Thorvaldsensfélagið fagnaði 150 ára afmæli fyrir skömmu en það var stofnað 19. nóvember árið 1875. Haldið var upp á tímamótin með veglegum styrkjum til góðra málefna, en konur í félaginu gefa vinnu sína. Félagið hefur alla tíð styrkt þörf málefni er varða einkum börn, ungmenni og konur. Þekkasta verkefni kvenna í Thorvaldsensfélaginu er vafalítið bygging Landspítala, sem er jafnframt ein fallegasta bygging landsins, en félagið og konur í því áttu veg og vanda að Íslendingar eignuðust sitt þjóðarsjúkrahús.

Frá 150 ára afmæli félagsins.
Kvennastyrkur
Upphaf félagsins má rekja til þess þegar stytta af Bertel Thorvaldsen myndhöggvara var afhjúpuð en þá voru nokkrar stúlkur fengnar til að skreyta Austurvöll þar sem koma átti styttunni fyrir. Þær fengu fleiri konur til liðs við sig og skreyttu handrið þar með lyngi.
Á grindunum voru raðir af ljóskerum og settu ungu konurnar marglitan pappír á þau. Þegar kveikt var á þeim um kvöldið vörpuðu þau frá sér marglitu fallegu ljósi sem var töluvert sjónarspil. Það leyndist hugvit í sjálfboðaliðavinnu þessara kvenna við að gera Austurvöll og umhverfið fallegt en þær höfðu mikla ánægju af samstarfinu og ákváðu að halda hópinn. Á þeim tíma sem félagið var stofnað voru verkefnin næg og þörf á að styðja við marga því fátækt var mikil á landinu og neyðin víða. Konurnar stóðu fyrir því að kenna ungum stúlkum frá sjö ára aldri að prjóna og sauma í skóla, héldu jólatrésskemmtanir og buðu upp á leiksýningar m.a. Félagskonur ákváðu að vinna að því að láta gott af sér leiða sem hefur síðan í öll þessi 150 ár verið aðalsmerki Thorvaldsensfélagsins. Enn þann dag í dag eru verkefnin næg, ekki vegna fátæktar, þau eru annars eðlis en þörfin engu að síður mikil.

Verslunarhús Thorvaldsensfélagsins við Ingólfstorg.
Verslunin Thorvaldsensbazar fjármagnar styrkina
Guðrún Ragnars hjúkrunarfræðingur er formaður Thorvaldsensfélagsins en hún segir að stærsta hlutverk þess sé að hlúa að velferð barna og ungmenna. „Thorvaldsensfélagið hefur alla tíð verið góðgerðarfélag fyrir þennan málaflokk, en þó einkum börn. Við söfnum peningum og veitum styrki til alls konar velferðarmála.“
Konur í félaginu safna fjármunum til að veita styrki með verslun sem félagið hefur rekið frá 1901 í Austurstræti. „Verslunin heitir Thorvaldsensbazar og er við Ingólfstorg. Húsið er eitt af þeim elstu í miðbænum og er friðað. Félagið var upphaflega til húsa í þarnæsta húsi við, sem búið er að rífa fyrir löngu síðan, en kvenfélagið keypti þetta hús sem við erum núna í fyrir 1910 það eru allavega 115 ár sem félagið hefur verið til húsa þarna. Við seljum vörur úr íslenskri ull, eins og lopapeysur, sjöl, sokka, vettlinga og fleira og þetta er okkar aðaltekjulind. Það koma mun færri Íslendingar í verslunina en erlendir gestir sem eru ferðamenn. Síðan hafa verið gefin út jólakort síðan 1916 á vegum félagsins sem má kaupa á heimasíðunni okkar og þau eru líka seld í búðinni. Það eru alltaf listamenn sem gefa myndir sínar sem prýða kortin á hverju ári og í ár er það Sigrún Eldjárn sem gaf mynd á kortin. Ágóðinn af sölu kortanna hefur farið í sjóð síðustu ár til að styðja við sykursjúk börn. Það er sjóður á Barnaspítalanum sem er merktur sykursjúkum börnum og hann er mestmegnis notaður til að fjármagna sumarbúðir fyrir þau en við höfum notað fjármuni úr kortasjóðnum til þess.
Svo er annar sjóður sem heitir Barnauppeldissjóður og þar eru seld jólamerki sem eru með sömu myndinni á hverju ári. Þetta er eins og frímerki, en jólamerki voru mikið notuð í gamla daga til að auðkenna jólakortin. Þetta er hins vegar orðið svolítið erfitt í dag því fólk er mikið til hætt að senda jólakort. Það eru viss fyrirtæki sem styrkja þetta og við veitum úr þessum sjóði í alls konar verkefni og í ár styrkjum við Skjólið um 2 milljónir sem eru teknar úr almennum sjóði félagsins. Skjólið er til húsa í Grensáskirkju og er athvarf fyrir heimilislausar konur. Við kaupum allt mögulegt, nærfatnað og naglalökk og margt fleira. Kirkjan er með þessa þjónustu en heimilislausar konur sofa í Konukoti og þaðan verða þær að fara á morgnana og mega ekki vera þar yfir daginn, þá koma þær í Skjól, fá hádegisverð og alls konar þjónustu eins og ráðgjöf og stuðning við að læra að lifa lífinu upp á nýtt,“ segir Guðrún.

