Farsímar eru til margra hluta nytsamlegir. Eitt af því sem boðið er uppá, er að borga í stöðumæla í Reykjavík í gegnum síma. Þá byrjar fólk á að fara á heimasíðuna www.leggja.is og skrá sig þar inn. Menn skrá meðal annars inn símanúmer, bílnúmer og greiðslukortanúmer, þar sem greiðslur fyrir bílastæðið fara beint inná greiðslukortið. Leggja.is sendir svo límmiða sem er settur í bílinn til að sýna að þessi þjónusta sé notuð. Þar til miðinn skilar sér í póstinum, er hægt að nota miða sem er prentaður út af heimasíðunni og setja í bílrúðuna. Þegar menn eru svo komnir í bæinn og ætla að leggja bílnum, þurfa þeir að athuga á hvaða bílastæðasvæði þeir eru staddir, P1, P2, P3, P4 eða Hörpu, og hringja svo í síma 770 1414. Þá velja þeir svæðið sem lagt er á, með því að ýta á viðeigandi tölu, einn, tvo þrjá og svo framvegis. Þeir sinna erindum sínum í bænum og þegar komið er tilbaka, er hringt aftur í sama símanúmer og talan 5 valin til að skrá sig út. Gjaldið fer svo, eins og áður sagði, sjálfkrafa inná greiðslukortið sem gefið var upp. Ef menn eru ekki á bílnum sem er skráður inní kerfið, er hægt að senda sms til að láta vita að þeir séu á bíl með öðru númeri. Stöðumælaverðir eru með lófatölvur, þar sem þeir geta séð hvort umræddir bílar séu í þjónustu hjá Leggja.is. Fyrir lengra komna í tækninni er svo hægt að nota app til að fara beint inní kerfið til að leggja bílnum. Arna Gunnur Ingólfsdóttir hjá Leggja.is segir að milli 15 og 20% þeirra sem leggja bílum á hverjum degi á gjaldskyldum svæðum, noti þjónustu fyrirtækisins sem hefur starfað fyrir Bílastæðasjóð Reykjavíkur í sex ár.