Tengdar greinar

Hvað á að elda mikið af pasta eða hrísgrjónum?

Okkur hættir til að elda of mikið af hrísgrjónum, pasta og couscous. Þegar við reynum að elda það sem við teljum hæfilegt endar það oft með því að magnið verður ekki nægt. Það er einhvern veginn aldrei hægt að elda hæfilega mikið. En hvað ætli sé talið passlegt? Það veltur svolítið á því hvort um er að ræða meðlæti eða aðalrétt og líka því hversu svöng við erum. En vítt og breitt um heiminn er miðað við þessar skammtastærðir að því segir á vefnum Just Easy Recipes.

Hrísgrjón

Hálfur bolli eða 90 grömm af ósoðnum hrísgrjónum er talið duga fyrir fullorðinn einstakling.  Fyrir börn eða fólk sem borðar lítið eru 60 grömm talin hæfilegur skammtur. Hafið í huga að þegar hrísgrjón eru soðin þá tvöfalda þau stærð sína. Þessar skammtastærðir ættu því að duga.

Pasta

Það ætti að áætla 75 grömm af ósoðnu pasta á mann, 115 til 150 grömm af fersku pasta og 175 til 200 grömm af fylltu pasta. Sama reglan gildir um allt pasta, hvort sem það kallast spaghetti, penne eða rigatoni eða hvað annað. Þessar skammtastærðir eiga að duga okkur sem þokkaleg máltíð.

Couscous

Couscous er ekki jafn vinsælt og hrísgrjón og pasta en vinsældir þess eru að aukast. Miðað er við að 100 grömm af couscous sé nóg  en það veltur náttúrulega svolítið á því hvað er borið fram með couscousinu. Hafið í huga að 1 bolli af þurru couscos jafngildir 2 til 21/2 bolla af couscous sem búið er að bleyta upp.

Ritstjórn febrúar 7, 2019 09:57