Þetta gengur ekki lengur!

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar. 

Fyrir tveimur árum eða svo kom sonur minn í heimsókn og benti á sjónvarpið. „Mamma, þetta gengur ekki lengur! Þið verðið að fá ykkur stærra sjónvarp.“ Ég hummaði þetta lengi vel fram af mér enda fannst mér sjónvarpið ágætt. Hvers vegna að henda greyinu, sem enn var með mynd og hljóð? En smám saman varð það æ erfiðara að lesa textana. Ég kenndi ellisjóninni um. Augnlæknirinn var sammála því að mér lægi meira á nýjum augasteinum en sjónvarpi. Og svo varð.

Með nýjum augasteinum fríkkaði Akureyri, rykið í stofunni jókst og spegilmyndin breyttist líka, því miður. Enn og aftur kom drengurinn og hélt áfram að gera grín að sjónvarpinu (lesist: grín að mömmu sinni). Það var greinilegt að honum fannst það hallærislegt. „Þú sem eyddir stórum hluta starfsævinnar í Rúv getur ekki verið með svona gamla, ljóta mublu,“ sagði hann. Á endanum gaf ég eftir. Sonurinn keyrði mig í Ormsson, valdi sjónvarp fyrir þá neikvæðu, ég borgaði og við fórum heim með 55 tommu skjá, sem hann setti upp.

Ég er ekki mikið fyrir græjur. Til að byrja með fannst mér skjárinn alltof stór í stofunni. En smám saman vandist það og nú finnst mér græjan frábær. Bæði hljóð og mynd. Til og með textarnir eru læsilegir.

Ég fór að hugsa um þetta í gærkvöldi þar sem ég sat í litla aukahreiðrinu okkar í Reykjavík. Í þeirri íbúð er nefnilega samskonar sjónvarp og það sem við förguðum á Akureyri um árið. Nú gerðist það að ég sá varla textana og hljóðið var bæði holt og illskiljanlegt. Gísli Marteinn naut sín alls ekki og gestirnar hans ekki heldur. Ég held því að það stefni í að litli 30 tommu skjárinn verði látin víka hér líka. Nýju augasteinarnir duga alls ekki til að mæta þeim áskorunum sem tommurnar kalla á og ég er orðin of góðu vön.

Nemendur mínir í fjölmiðlafræði við HA komu fyrir nokkrum dögum  í heimsókn til mín á Akureyri. Talið barst að sjónvarpinu enda átti að sýna þar nemendaverkefni. Þeim fannst nýi skjárinn minn í minnsta lagi. Einn þeirra var með 80 tommu skjá og fannst hann mætti alls ekki vera minni. Ég hugsaði mitt um hvað þau hefðu sagt um gamla vin minn sem fór á haugana.

Ég man eftir því þegar ég sá sjónvarp heima hjá foreldrum mínum á Akureyri í fyrsta skipti árið 1968. Svart/hvítt túbusjónvarp. Virðuleg mubla í tekk-skáp sem var hægt að loka. Ég heillaðist ekki strax af fyrirbærinu enda ekki alin upp við lifandi myndir í stofunni. Enn síður lét ég mig dreyma um að ég ætti sjálf eftir að tengjast framleiðslu á efninu í  boxinu, né að hálfur veggur í stofunni minni í framtíðinni ætti eftir að verða einn gapandi skjár.

Sigrún Stefánsdóttir apríl 2, 2025 08:48