki eiga allir bakland sem getur stutt það í því flókna ferli að takast á við lífeyriskerfið sem við förum inn í þegar við eldumst.“ „Mér finnst þetta afar göfug þingsályktunartillaga. Ég mun svo sannarlega veita henni atkvæði mitt enda einn af meðflutningsmönnum hennar,“ sagði Helga Lára Arnardóttir þingmaður Framsóknarflokks.
Höfðu ekki efni á lyfjum
Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar fagnaði tillögunni sömuleiðis og rifjaði upp tvö símtöl sem hann átti við tvo áttræða menn seint á síðasta ári. Hvorugur þeirra hafi efni á að kaupa lyf. „Þeir voru með um 160–170.000 krónur útborgaðar á mánuði, þar af fóru 90.000 kr. í leigu og síðan þurftu þeir að reyna að reka bíl og annað. Annar þeirra upplifði á sínum tíma snjóflóðið á Patreksfirði þar sem hann missti móður sína og bróður og hafði fengið loforð um að fá styrk og framfærslu frá ríkinu til að byrja nýtt líf annars staðar. Það var allt svikið og nú býr hann einn í íbúð og getur nánast enga björg sér veitt. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að hlusta á þetta í landi eins og Íslandi þar sem ein ríkasta þjóð í heimi býr,“ sagði Páll Valur sem kvaðst mjög ánægður með tillöguna og vonaði að hún fengi brautargengi á Alþingi. Tillagan er komin til velferðarnefndar sem mun fjalla um hana áður en önnur umræða í þinginu getur farið fram um hana