Tónlistin þroskar alla 

Ólafur Kristjánsson, fv. bæjarstjóri, tónlistarmaður og málarameistari, hefur lifað viðburðaríku lífi, verið harðduglegur og látið gott af sér leiða bæði sem bæjarstjóri og tónlistarskólastjóri en ekki síst sem manneskja. Hann segir að erfið æska hafi kennt sér að skilja aðstæður annarra sem voru minni máttar á einhvern hátt. Hann hefur aldrei setið með hendur í skauti en haustið 2023, kominn hátt á níræðisaldur, gaf hann út hljómdisk með frumsömdum lögum.

Ólafur er ættaður frá Snæfjallaströnd og Grunnavík, hreinræktaður Norður-Ísfirðingur, og segir að það séu miklar sögur um forfeður sína þar. „Ég fæddist á Ísafirði 7. des. 1935 þannig að árin eru farin að líða aðeins. Ísafjörður var skemmtilegur og góður bær, fólkið náði vel saman og þarna eru æskuminningarnar margar. Ég gekk þarna í barnaskóla og gagnfræðaskóla en fór í sveit á sumrin. Ísafjörður var þegar á þessum árum mikill pólitískur menningarbær, ekki síst vegna tónlistarinnar.“

Ólafur segir að erfið æskuár hafi hjálpað sér til að skilja lífið betur og þá sem voru öðruvísi, en hann fæddist með skarð í vör og klofinn góm og var fyrir mikilli stríðni vegna þess. Hann bugaðist ekki heldur styrktist við mótlætið og nýtti reynsluna til að hjálpa og hvetja aðra sem stóðu höllum fæti eða var strítt. „Ég var um tíma í Málleysingjaskólanum í Reykjavík að læra framburð. Sumir fóru að apa eftir mér en ég var stór og sterkur og tók jafnvel stráka upp á herðunum og sagði við þá nokkur vel valin orð. Þetta styrkti mig og ég notaði þessa reynslu seinna til að hjálpa öðrum sem voru minni máttar á einhvern hátt. Ég sló einu sinn í borðið þegar kennari í Tónlistarskólanum var ósanngjarn við eina stúlkuna. Kennarinn tók mig á eintal eftir tímann en í stað þess að skamma mig þakkaði hann mér fyrir.“

Ólafur var aðeins 15 ára þegar hann  veitti lífsbjörg. Hann var í málningarvinnu í Súðavík þegar 6 ára drengur féll í sjóinn. Ólafur kastaði sér á eftir drengnum og bjargaði honum frá drukknun. Fyrir afrekið fékk Ólafur viðurkenningu og peningagjöf frá Slysavarnafélagi Íslands. Þetta sýnir vel dugnað hans og áræðni.

Byrjaði snemma að fikra sig áfram á hljóðfæri

Tónlistin var ríkur þáttur í lífi Ólafs á mótunarárunum og komu tónlistarhæfileikar hans þá vel í ljós. Móðir hans ýtti undir hæfileikana, hann fékk ungur harmónikku og byrjað að fikra sig áfram. „Ég var í sveit á Höfða í Jökulfjörðum og þegar ég kom heim var mamma búin að lána harmokikkuna til stráks, sem í óleyfi gaf hana öðrum strák í fermingargjöf. Foreldrar mínir bættu skaðann með því að styrkja píanókaup en fermingarpeningarnir voru notaðir í þau. Þegar upp var staðið voru þetta heppileg skipti.

Ísafjörður var heilmikill tónlistarbær á þessum árum. Jónas heitinn Tómasson var okkar lærifaðir og sótti ég tíma til hans, þá 12 til 14 ára. Seinna kom Ragnar H. Ragnar til skjalanna. Ragnar var mikill höfðingi, glæsimenni og hörkutól. Ég sótti líka píanótíma hjá honum og síðar urðum við miklir og góðir vinir.“

Hvernig var svo áframhaldið með skólagöngu og tónlistina? „Ég lærði málaraiðn hjá pabba, tók sveinspróf á Ísafirði og fékk meistarabréf 1960. Þess má geta að pabbi starfaði sem málari í 2-3 ár úti í Kaupmannahöfn á árunum kringum 1930 en það var ekki algengt á þeim tíma að iðnaðarmenn færu til vinnu erlendis. Hann þótti mjög góður málari, sérstaklega í eikarmálun, eða að „oðra“ eins og það var kallað.“

En tónlistin lét Ólafi ekki í friði. „Það var orgel heima hjá afa og ömmu og ég var alltaf að stelast í það og fikta, þetta kveikti enn frekar tónlistaráhugann og ég fór að spila í hljómsveitum. Ég spilaði víða á böllum eftir fermingu, m.a. í Ísafjarðardjúpi, Grunnavík og á Reykjanesi. Maður fékk ekki sérstaka tilsögn en varð að fikra sig áfram sjálfur með lögin sem þá voru vinsæl,“ segir Ólafur.

