„Þeir sem vilja og geta eiga að fá að vinna“

Eins og Lifðu núna greindi frá sl. fimmtudag var þá tekin aftur á dagskrá Alþingis þingsályktunartillaga um afnám þeirra ákvæða í lögum sem takmarka starf opinberra starfsmanna við 70 ára aldur. Fyrsta umræða um tillöguna fór fram síðla þennan fimmtudag, 27. janúar, og skal hér stiklað á stóru í þeirri umræðu.

Fyrst er þar til að taka að allir þingmenn sem tóku til máls í umræðunni lýstu stuðningi við tillöguna. Flutningsmenn tillögunnar eru úr þremur þingflokkum – Vinstri Grænum, Flokki fólksins og Viðreisn – en þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki lýstu eindregnum stuðningi við hana einnig. Alls lögðu átta þingmenn orð í belg í umræðunni, sem tók tæpa klukkustund. Að henni lokinni var tillögunni vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.

Fyrir þá sem vilja og treysta sér til að vinna lengur

„Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að veita opinberum starfsmönnum

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir

möguleika á að vera áfram í starfi eftir að 70 ára aldri er náð ef þeir vilja og treysta sér til,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fyrsti flutningsmaður tillögunnar í upphafsræðu umræðunnar.

„Það er er bagalegt að þetta sé svona, að fólki sé í raun ýtt út af vinnumarkaði á svona ómálefnalegum forsendum og aldur einn og sér er,“ sagði Bjarkey, og bætti um betur: „Það má í raun jafnvel tala um að þetta séu ákveðnir öldrunarfordómar að um leið og þú náir ákveðnum aldri hafirðu misst hæfni og færni, sem er auðvitað ekki rétt. Ég vona sannarlega að tillagan nái fram að ganga, enda hefur hún hlotið góðar umsagnir í bæði skiptin sem hún var tekin fyrir hjá efnahags- og viðskiptanefnd,“ sagði Bjarkey, en tillagan er nú flutt óbreytt í þriðja sinn. Í fyrri tvö skiptin „sofnaði hún í nefnd“. Að sögn Bjarkeyjar hljóti þingheimur nú að geta sameinast um að það sé tímabært að taka þetta skref.

„Ætla aldrei að hætta að vinna“

Jakob Frímann Magnússon, þingmaður Flokks fólksins, sagði í sínu innleggi að hann hafi lengi verið þeirrar skoðunar „að það sé í rauninni ávisun á hröðun öldrunar og

Jakob Frímann Magnússon

hrumleika að hætta að vinna“. Hann sé sér meðvitaður um að hann deili þessari skoðun ekkert endilega með öllum, en í sínum huga „væri það alveg fráleit tilhugsun að ætla að hætta að vinna á einhverjum ákveðnum aldri, því þá fyrst hefur mér fundist menn byrja að eldast kannski óeðlilega hratt.“

Jakob bætti síðan við: „Ég er kannski heppinn að því leyti að hafa tónlistargyðjuna sem minn förunaut sem gerði mér það kleift fyrir mörgum árum að ákveða að ég ætla að aldrei að hætta að vinna. Ætla aldrei að stefna að því að hætta að starfa, á hvaða vettvangi sem það verður. Og það eitt og sér, sú ákvörðun, hefur veitt mér ákveðið frelsi til að planleggja eins langt fram í tímann og mér sýnist, að því gefnu að heilsa og þrek endist.“

Flokksbróðir Jakobs og aldursforseti Alþingis, Tómas A. Tómasson, sagðist alveg geta tekið undir það að það þurfi að hafa einvers konar starfsgetukönnun þegar fólk er orðið sjötugt, alveg eins og gildir um ökuréttindi. Aðalmálið sé: „Þeir sem vilja og geta unnið eiga að fá að vinna.“

„Eldra fólkið okkar á að eiga val“

Birgir Þórarinsson, Sjálfstæðisflokki, þakkaði fyrir tillöguna, sagðist telja hana mjög skynsamlega og hann styddi hana. Það gerði flokkssystir hans Bryndís Haraldsdóttir einnig, og gekk jafnvel svo langt að segja að það sé „í rauninni asnalegt að við skulum ekki vera búin að þessu nú þegar“. Það sé bara eðlilegt í lýðræðisþjóðfélagi að fólk fái tækifæri að nota krafta sína og líka mikilvægt fyrir samfélagið. Hún sagði líka mikilvægt að opnað væri fyrir möguleikann á hlutastörfum, og hvatti til þess ráðist yrði í heildarendurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Ingibjörg Isaksen

Tvær þingkonur Framsóknarflokks lýstu einnig yfir stuðningi, Ingibjörg Isaksen og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Bæði Ingibjörg og Lilja Rannveig sögði tillöguna falla vel að áherslum Framsóknarflokksins og geti verið liður í því að halda fólki áfram virku í samfélaginu.

Ingibjörg lagði áherslu á að „eldra fólkið okkar á að eiga val!“ Starfslok eigi ekki að vera þvinguð fram með lagareglum þegar ákveðnum aldri sé náð. „Þeir sem vilja vera áfram virkir á vinnumarkaði eiga að hafa kost á því ef vilji bæði launafólks og vinnuveitenda stendur til þess,“ sagði hún.

Ingibjörg sagði einnig að ákvörðun sem þessi myndi hafa víða áhrif í kerfinu og því sé nauðsynlegt að greina alla þá þætti er viðkoma m.a. lífeyrissjóðakerfinu og almannatryggingum og koma með tillögur að breytingum. Einnig sé mikilvægt að skoða þetta út frá kynjajafnrétti.

Lilja Rannveig vakti athygli á því að þessi tillaga tæki aðeins á „litlum hluta þeirra aldurstarkmarkana sem kveðið er á um í íslenskum lögum og reglugerðum. Sjálf er ég á þeirri skoðun að endurskoða þurfi öll aldurstakmörk hjá fullorðnum, helst með það í huga að afnema öll aldurstakmörk. Aldur er ekki hæfniviðmið!“ sagði hún.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn febrúar 1, 2022 10:39