Sigríður Björnsdóttir, Innkirtla- og efnaskiptalæknir hefur starfað á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi í 17 ár. Hún hefur nú hafið störf á Íslandi og er með stofu í Hjartamiðstöðinni í Kópavogi. Hún hefur starfað mikið við beinþynningu í Stokkhólmi og verið í alþjóðlegu rannsóknarstarfi. Sigríður svaraði nokkrum spurningum varðandi beinþynningu fyrir lesendur Lifðu núna.
Hvað er beinþynning?
,,Beinþynning er sjúkdómur sem einkennist af minnkuðum beinmassa og rýrnun beina sem veldur því að bein brotna auðveldlega. Úlnliðsbrot, samfallsbrot á hrygg og mjaðmarbrot eru algengustu brotin. Beinbrot valda takmarkaðri hreyfigetu sem veldur oft minni sjálfbjargargetu og þar með skertum lífsgæðum.
Hætta á beinþynningu eykst með aldrinum og eru konur í meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar.
Hvað orsakar beinþynningu?
60 % tilfella stýrast af erfðum og þess vegna mikilvægt að vita hvort um sé að ræða ættarsögu um beinþynningu og hvort foreldrar eru eða voru með beinþynningu eða fengu lágorkubrot. Beinþéttnin minnkar hjá okkur öllum með hækkandi aldri. Kvenhormónið estrógen er beinverndandi en þegar styrkur þess minnkar við tíðahvörf tapa konur beinþéttni. Við getum ekki haft áhrif á genin og eftir því sem við eldumst töpum við estrógeninu. Hitt, eða 40 %, stýrist af ýmsu í umhverfi okkar eins og notkun sykurstera eins og Prednisólin sem hefur skaðleg áhrif á beinin og minnkar beinþéttnina. Hreyfingarleysi, reykingar og óhófleg áfengisneysla hefur líka skaðleg áhrif á beinin.
Hvaða einkenni hefur maður af beinþynningu?
Maður finnur engin einkenni af beinþynningu og því hefur beinþynning verið kölluð þögull sjúkdómur. Hins vegar finnur maður mikið fyrir afleiðingum sjúkdómsins sem eru brot við lítinn áverka eins og fall á jafnsléttu eða mikill bakverkur eftir að hafa borið þunga byrði. Þess vegna viljum við reyna að finna þá sem eru í mestri hættu að brotna og fyrirbyggja beinbrot.
Hversu algeng eru beinþynningarbrot?
Rekja má 1600–1800 beinbrot á ári til beinþynningar á Íslandi og af þeim eru mjaðmarbrotin u.þ.b. 300/ár alvarlegust.
Hvernig greinir maður beinþynningu?
Beinþynningu er hægt að greina með sértækri röntgenrannsókn þar sem þéttni beinsins er mæld í hrygg og mjöðmum. Rannsóknin tekur 20-30 mín.
Getur maður gert eitthvað sjálfur til að minnka líkur á beinþynningu?
Það er mjög margt sem maður getur gert sjálfur. Mikilvægt að borða næringarríkan mat. Að takmarka áfengisneyslu og hætta reykingum skiptir líka máli. Taka inn lýsi eða D vítamíntöflur og fá nægilegt kalk gegnum fæðinu. Regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir vöðva og bein. Öll hreyfing er af hinu góða. Styrktar- og jafnvægisæfingar eru mjög mikilvægar til að styrkja vöðva og bein og hindra byltur. Einnig er mikilvægt að huga að byltuvörum heima fyrir, forðast lausar snúrur og mottur, hafa góða lýsingu innan dyra og vera í góðum skóm og nota brodda þegar hálka er úti á veturna.
Að lokum.
Ég hef hitt mjög marga á Íslandi með beinþynningu og sumir hafa þegar brotnað. Þetta er fólk á öllum aldri en flestir eru í eldri kantinum. Ég dáist svo mikið af dugnaði þessa fólks. Ég hitti sem dæmi 86 ára gamla konu um daginn sem er búin að fá nokkur samföll í hrygg og því með bakverki sem hún finnur fyrir af og til. Hún tjáði mér að það besta sem hún gerði væri að fara út með göngugrindina sína og hreyfa sig. Eldra fólkið okkar eru góðar fyrirmyndir fyrir okkur sem yngri erum,“ segir Sigríður.