Í gagnfræðaskólanum stofnaði Ólafur ásamt fleirum skólahljómsveit, „allt drengir sem urðu mektarmenn. Síðar síðar kynntist ég Vilbergi Vilbergissyni, eða Villa Valla eins og hann er kallaður. Milli okkar skapaðist góð vinátta sem stendur enn. Eitt árið vildi Villi fá mig í nýja hljómsveit og það varð úr. En á sama tíma hafði ég fengið inngöngu í Samvinnuskólann en þurfti að hætta við þá skólavist. Villi er mikill snillingur á harmónikku og ég lærði heilmikið af honum. Við höfum spilað saman í 73 ár með hléum.“

Dreif sig í Tónlistarskóla Reykjavíkur

Ólafur kvæntist Herdísi Eggertsdóttur frá Bolungarvík og eignuðust þau þrjú börn. Árið 1957 fluttu þau suður til Reykjavíkur vegna bágrar stöðu atvinnumála á Ísafirði. Ólafur fór þá að vinna við málningarvinnu en fljótlega fór að dragast saman í málningunni þar.

„Ég hugsaði með mér að best væri að vera rólegur úr því að ég væri kominn suður og kanna málin, hvort ég fengi ekki eitthvað að gera við tónlistina. Neyðin kennir naktri konu að spinna og ég fór að spila til að eiga fyrir mat. Ég spilaði á böllum hér og þar í Reykjavík og nágrenni. Ég leitaði til Erik Hubner sem giftur var stúlku frá Ísafirði. Erik var með þekkta hljómsveit á Keflavíkurflugvelli og hann bað mig að koma strax og spila í þeirri hljómsveit. Í hljómsveitinni voru t.d. nokkrir atvinnutónlistarmenn og meðlimir í Sinfóníuhljómsveitinni.

Þarna kynntist ég mörgum fínum hljóðfæraleikurum og líka mönnum úr djassinum eins og Gunnari Reyni Sveinssyni og fleirum. Það eru til svo margar skemmtilegar sögur af þessum tíma að það væri efni í heila bók,“ segir Ólafur og hlær við. „Menn aðstoðuðu þarna hver annan, t.d. Bragi Hlíðberg sem sagði mér heilmikið til á harmónikkuna. Margir þarna urðu perluvinir mínir og hvöttu mig ákaft til að fara í Tónlistarskólann í Reykjavík í nýstofnaða kennaradeild. Það var varð úr, ég fór í kennaradeildina og kláraði námið þar.“

Með náminu vann Ólafur fyrir sér með því að spila á fleiri stöðum en hann segir að það hafi alltaf vantað píanista sem gátu hoppað inn og spilað allt mögulegt. Og það var ekki nóg með að Ólafur gæti spilað allt möguleg á píanóið eftir eyranu. Eftir því sem leið á tímann á Keflavíkurflugvelli gat hann spilað á æ fleiri hljóðfæri en píanó og harmónikku, hann gat einnig spilað á fjölmörg blásturshljóðfæri.

„Það er gaman að segja frá því að ég fór að læra á trompet hjá Páli Pamichler Pálssyni. Það gekk nú svona alla vega og þegar ég fór í próf spilaði ég Carnival of Venice, skemmtilegt lag, og Páll spilaði undir. En þegar ég er hálfnaður með lagið klappar Jón Norðdal prófdómari saman höndunum og segir: Strákar, stopp. Ég legg til að Ólafur fari á píanóið og Páll á trompetinn. Við hlýddum en á eftir sagði Páll: Óli, ég er bara ekki sáttur við þetta. Var það ég sem fipaðist eða þú? Og ég svaraði: Alltaf ert þú nú sami séntilmaðurinn, Páll minn. Það var mikið hlegið af þessu og Jón minntist oft á þetta og sagði: Ég hafði nú gaman af þegar ég var að hrekkja ykkur í prófinu.“

