Tilbúinn að leggjast á árarnar fyrir eldri borgara

Á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, sem haldinn verður á Hótel Sögu á þriðjudaginn, verður kosinn nýr formaður í stað Ellerts B. Schram sem hættir eftir fimm ár í formennskunni. Einnig verður kosið til stjórnar og aldrei hafa jafn margir boðið sig fram í stjórnarkjöri í félaginu. Einn þeirra sem gefur kost á sér í stjórn er Viðar Eggertsson leikstjóri. Viðar var á tímabili verkefnisstjóri fyrir Gráa herinn og hefur að undanförnu verið  í „starfsþjálfun sem eldri borgari“ eins og hann kallar það. Hann var spurður hvers vegna hann hefði ákveðið að bjóða sig fram.

Þeir eiga að geta lagt árar í bát

„Í starfsþjálfuninn hef ég komist að raun um það hversu margir eldri borgarar hafa rýr eftirlaun eftir langa og oft stranga starfsævi. Það gengur ekki að fólk sem hefur skilað samviskusamlega sínu til samfélagsins, sé að leiðarlokum nánast látið lepja dauðann úr skel. Ég ákvað því að nú þyrfti ég að leggjast á árarnar með öðru góðu fólki. Annað er ekki í boði. Margir eldri mér eru orðnir lúnir. Þeir eiga að geta lagt árar í bát í trausti þess að aðrir taki við sem enn hafa þrek og kunna áralagið.“

„Þetta er nú það brýnasta, en hvað varðar innri mál félagsins þá er mikilvægt að efla félagslífið og hrista aðeins upp í því með því að hafa eitthvað á boðstólum sem hentar einkum yngri aldurshópum í félaginu, auðvitað án þess að rýra það sem er í boði  fyrir þá sem eru í efstu deild, ef ég má kalla þá elstu það“, segir Viðar og bætir við: „Dansleikir og tónleikar geta verið með tónlist sem er nær okkur í tíma og ef harmonikka birtist á sviðinu þarf ekki endilega að spila á hana gömlu dansana. Hún er til dæmis einkennishljóðfæri Grace Jones, sem mörg af okkar kynslóð þekkjum. Þannig má endurskoða og efla margt, án þess að hætta neinu.“

Síðasta vetur hrikti í stoðum félagsins á eftirminnilegan hátt vegna bygginga íbúða að Árskógum. Hvaða lærdóm finnst Viðari að við getum dregið af því máli? „Það var margt sem mátti betur fara í öllu ferli þessa máls og alvarlegt var að félagssjóður FEB þurfti að hlaupa undir bagga í málinu að lokum. Ég sé ekki að FEB eigi sjálft að standa í byggingu íbúðarhúsnæðis, hvorki til sölu né leigu. Í því eru fólgnar allt of miklar fjárskuldbindingar og alltaf má deila um það hvort gegnsæi í úthlutuninni sé nægilegt. Slíkar fjárfestingar eiga að vera í höndum ábyrgra aðila sem FEB getur þá í mesta lagi hvatt til að gera vel við eldri borgara almennt og mælast til að gætt sé ítrustu krafna í gegnsæi og siðferði við úthlutun slíkra gæða,“ segir hann.

Stjórnarkjör

Aðalfundur FEB verður haldinn þriðjudaginn kl. 14.00 í Súlnasal Hótels Sögu. Auk Viðars bjóða eftirtaldir sig fram í stjórnarkjöri. Haukur Arnþórsson og Borgþór Kjærnested bjóða sig fram til formanns, en til vara í stjórn, nái þeir ekki kjöri til formanns. Ingibjörg Sverrisdóttir býður sig eingöngu fram til formanns en ekki í stjórn.  Aðrir sem bjóða sig fram í stjórn eru:

Finnur Birgisson.

Geir A Guðsteinsson

Gísli Baldvinsson

Ingibjörg Óskarsdóttir

Jón Kristinn Cortez.

Kári Jónasson

María Kristjánsdóttir

Sigrún Unnsteinsdóttir.

Sigurbjörg Gísladóttir

Sigurður H. Einarsson

Steinar Harðarson

Steinþór Ólafsson

Sverrir Örn Kaaber.

Viðar Eggertsson.

Hér á heimasíðu FEB má sjá upplýsingar um frambjóðendur. Allir sem eru orðnir 60 ára og eldri geta gengið í félagið hvar sem þeir búa. Hægt er að ganga í félagið fram til 15.júní klukkan 14.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 13, 2020 14:48