Sagan er stútfull af sögum af krafti kvenna og hvernig samtakamáttur þeirra flytur fjöll. Þessum sögum fer sífellt fjölgandi en ein slík er af því hvernig Marilyn Monroe nýtti stöðu sína og vinsældir til að aðstoða vinkonu sína Ellu Fitzgerald. Marilyn var staðalímynd um hina fullkomnu hvítu konu á meðan Ella hafði ekki sömu möguleika til að hasla sér völl á virtum tónleikastöðum enda aðskilnaðarstefnan enn við lýði og hafði mikil áhrif. En báðar bjuggu þær yfir hæfileikum sem enginn tók frá þeim og auðnaðist að miðla hvor til annarrar þannig að báðar græddu. Ella fór ekki í skóla til að læra að syngja heldur fæddist hún með náðargáfu sem ekki er öllum gefin. Saga Marilyn er þekkt. Í byrjun var söngur ekki ein af hennar sterkustu hliðum. Hún fór þess vegna í söngtíma til nafntogaðra tónlistarkennara og einn þeirra benti henni á söngkonu að nafni Ella Fitzgerald sem hún skyldi hlusta á og læra af því þar væri að finna ómengaða hæfileika. Marilyn lét ekki segja sér það tvisvar heldur setti sig strax í samband við Ellu og úr varð mikil vinátta þessara merkilegu kvenna.
Marilyn hjálpaði Ellu að brjóta glerþakið með því að nota sambönd sín til að Ella fengi tækifæri til að syngja á stóru jazzklúbbunum. Hún sagði ráðamönnum þar að hún ætlaði að mæta á hverju kvöldi sem Ella kæmi fram og stóð við orð sín. Marilyn settist alltaf á fremsta bekk og mætti iðulega með vini sína eins og Frank Sinatra og fleiri og nafn Ellu skaust upp á stjörnuhimininn.
Ella upplifði hörmungar í æsku
Æska Ellu Fitzgerald einkenndist af andstyggilegu ofbeldi sem hefði brotið marga. En Ella hafði sönginn sem henni tókst að nýta sér til framdráttar. 17 ára gömul þreytti hún frumraun sem söngkona á sviði Harlem Appollo leikhússins í keppni áhugalistamanna og þar ætlaði hún að sýna dans. En þegar kom að atriði Ellu var hún svo taugaóstyrk að gat hún sig hvergi hrært en til að gera nú eitthvað á sviðinu ákvað hún bara að syngja lag. Það er skemmst frá því að segja að atriði Ellu þótti best og hún sigraði keppnina. Þetta kvöld voru ýmsir listamenn að fylgjast með til finna hæfileikaríkt ungt fólk og í salnum var trommuleikarinn Chick Webb sem tók eftir þessari hæfileikaríku söngkonu. Hann bauð Ellu að gerast aðalsöngvari hljómsveitar sinnar en Chick Webb lést 1942. Þá hafði frægðarsól Ellu byrjað að rísa og um miðjan fjórða áratuginn fór hún í tónleikaferðir til Evrópu og Asíu og flutti jazz í tónleikasölum þar sem klassíkin hafði aðeins hljómað. Hún kynnti swing, dixieland og blús fyrir áheyrendum sínum og svo auðvitað gamla góða jazzinn.
Jazzinn læðist inn á Íslandi
Hópur tónlistaáhugamanna á Íslandi fylgdist með stórum listamönnum eins og Ellu en sá hópur var ekki stór í byrjun. Kristjana Stefánsdóttir var til dæmis fyrsti íslenski söngvarinn til að fara í svokallað ,,rytmískt“ söngnám erlendis 1996 og það sama gerði Guðlaug Dröfn og báðar koma fram á Ellu tónleikunum. Það var töluverð barátta fyrir þær að komast í þetta nám en nú, 27 árum síðar, er jazzsöngur orðinn gífurlega vinsæll. En það var ekki fyrr en í ár, 2023, sem í fyrsta sinn var sér flokkur á íslensku tónlistarverðlaununum þar sem veitt voru verðlaun fyrir jazzsöng. Rebekka Blöndal var fyrsti jazzsöngvarinn til að hljóta þessi verðlaun en hún kemur einmitt fram á tónleikunum. ,,Ég var bara heima og hágrét því þarna var svo miklum áfanga náð fyrir okkur jazz söngvara,“ segir Kristjana. ,,Það er svo mikill fjöldi stórkostlegra ungra listakvenna og -manna kominn fram á sjónarsviðið sem vert að veita athygli og verðlaun,“ bætir hún við.
Vildi þakka konunum sem ruddu brautina
Rebekka segist hafa orðið svo undandi þegar hún heyrði af því að hún væri fyrst kvenna til að hljóta þessi verðlaun. ,,Það eru svo margar stórkostlegar söngkonur sem hafa rutt brautina á undan mér, það er alveg
ótrúlegt að þessi verðlaun hafi ekki verið veitt fyrr í þessum flokki“ segist hún hafa hugsað þegar hún áttaði sig á þessari staðreynd. Kristjana tekur líka fram að ekki megi gleyma konunum sem ruddu brautina fyrir hennar eigin kynslóð. ,,Þetta eru konur sem eru meira faldar. Þær eru klassískt menntaðar en hafa alla tíð sungið og kennt alla stíla söngs, bæði klassík, jazz og pop. Þær hafa kennt heilu kynslóðunum sem nú eru í sviðsljósinu og þær eru enn að. Þar nægir að nefna konur eins og Jóhönnu Linnet og Björk Jónsdóttur sem eru magnaðar listakonur og hafa staðið í ströngu að hrekja fordóma sem eru oft á milli jazzsöngsins og þess klassíska,“ segja þær.