Gerðist bæjarstjóri í Bolungarvík

En svo kom að því að fjölskyldan flutti alfarið aftur vestur. „Ég var beðinn um að gerast stofnandi og skólastjóri nýs Tónlistarskóla Bolungarvíkur en skólinn tók til starfa árið 1964.“ Samhliða hélt Ólafur áfram rekstri málningarþjónustunnar auk þess að hella sér í sveitarstjórnarmál. Ólafur tók svo við starfi bæjarstjóra árið 1988 og var farsæll í því starfi til ársins 2003. „Maður var líka fenginn til að spila við margvísleg tækifæri, ég spilaði mikið með vini mínum Villa Valla á þorrablótum og við ferðuðumst mikið saman bæði innan lands og utan með konunum okkar.“

Aðspurður um hvaðan djassáhuginn komi segir Ólafur að hann hafi kynnst góðum djasshljóðfæraleikurum í gegnum sinn góða vin og kollega Villa Valla. „Villi Valli var mikill djassáhugamaður og þar kynntist ég djassinum, við hlustuðum á djassplötur og á góðar fyrirmyndir. Í gamla daga var ég hrifnastur af Erol Garner, sem samdi m.a. lagið Misty, og Fats Waller sem var með vinstri höndina alltaf á fleygiferð um hljómborðið.“

Oft var gestkvæmt á heimili bæjarstjórahjónanna í Bolungarvík, en þau eru orðlög fyrir gestrisni. Þá var gjarnan gripið í flygilinn og falleg dægurlög spiluð með léttri sveiflu eða bara hvað sem fólk langaði að heyra því Ólafur spilaði mikið eftir eyranu. „Ég man að við Lillý, kona mín, tókum eitt sinn á móti hljóðfæraleikurum frá Kína og það var til þess að síðar fórum við þangað í hópi sveitarstjórnarmanna. Mér var tekið með virktum í Peking, þeim fannst merkilegt að maður væri bæði tónlistarskólastjóri og bæjarstjóri. Kínverjarnir töldu víst að Bolungarvík væri milljónabær.

Það komu margir sem eru minnisstæðir til Bolungarvíkur, t.a.m. Margrét Danadrottning sem skoðaði sjóminjasafnið Ósvör, hún dvaldi þar lengi og fannst þetta afar merkilegt fyrirbæri. Margrét var afskaplega alþýðleg og skemmtileg,“ segir Ólafur.

Gaf út hljómdisk á níræðisaldri

Svo gerist sá merkilegi hlutur að þú ákveður að gefa út disk, kominn hátt á níræðisaldur með lögum eftir sjálfan þig, segðu mér frá því. „Ég hafði samið lög frá því ég var ungur og átti til ýmislegt efni en var ekkert að halda því sérstaklega til haga.“ Fyrsta lagið samdi Ólafur 17 ára fyrir danslagakeppni á Ísafirði, Kristín Aðalsteinsdóttir söng lagið og það fékk fyrstu verðlaun.

Árið 1999 spilaði Ólafur, ásamt fleirum, inn á geisladiskinn Gamlar minningar, þar sem er að finna þekkt jasslög.

„Það eru ýmiss konar lög á nýja diskinum, Bjórkvöld vina. Útgáfutónleikar voru haldnir fyrir fullu húsi sem var bara mjög gaman. Þarna eru ballöður, svona rólegri lög og með léttri sveiflu. Það voru aðrir sem vildu endilega að ég gæfi lögin út á diski og ég þurfti bara að hlýða,“ segir Ólafur og brosir af hæversku sem hefur ávallt einkennt hann. „Ég held að enginn maður eða kona ætti að miklast yfir störfum sínum heldur bara horfa yfir sviðið. Það er enginn fullkominn, sumt gerir maður vel og annað ekki. Ég held að maður eigi að hafa andlegt jafnvægi til að vega sín störf og meta. Mér er ekki vel við drambsemi og held að ég hafi aldrei verið með neitt slíkt.“

Að lokum spyr ég Ólaf hvort hann taki enn í flygilinn. „Ég spila alltaf eitthvað daglega, falleg sönglög og léttan sveifludjass. Tónlistin þroskar alla og fólk getur spilað þegar það er glatt og sorgmætt.“

Lögin má finna á Spotify og útgáfutónleikana á Youtube:

https://www.youtube.com/results?search_query=Bj%C3%B3rkv%C3%B6ld+vina

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn mars 17, 2024 07:00