Var fæddur með taugaáfall

Hann var hávaxinn, hvasseygur gekk með stór gleraugu í dökkum umgjörðum en hugmyndir hans voru svo framúrstefnulegar að hann umbylti tískuheiminum og margt af því sem hann gerði stjórnar því hvernig við klæðum okkur þótt liðin séu sextán ár frá láti hans.

Yves Henri Donat Mathieu Saint Laurent fæddist í Alsír 1. ágúst árið 1936. Á þeim tíma var landið enn nýlenda Frakka. Hann var elstur þriggja systkina og sagt er að strax í æsku hafi hann verið farinn að teikna og klippa út dúkkulísur sem hann hannaði síðan pappírsföt á. Móðir hans þótti einkar fáguð kona og líklega hefur Yves erft næma tískutilfinningu sína frá henni. Um það leyti að hann varð átján ára var hannaði hann föt á bæði hana og systur sínar tvær. Æsku sinni lýsti hann engu að síður sem óhamingjusömu tímabili en hann þótti þögull og hlédrægur og var lítið fyrir íþróttir.

Yves hóf nám í tískuhönnun en hætti fljótt því  honum líkaði illa að sitja á skólabekk. Hann sendi þrjár teikningar inn í alþjóðlegu hönnunarkeppnina, International Wool Secreteriat, og vann. Eftir sigurinn bauðst honum viðtal við sjálfan Christian Dior og stuttu síðar hóf Saint Laurent störf við tískuhús hans. Síðar á ævinni sagði hann: „Dior heillaði mig. Ég gat ekki talað þegar hann var nærri. Hann kenndi mér engu að síður grunninn að list minni og ég mun aldrei gleyma árunum með honum.“

Eftir lát Diors, árið 1957, var Saint Laurent gerður að yfirmanni tískuhússins. Á fyrstu sýningu sinni sýndi hann svokallaðan trapísukjól en sá var með A-sniði. Kjóllinn vakti mikla athygli og varð strax feykivinsæll. Stuttu síðar var hann kallaður í herinn til að berjast í frelsisstríði Alsír. Eftir tuttugu daga hernað brotnaði hann niður og var um tíma vistaður á geðsjúkrahúsi þar sem hann gekkst undir sálfræðimeðferð og raflost. Andleg veikindi áttu eftir að hrjá hann alla ævi eftir þetta. Árið 1962 opnaði Yves eigið tískuhús þar sem hann hannaði undir eigin nafni; Yves Saint Laurent og verslanir með hönnun hans sem hann kallaði Rive Gauche opnuðu árið 1966.

Sótti sér innblástur víða

Hönnun YSL naut mikillar hylli á sjöunda og áttunda áratugnum. Hann var upphafsmaður bítnikk tískunnar. Áhrif frá þjóðbúningum voru áberandi í hönnun hans og hann notaði gjarnan skæra liti með svörtu. Mondrian-línan hans frá árinu 1965, þar sem hann vann út frá verkum samnefnds hollensks listmálara, vakti mikla athygli og það sama má segja um rómantíska bóndastúlkulínu hans árið 1976 en þá lá við uppþotum, svo mikillar hylli naut þessi fatnaður. Árið 1983 var Saint Laurent heiðraður af Metropolitan-listasafninu en hann varð fyrstur tískuhönnuða til að hljóta þann heiður í lifanda lífi.

En það var hins vegar árið 1986 sem hann kom fram með nýjung sem umbylti tískuheiminum. Le Smoking var hannaður sérstaklega handa konum en þótt þetta væri sannarlega ekki í fyrsta sinn sem konur klæddust karlmannsfötum eða jakkafötum var hann samt fyrstur til að aðlaga þau að kvenlíkamanum og smekk kvenna. Þessari nýung var tekið fagnandi og í margra augum var Le Smoking tákn kvenfrelsis og aukinna valds kvenna sem þá voru teknar að sækja í sig veðrið og færast ofar í metorðastigum víða í samfélaginu.

Hönnun Yves Saint Laurents þykir í dag klassísk og jafngild í nútímanum og  hún var þegar hann byrjaði. Í tískuheiminum er flest er dæmt úr leik eftir örfáa mánuði og því má segja að hönnun hans sé einstök. En Saint Laurent var byltingarsinnaður á fleiri sviðum og það vakti mikla athygli þegar hann, fyrstur tískuhönnuða, fékk þeldökka fyrirsætu til að sýna föt sín. Árið 1996 var hann fyrsti hönnuðurinn til að vera með tískusýningu í beinni útsendingu á Netinu. Innblástur hans kom úr ýmsum áttum en helstu músur hans voru Loulou de la Falaise, sem er frönsk hefðarkona, franska leikkonan Catherine Deneuve og súpermódelið Katoucha.

Yves Saint Laurent lét sér ekki nægja að hanna föt og fylgihluti. Árið 1964 kom á markað fyrsti ilmur tískuhússins sem bar nafnið „Y”. Með honum vildi hann hylla kvenleikann og nútímakonuna. Það tókst því ilmurinn hlaut afar góðar viðtökur og selst vel enn í dag. Síðar komu ilmvötn eins og Rive Gauche árið 1971, Opium árið 1977, Paris árið 1983 og Elle sem kom á markað í árið 2007. Snyrtivörur frá YSL þykja einnig afar spennandi og vandaðar.

Bianca Jagger í hönnun Yves Saint Laurent.

Ákaflega viðkvæmur einstaklingur

Þegar Yves Saint Laurent setti tískuhús sitt á stofn fékk hann til þess fjármagn frá sambýlismanni sínum, Pierre Bergé. Bergé lýsti vini sínum og elskhuga eitt sinn á þá leið að hann væri fæddur með taugaáfall en Yves var frægur fyrir að vera einstaklega viðkvæmur einstaklingur. Þeir slitu samvistum árið 1976 en héldu áfram að reka fyrirtækið saman. Yves Saint Laurent lifði sannarlega engu meinlætalífi. Hann átti fjölda heimila víða um heim sem voru skreytt ómetanlegum listaverkum eftir listamenn á borð við Picasso.

Árið 1999 var tískuhúsið selt og þá settist hann að mestu í helgan stein. Hann sá þó mikið eftir tískuhúsinu sínu og gagnrýndi tískuheiminn ákaft á þessum tíma. Hann sagðist eiga fátt sameiginlegt með ungum tískuhönnuðum.

„Ég á ekkert sameiginlegt með tískuheiminum í dag. Hátískan er orðin eins og gluggaskreytingar,” var haft eftir honum. Hann mun hafa ánetjast áfengi og fíkniefnum og varði síðustu æviárum sínum að mestu á heimili sínu í París og kom sjaldan fram opinberlega. Yves Saint Laurent lést þann 1. júní árið 2008 úr heilakrabbameini. Honum fylgdi til grafar margt stórmennið meðal annars Claudia Schiffer, frönsku forsetahjónin og tískuhönnuðirnir Valentino og Givenchy.

Nokkrar góðar tilvitnanir í Yves Saint Laurent

„Ég hef stundum óskað þess að ég hefði fundið upp bláar gallabuxur. Í bláum gallabuxum er samankomið allt það sem ég vil að komi fram í hönnuninni minni; kynþokki, hógværð og einfaldleiki.“

„Aldrei rugla saman glæsileika og snobbi.“

„Allt sem kona þarf til að vera falleg er svört jakkapeysa, svart pils og maður sem hún elskar.“

„Er skilgreiningin á glæsileika ekki sú að gleyma því algerlega hverju maður er klæddur?“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 13, 2024 07:00