Leiðir lágu saman í FÍH
Fyrir utan að vera sérstakir aðdáendur Ellu hafa söngkonurnar á þessum tónleikum komið að kennslu hver annarrar og í einu tilfelli er um ættartengsl að ræða. Kristjana á ættir að rekja til Blöndalanna í móðurætt og í hópnum er Rebekka Blöndal sem vissi ekki um þá tengingu fyrr en löngu eftir að hún hóf að nema söng. Aldursmunurinn á þeim tveimur er 20 ár og Kristjana segir að hún sé full aðdáunar á hæfileikaríkum ungum söngkonum sem í dag láta sannarlega til sín taka á tónlistarsviðinu og að þar í hópi sé Rebekka. Kristjana hefur kennt djasssöng í FÍH tónlistarskólanum þar sem leiðir þeirra Rebekku lágu fyrst saman. Hún hefur komið að kennslu margra íslenskra söngkvenna sem eru áberandi um þessar mundir. Rebekka hefði alveg hafa getað hugsað sér að vera undir leiðsögn Kristjönu í sínu námi þegar hún sótti um í FÍH en þá var Kristjana hætt að taka nemendur í einkatíma þar. Rebekka náði að vera í Söngvinnubúðum sem er masterclass sem Kristjana leiddi en fyrrnefnd Jóhanna Linnet var með Rebekku í einkatímum í hennar námi í FÍH að ógleymdri Ragnheiði Gröndal sem einnig kemur fram á tónleikunum í Salnum. ,,Það er því ótrúlega dýrmætt núna að fá að vinna í tónlist og skipuleggja tónleika með helstu jazzsöngkonum Íslands og fyrirmyndum mínum,“ segir Rebekka. ,,Þetta snýst um vináttuna, stemmninguna og stuðninginn við hver aðra, það er það sem gerir þetta svo frábært í alla staði,“ bæta þær við.
Jazz er í tísku núna
Þær Kristjana og Rebekka eru sammála um að nú séu sérstakir tímar því jazzinn sé sannarlega kominn í tísku hjá öllum aldurshópum. ,,Það nægir að nefna söngkonur eins og hina íslensk-kínversku Laufeyju Lin sem hefur náð alþjóðlegum frama mjög hratt. Hún fékk nýverið Grammy tilnefningu og er búin að gefa út tvö jólalög í samstarfi við hina margrómuðu tónlistarkonu Noruh Jones“.
Hugmyndin fæddist á Jómfrúnni
Stemmningin á tónleikum á Jómfrúnni hefur oft alið af sér enn aðra tónleika en hugmyndin að Ellu Fitzgerald tónleikunum fæddist einmitt þegar Rebekka kom þangað að hlusta á Kristjönu og hljómsveit hennar þar. ,,Við frænkurnar ákváðum að hittast tvær á kaffihúsi nokkru síðar og fullvinna þessa hugmynd sem við höfðum báðar gengið með í maganum lengi,“ segir Kristjana. ,,Hugmyndin var að hafa gaman og hóa saman fólki sem við vissum að væri skemmtilegt að vinna með og niðurstaðan var þessi frábæri hópur. ,,Mér líður eiginlega eins og ég sé í ,,girl bandi“ og við skemmtum okkur konunglega,“ segir Kristjana og áhuginn og ástríðan fyrir verkefninu leynir sér ekki og sú ástríða skilar sér án efa á komandi tónleikum.
Ellu vottuð virðing og kraftur kvenna blómstrar
Á tónleikunum í Salnum 1. og 2. desember eru flytjendur sjö konur og sex karlar. Fyrir utan söngkonurnar fimm eru tvær konur líka í hljómsveitinni, þær Rósa Guðrún Sveinsdóttir baritónsaxófónleikari og Ingibjörg Azima Gunnlaugsdóttir básúnuleikari.
Fram koma söngkonurnar: Rebekka Blöndal, Kristjana Stefáns, Ragnheiður Gröndal, Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir og Sigrún Erla Grétarsdóttir auk kvartetts Vignis Þórs Stefánssonar en hann skipa Vignir Þór á píanó og hammond orgel, Ásgeir Ásgeirsson gítar, Þorgrímur Jónsson kontrabassi, Magnús Tryggvason Eliassen trommur og Blásarasveit leidd af Brett Smith sem skipa Brett Smith alto saxófónn, Rósa Guðrún Sveinsdóttir baríton saxófónn og flauta, Eiríkur Orri Ólafsson trompet og flugelhorn og Ingibjörg Azima Guðlaugsdóttir básúna.
Sagan af vinkonunum Ellu og Marilyn er falleg og er dæmi um það sem tónlistin getur áorkað. Hún er öllu öðru mikilvægara þegar kemur að kærleik og samvinnu. Það vissu Ella og Marilyn og það vita vinkonurnar sem ætla að votta Ellu virðingu og flytja tónlist hennar í Salnum 1. og 2. desember.
Sólveig Baldurdsóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.