Tryggingastofnun ríkisins (TR) greiddi á síðasta ári um 165 milljarða króna til 70 þúsund einstaklinga í mánaðarlegum greiðslum. Þessi upphæð samsvarar 15% af fjárlögunum. Hluti þessa fjár er ellilífeyrir, en það eru rétt tæplega 36.000 manns sem fá greiddan ellilífeyri frá TR, tæplega 20.000 konur og rétt rúmlega 16.000 karlar.
Fleiri og fleiri nota vefinn
Þeir sem hafa samskipti við stofnunina gera það eftir ýmsum leiðum, um hundrað manns koma daglega í þjónustuver TR í Hlíðasmára til að afla sér upplýsinga. Í ágúst hringdu að meðaltali tæplega 200 manns á dag í TR og í kringum 100 manns sendu tölvupósta daglega. Langflestir sækja sér samt upplýsingar í gegnum Mínar síður á vef TR, en tæplega 20.400 manns gerðu það í ágúst síðastliðnum.
Hægt að sjá stöðu umsókna
Mínar síður stofnunarinnar voru efldar verulega á árinu 2020, að því er fram kemur í ársskýrslu Tryggingastofnunar. Þær eru nú einnig á ensku og allar umsóknir eru aðgengilegar þar á rafrænu formi. Þá er hægt að sjá þar stöðu umsókna eftir því sem afgreiðslu vindur fram. Forstjóri Tryggingastofnunar segir í ársskýrslunni augljóst af viðbrögðunum að viðskiptavinir kunni vel að meta þjónustuna á Mínum síðum og um 30% aukning hafi orðið á notkuninni á milli áranna 2019 til 2020. Þegar tölfræðin er skoðuð nánar má sjá að umferðin á Mínum síðum hefur nær þrefaldast frá árinu 2015.
Smellið hér til að fara inn á Mínar síður.
Allt að færast í eðlilegt horf
Röskun varð á opnun þjónustuversins í Hlíðasmára vegna Covid og um tíma var það lokað. Á þeim tíma var síminn vel nýttur og Mínar síður komu að góðum notum. Nú er allt að færast í eðlilegra horf. Þjónustumiðstöðin í Hlíðasmára er opin milli klukkan 11 og 15 alla virka daga. Á þeim tíma sinna sérfræðingar ráðgjöf og veita ýmsar upplýsingar um stöðu mála í gegnum síma.