Tengdar greinar

Útförin kostar 650-750 þúsund krónur

Þegar fólk deyr, líða yfirleitt sex til tíu dagar þar til útför fer fram. Þeir sem hafa misst nána ástvini vita, að það er í mörg horn að líta við andlát. Flestir leita til útfararstofu til að annast undirbúninginn.  Það þarf að flytja hinn látna í líkhús, aðstoða við val á kistu, rúmfötum og líkklæðum. Útvega kapellu til kistulagningar panta tónlistarfólk, kistuskreytingar og þannig mætti lengi áfram telja. Mörgum vex í augum kostnaðurinn við útförina, en Frímann Andrésson útfararstjóri hjá Frímann og Hálfdán – útfararþjónustu, segir að algengast sé að kostnaðurinn sé á bilinu 650 – 750 þúsund krónur. Inní þeirri tölu sé allur kostnaður, nema við erfidrykkju og auglýsingar í fjölmiðlum, sem aðstandendur sjái um sjálfir.

Hérna fyrir neðan má sjá helstu kostnaðarþætti sem þarf að huga að fyrir útför (í krónum)

Þessi kostnaðaráætlun er miðuð við helstu grunnatriði í útförinni, en svo er hægt að bæta við þetta, til dæmis einsöngvara eða öðrum tónlistarmönnum. Klassískir tónlistarmenn miða sitt gjald yfirleitt við taxta FÍH.  Það gera dægurlagasöngvarar hins vegar ekki, en algengt er að þeir taki 50 þúsund krónur fyrir að syngja tvö lög við jarðarför. Erfidrykkjur eru svo með mismunandi sniði og kostnaður við þær einnig, en algengast er að aðstandendur sjái um hana. Vilji þeir aðstoð við það, veita útfararstofur hana gjarnan.

Útfararstyrkir

Frímann segir ástæðu fyrir fólk að huga að því hvort hinn látni eigi rétt á útfararstyrk, en sum stéttarfélög bjóða upp á slíka styrki. Reglur um þá eru mismunandi eftir félögum og líklegt að það séu einkum stærri verkalýðsfélögin sem bjóði útfararstyrki. VR er til dæmis með 500 þúsund króna styrk fyrir fullgilda félagsmenn. Það er þá sem deyja á meðan þeir eru í félaginu. Fyrir þá sem eru orðnir 67 ára, en voru fullgildir félagsmenn í VR í 5 ár, eru í boði tvenns konar útfararstyrkir. 210 Þúsund króna styrkur fyrir einhleypt fólk, en 350 þúsund króna styrkur fyrir þá sem eru í hjónabandi. Frímúrarar og oddfellow klúbbar eru einnig með útfararstyrki fyrir sína félagsmenn og hugsanlega fleiri félög. Það er rétt að kanna það.

Skoðaðu Upplýsingabanka Lifðu núna – um andlát og útfarir

Ritstjórn október 9, 2018 09:56