Leiðir að hamingjusamara lífi

Það er ýmislegt sem eldra fólk getur gert til að auka hamingju sína á efri árum. Sumir verða kvíðnir og þunglyndir þegar líður á ævina á meðan aðrir njóta hvers dags.  Á vefnum Assisted Living Store er bent á þrjár einfaldar leiðir sem eiga að gera fólk hamingjusamara. Það góða við þessar hugmyndir er að þær kosta lítið sem ekkert það þarf bara að koma þeim í framkvæmd.

  1. Eiga gæludýr. Það fylgja því ýmsir kostir að eiga gæludýr. Fólk finnur fyrir vellíðunartilfinningu þegar dýrið nuddar sér upp við fætur þess, skríður upp í fangið á því eða krefst þess að fá að éta. Það er hægt að tala við gæludýrin um hvað eina, þau dæma eiganda sinn aldrei og hafa alltaf tíma fyrir hann. Rannsóknir sýna að fólk fólk sem á gæludýr er í minni hættu á að fá hjartaáfall, heilablóðfall og blóðþrýstingur þess lækkar. Gæludýrin viðhalda virkni eiganda síns það þarf að fæða þau og þrífa í kringum þau. Ef fólk getur farið í göngutúra með dýrið er það enn nú betra því það stuðlar að betri líkamlegri heilsu. Að eiga gæludýr getur líka brotið ísinn í samræðum á milli manna.
  2. Að vera virkur í samfélaginu. Fólk sem hefur eitthvað fyrir stafni er hamingjusamara en hinir sem sitja og bíða þess að tíminn líði. Fólk ætti að halda hreinu heima hjá sér og forðast að safna drasli í kringum sig. Athugið hvort það eru ekki félagsmiðstöðvar fyrir eldra fólk í nágrenninu og heimsækið þær. Takið þátt í sjálfboðaliðastarfi það og fara í félagsmiðstöðvar verður til þess að fólk kynnist nýju fólki. Í staðinn fyrir að horfa á sjónvarpið klukkutímum saman finnið ykkur ný áhugamál. Til að mynda lestur, blómarækt, málun eða farið að skrifa það er til dæmis hægt að opna fésbókarsíðu og miðla þar hugsunum sínum.
  3. Eyðið tíma í náttúrunni. Að vera úti hefur róandi áhrif á flesta. Farið í gönguferðir annað hvort ein eða bjóðið einhverjum með ykkur. Ef þið komist ekki út reynið þá að rækta plöntur á heimilinu. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að eldra fólk sem lagði stund á blómarækt tók meiri þátt í samfélaginu, var léttara í skapi og var líklegra til að kynnast nýju fólki eða viðhalda gömlum vinatengslum. Blómin gerðu fólk einfaldlega hamingjusamari.

Ritstjórn maí 10, 2019 09:12