Það er átak að flytja úr einum stað á annan. Ótal hlutir sem þarf að muna og ganga frá. Best er að byrja að undirbúa flutningana mánuði áður en flutt er. Með því að gera góðan tossalista yfir það hvað á að gera og hvenær minnkar streitan yfir flutningunum til muna. Hér er tillaga að einum slíkum lista.
Vika eitt
Láttu viðegiandi vita hvenær verður búið að tæma íbúðina.
Pantaður flutningabíl (flestir flytja í lok mánaðar og stundum getur verið erfitt að fá bíl nákvæmlega á þeirri stundu sem maður vill helst.)
Tæma allt úr skápum sem þú veist að þú ætlar ekki að nota framar. Losaðu þig við dótið. Gefðu það sem þú vilt ekki eiga eða auglýstu það til sölu á sölusíðum á netinu.
Taktu ákvörðun um hvaða húsgögn passa inn á nýja heimilið og losaðu þig við það sem ekki passar. Gefðu húsgögnin sem passa ekki á nýja staðnum eða seldu þau.
Útvegaðu kassa til að nota í flutningana.
Vika tvö
Byrjið að pakka. Pakkið hlutum sem þið þurfið ekki að nota strax á nýja heimilinu svo sem árstíðabundnum fatnaði, eldhúsáhöldum sem þið notið sjaldan og svo framvegis. (Munið að skirfa utan á kassana hvað er í þeim.)
Byrjið að taka myndir niður af veggjum og fylla upp í naglagötin.
Hættið að kaupa í matinn nema ferskvörur. Finnið leiðir til að nýta þurrvörur og það sem þið eigið í frystinum.
Látið bankann, póstinn og aðra fá nýja heimilisfangið ykkar ásamt dagsetningu á flutningunum.
Ef þið þurfið að skipta um tölvupóst þá er þetta rétti tíminn og eins að láta aðra vita að þið séuð að skipta um póstfang.
Vika þrjú
Hafið samband við Orkuveituna og pantið mælaálestur. Ef þið eigið eitthvað inni munið þá eftir að ganga eftir því.
Ef þið eruð áskrifendur að einhverjum blöðum látið þá vita um breytt heimilisfang það sama gildir um Stöð 2 og Símann og aðra þá þjónustu sem þið eruð áskrifendur að.
Ef þið eigið pottaplöntur hættið að vökva þær eða vökvið mjög lítið. Þá verða plönturnar léttari í flutningum og vatn sullast ekki út um allt.
Haldið áfram að pakka.
Vika fjögur
Pakkið á einn stað öllu því sem er nauðsynlegt fyrstu sólarhringana á nýja staðnum, svo sem rúmfötum, potti, pönnu, diskum, hnífapörum, handklæðum, tannbursta, sápu og sjampói. Passið að gleyma ekki hleðslutækinu fyrir símann eða tölvuna.
Ef þið ætlið ekki að þrífa gömlu íbúðina sjálf, ráðið þá einhvern til þeirra verka.
Skiljið eftir nýtt heimilisfang, ef þú fengir póst á gamla heimilisfangið eftir að þú ert fluttur.
Hvort sem þú ert leigjandi eða seljandi fáðu þá þann sem tekur við íbúðinni til að fara yfir hana með þér áður en þú skilar lyklunum svo að báðir séu sáttir við viðskilnaðinn.