Tryggja öllum sem best lífsskilyrði

Skerðingar á ellilífeyri brenna á eldri borgurum enda hafa laun þeirra lægstu hjá Tryggingastofnun lækkað um 6,7%  síðustu ár, sem hlutfall af lágmarkslaunum. Lifðu núna hefur sent öllum fulltrúum í velferðarnefnd Alþingis spurningar um afstöðu þeirra til skerðinga á ellilífeyri og kjara eldri borgara. Við höfum birt svörin sem hafa borist okkur og hér er svar Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks.

Hvað finnst þér um skerðingar á ellilífeyri í almannatryggingakerfinu og málssókn Gráa hersins?

Skerðingar eru alltaf leiðinlegar eins og orðið sjálft gefur til kynna. Því miður dugar ekki að vera á móti skerðingum til að afnema þær. Fjárhagur ríkissjóðs og önnur borgaraleg réttindi sem stjórnvöld þurfa að sinna hafa áhrif á hvort hægt sé að fjármagna afnám skerðinga. Ég fagna því að tekist hefur að draga verulega úr skerðingum á undanförnum árum, þökk sé öflugri og góðri hagstjórn og öflugu atvinnulífi. Kerfisbreytingar hafa verið gerðar, búið er að draga úr krónu á móti krónu, komið hefur verið á frítekjumarki og fleira til. Þar af leiðandi hefur ríkissjóði tekist að verja um 100% meiri fjárhæðum í almannatryggingar vegna ellilífeyris eða aukið úr um 40 milljörðum í 80. Áhrifin af þessum aðgerðum má sjá inn á www.tekjusagan.is. Það er óskandi að efnahagslífið taki fljótt við sér aftur svo hægt verði að gera enn betur.

Ég geri ekki athugasemd við málssókn Gráa hersins.

Finnst þér eðlilegt að tekjur eldri borgara hækki einu sinni á ári og þá í samræmi við neysluvísitölu en ekki launavísitölu eins og staðreyndin er?

Ég tel að hækkun á tekjum eldri borgara séu í góðum og traustum farvegi. Tekjurnar hækka jafn ört eins og almennt gerist á vinnumarkaði en tryggingin fyrir hækkun er enn meiri hjá eldri borgurum en öðrum skv. 69. gr. almannatryggingalaga þar sem bæturnar eiga að hækka skv. launaþróun en aldrei lægra en neyslutala vísitölu. Það er visst öryggi í þessu, sérstaklega á tímum eins og við lifum núna þar sem getur komið til launasamdráttar og þá hafa eldri borgarar áfram tryggingu fyrir því að fá hækkun skv. neysluvísitölu umfram alla aðra.

Ert þú þeirrar skoðunar að það eigi að afnema skerðingarnar?

Ég er þeirrar skoðunar að á Íslandi eigi að tryggja öllum sem best lífsskilyrði. Fyrst þarf að grípa þá hópa sem verst standa og eiga erfiðast með að standa undir grunnþörfunum, þ.e. að eiga tryggt heimili, fyrir mat og fatnaði og allir geti leitað til heilbrigðiskerfisins óháð tekjum og öðrum breytum. Því er mikilvægt að gera eins og stjórnvöld hafa gert undanfarin ár, að nýta góða stöðu ríkissjóðs til að draga úr skerðingum  hjá þeim sem minnst hafa á milli handanna. Takist okkur áfram vel með verðmætasköpun í íslensku samfélagi sem skilar sér í sterkari ríkissjóði eigum við að sjálfsögðu að gera eins vel og við getum fyrir okkar kæru eldri borgara og afnema skerðingar eins og hægt er. Við megum heldur ekki gleyma öðrum þeim aðgerðum sem hafa verið gerðar og koma margar þeirra öllum eldri borgurum sér vel óháð efnahag. Má þar nefna breytingu á greiðsluþátttökukerfunum bæði varðandi heilbrigðisþjónustu og lyfjakostnað ásamt því að frítt er fyrir eldri borgara að koma á heilsugæslu og þá hefur tannlæknaþjónustan verið að bætast við. Þá hafa verið stigin stór skref á húsnæðismarkaði með almenna íbúðakerfinu og breytingu á húsnæðisstuðningi í gegnum húsaleigubætur og fleira. Þá eru líka aðrir hlutir sem þarf að skoða til að bæta hag þeirra eldri og við sjálfstæðismenn höfum á stefnuskrá okkar. Má þar nefna breytingar á fyrirkomulaginu varðandi rekstur hjúkrunarheimila með því að auka frelsi og sjálfstæði þeirra sem þar munu búa, t.d. með afnámi vasapeningafyrirkomulagsins, og að gera fólki kleift að selja eignir sínar eins og sumarhús án þess að það skerði framfærslu þeirra, svo dæmi séu nefnd.

Hvað með skerðingar vegna atvinnutekna?

Það er ánægjulegt að finna þann kraft sem eldri borgarar sýna í því að vilja vinna áfram og láta gott af sér leiða til samfélagsins en um leið viljann til að fólk geti bjargað sér sjálft. Það var því mikilvægt skref að hækka frítekjumark atvinnutekna upp í 200.000 til að styðja við þennan mikla þrótt eldri borgara. Þarna mætast tvö sjónarmið sem erfitt er að finna réttan og sanngjarnan skurðpunkt á milli. Réttur sem fólk telur sig eiga eftir að hafa greitt skatta og skyldur í gegnum árin og verið duglegt að leggja fyrir annars vegar og hins vegar það sjónarmið hvort skattgreiðendur eigi að greiða þeim bætur sem hafa trygga framfærslu. Við viljum hvetja fólk til vinnu og að því sé ekki refsað fyrir að vilja bjarga sér sjálft um leið og við viljum ekki greiða atvinnuleysisbætur þeim sem eru á fullum launum annarsstaðar. Það var því jákvætt skref að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna og er ég þeirrar skoðunar að það megi enn hækka, en við verðum að forgangsraða fjármunum og tel ég rétt að hjálpa þeim sem minnst hafa fyrst og hafa ekki tök á því vegna stöðu sinnar og heilsu að vinna sér inn aukatekjur.

Ritstjórn september 8, 2020 07:53