Fallegt handverk má fá í Thorvaldsensbazar.
Seigla að halda félaginu gangandi svona lengi
Thorvaldsen hefur farið svolítið leynt, eins og mörg kvenfélög, að sögn Guðrúnar en konurnar þar eru ekkert að auglýsa það sem gert er. Það er samt vert að minna á sögu félagsins sem hefur alla tíð látið gott af sér leiða eins og þegar félagskonur stóðu fyrir byggingu Landspítala. „Konurnar í Thorvaldsenfélaginu vildu hafa bygginguna stærri en þetta var mikið afrek. Spítalinn tók til starfa 1930 en félagið hefur komið að mörgu stórum og smáum verkefnum í gegnum árin.
Það er margt sem konur í Thorvaldsenfélaginu hafa áorkað. Mér finnst þessi seigla að halda starfinu gangandi í öll þessi ár mjög merkileg. Mér finnst það sýna styrkleika kvenna að halda þessu gangandi í svona langan tíma, starf þeirra hefur stutt við kvenfrelsi og kvenréttindi. Við styrkjum árlega eitthvað sem er brýnt, við fáum beiðnir um að styrkja ákveðin málefni og svo finnum við hvar þörfin er einna mest hverju sinni.“

Félagið hefur veitt marga styrki til góðra mála.
Afmælinu fangað með stórum framlögum til góðra málefna
Í tilefni af 150 ára afmæli Thorvaldsensfélagsins veittu félagskonur einn stærsta styrk sem félagið hefur veitt til þessa og það verður ekki eini styrkurinn. „Afmælisstyrkurinn var einn stærsti styrkurinn sem við höfum gefið en hann var til Kvennaathvarfsins og var 50 milljónir. Í desember ætlum við að styrkja Bryndísarhlíð, minningarsjóð um Bryndísi Klöru sem lést eftir stunguárás á Menningarnótt árið 2024. Bryndísarhlíð sem er uppbyggingarstarf fyrir ungt fólk sem á við fíkniefnavanda að stríða eða er með geðrænan vanda. Við gáfum Bryndísarhlíð 20 milljónir nú í desember og var styrkurinn tekinn úr Barnauppeldissjóði. Svo hefur Heilsuskóli Barnaspítalans fengið styrk í gegnum tíðina, einnig Klettaskóli, sem er grunnskóli fyrir nemendur með sérþarfir, og við styrkjum verkefni fyrir ungt fólk með geðraskanir og geðsjúkdóma. Styrkirnir fara allir á góða staði. Ég vann á barnadeildinni á Landakoti í mörg ár en hún var lögð niður nokkrum árum eftir aldamótin síðustu, um 2004 að mig minnir. Torvaldsensfélagið hreinlega hélt þeirri deild, að vissu leyti uppi, kvenfélagið Hringurinn hélt að sama skapi uppi barnadeildinni á Landspítalanum. Félagið gaf rúm, ýmis tæki, gardínur og hvað eina til barnadeildar Landakots. Starfsemin byggðist mikið á gjöfum og gerir enn að miklu leyti á Landspítala.
Við veittum einnig styrktarfélag Kvennadeildarinnar á Landspítalanum, Líf, styrk en allir sem þar vinna koma að því félagi, þar var verið að safna fyrir lífsmarkamælum. Við komum inn í það verkefni og gáfum nokkra mæla sem vantaði og svona mætti áfram telja.
Thorvaldsensfélagið hefur afar mikla þýðingu fyrir samfélagið,“ segir Guðrún aðspurð „eins og svo mörg kvenfélög um allt land sem eru að gefa bæði handverk sem konurnar og gefa alla vinnu. Það eru konur á öllum aldri í þessu félagi, bæði ungar og eldri sem er frábært og gaman að hafa þetta blandað. Þær eldri hafa kannski meiri tíma eðlilega fyrir félagið en félagsmenn telja tæplega 90 konur í dag. Það er merkilegt hvað þessar konur ná að áorka.“

Konur á öllum aldri störfum hlaðnar
Guðrún segir að hin síðari ár hafi það reynst æ erfiðara að fá konur til starfa, konur í dag séu störfum hlaðnar og mjög bundnar í vinnu og fleiru, það gildi um konur á öllum aldri.
Þrátt fyrir það er Guðrún bjartsýn á framtíð Thorvaldsensfélagsins, félagið standi vel sem hafi mikið að segja. „Ég held að framtíðin sé bara nokkuð björt. Félagið á húsið í Austurstræti sem er verndað, þannig að við stöndum fjárhagslega vel og það eru mjög góðar konur sem vinna að heill félagsins og gera það fram í fingurgóma. Það verður alltaf þörf fyrir að styrkja mikilvæg verkefni. Það eina sem ég sé dala er þessi sjóður okkar sem kallast Barnauppeldissjóður sem var stofnaður árið 1906, en hann gefur út jólamerki. Það er kannski barn síns tíma að vera með jólamerki, eða jólafrímerki, en það er bara mjög löng hefð fyrir þeim. Í dag er erfiðara að koma þessum merkjum á framfæri. Sá siður að senda jólakort er mjög fallegur en það er orðið svo dýrt að senda jólakort í dag þannig að fólk sendir rafræn kort og kveðjur á Facebook en það er auðvitað miklu persónulegra að senda jólakort og fá þau inn um lúguna og það var hluti af jólahaldi fólks að lesa jólakortin.
Það eru fyrirtæki sem styrkja félagið en það er orðið erfiðara en var að fá styrki. Við höldum okkur á lífi og ég held að styrkur félagsins sé sá að við erum fjárhagslega svo sterkar. Við getum haldið áfram eins lengi og við viljum, það munar um að eiga húsið skuldlaust og njóta allrar þessarar sjálfboðaliðavinnu.“
Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.







