Var kölluð hægðasérfræðingur Íslands

Guðrún Bergmann hefur lengi verið í fararbroddi þeirra hér á landi sem leita óhefðbundinna leiða til að bæta heilsu sína. Hún er stöðugt vakandi fyrir nýjungum og hikar aldrei við að reyna eitthvað nýtt ef heilsan brestur. Fyrr á árinu fékk hún svæsna matareitrun og uppgötvaði þá að sníkjudýr höfðu komið sér fyrir í líkama hennar. Henni tókst hins vegar með breyttu mataræði og jurtaefnum að lækna sig og líkt og alltaf þegar Guðrún lærir eitthvað nýtt þarf hún að kenna öðrum að nýta sér það sama.

Í sumar leiðsagði Guðrún ferðamenn og nokkrar helstu orkustöðvar Íslands.

„Ég fékk matareitrun í byrjun mars á þessu ári,“ segir hún. „Hún var svo svæsin að ég fékk útbrot á hálsinn og hryllilegan kláða. Ég var alveg viss um að þetta stafaði af sníkjudýrum sem hefðu komist inn í líkamann. Ég fór til læknis og hann sagði: „Sníkjudýr eru mjög erfið viðeignar og það tekur langan tíma að losna við þau,“ en hafði í raun engar ráðleggingar fyrr mig. Ég fór til húðsjúkdómalæknis og hann leit á hálsinn á mér og sagði: „Varstu ekki með exem sem barn? Þetta er bara exem.“ Hann skrifaði ávísun á eitthvert krem sem ég sótti aldrei því ég var með það á hreinu að þetta væri matareitrun. Þetta er það sem kallast SIBO, svo ég leitaði uppi námskeið á netinu í meðhöndlun þess og fann lausnir sem ég hef nýtt mér.

Ég hef auðvitað í gegnum tíðina talað mikið um candida-sveppasýkingu við fólk en þetta er næsta stig fyrir ofan. Alls konar bakteríur og ormar eru að þvælast í þörmum á okkur og í þessu bataferli fór ég í ristilskolun til Irenu sem var að vinna með Jónínu Ben. Það var svo merkilegt að mig dreymdi Jónínu skömmu áður. En við skolunina kom ormur niður af mér, en detox-prógrammið hefur hjálpað mér að hreinsa líkamann. Þegar ég lærði allt þetta sá ég einkenni um það sama hjá fólki í kringum mig og tók því ákvörðun um að kenna öðrum það sem ég lærði. Í hvert sinn sem ég uppgötva eitthvað nýtt finn ég hjá mér þörf til að miðla því til annarra. Ég er búin að vera með tvö námskeið nú þegar og það þriðja sem verður 8. janúar á næsta ári er komið í sölu.“

Of mikið af kolvetnum og brauði

Hægt var að skrá sig á námskeiðið á sérstöku tilboðsverði á degi einhleypinga þann 11. nóvember síðastliðinn og margir nýttu sér það en ráðgert er að bjóða aftur upp á svipað tilboð á svörtum föstudegi og að mati Guðrúnar er þetta góð jólagjöf.

„Skóinn kreppir víða að núna og margir eiga lítið af peningum,“ segir hún. „Þá situr heilsan á hakanum. Þegar illa stendur á fjárhagslega þarf fólk líka að velja ódýrari mat sem er yfirleitt óhollur. Fólk fer þá að borða alltof mikið af kolvetnum og brauði. Annars er svolítið merkilegt að ég hef í mörg ár verið að hvetja fólk til að borða minna af kjöti og meira af grænmeti og ávöxtum. Þann 17. júlí í sumar tók ég hins vegar ákvörðun um að gerast „carnivore“. Ég borða nær eingöngu kjöt, gríska jógúrt, egg og harða geitosta. Ég er með laktósaóþol svo ég segi að ég sé „áskrifandi“ að grísku jógúrtinni frá Örnu því hún er laktósafrí. Ég borða mikið af eggjum, mun meira en ég hef nokkru sinni gert áður. Svo borða ég kjöt, helst rautt kjöt og ég léttist um 6 ½ kg fyrstu sex vikurnar sem ég var á þessu mataræði. Það bókstaflega rann af mér og heilsa mín er allt önnur og betri.

Ég hef verið með meltingarvandamál frá barnæsku. Þau komu fyrst fyrir alvöru fram eftir að ég var misnotuð sem barn en ég glímdi við mikinn kvíða vegna þess og var komin með magasár tíu ára. Eftir það voru eilíf meltingarvandamál og átján ára lá ég í heila viku inni á Borgarspítalanum í rannsóknum meðan reynt að finna út hvað væri að mér í meltingarveginum. Ég var útskrifuð svo diplómatískt af lækninum. Hann sagði mig vera með psychosomatic-sjúkdóma. Ég komst síðar að því að það þýðir ímyndunarveiki. Það er hins vegar svo margt í meltingarveginum sem ekki finnst vegna þess að það er ekki kafað nógu djúpt. Til að greina SIBO – sem er ofvöxtur á bakteríum í smáþörmum – taka menn í Bandaríkjunum hægðaprufur og ekki bara eitthvað eitt sýni heldur 24 tíma sýni til að sjá hvað er að gerast en hér er ekkert gert. Læknirinn minn sagði bara að þetta myndi taka langan tíma og spurði hvort ég vissi hvað ég ætti að gera. Ég svaraði: „Já, ég veit hvað ég á að gera.““

Með hópnum sínum við Hallgrímskirkju. Svo hrifinn var ferðaskipuleggjandinn að fyrstu ferðinni að hann ákvað að koma aftur.

Markmiðið að fá bikíní-body

Og Guðrún vissi og vissi ekki. Hún vissi nóg til að byrja að leita upplýsinga og treysti því að hún myndi finna það sem á vantaði í leitinni. Hún kenndi áður námskeiðið Hreint mataræði en nýja námskeiðið heitir …?

„Meira en hreint, vegna þess að þetta er í raun meira en Hreint mataræði námskeiðið,“ segir hún. „Ekki gat ég kallað þetta: Laus við SIBO, því fólk veit ekki hvað SIBO er. Ég uppgötvaði réttu stuðningsefnin eftir nokkurra mánaða tilraunir. Ég ráðlegg bæði FODMAP mataræði sem er blanda af kjöti/fiski og grænmeti eða kjötleiðina af því að hún hefur skilað mér svo góðum árangri. Auk þess býð ég upp á mikla fræðslu um allt er tengist meltingunni enda búin að lesa og læra endalaust um hana í 35 ár.

Þeir læknar sem eru að vinna með þetta í Bandaríkjunum telja að um 90% fólks séu með sníkjudýr í þörmum. Það er vegna þess að við borðum svo mikið af unninni matvöru með alls konar aukefnum og fáum ekki þær örverur sem við þurfum úr jarðveginum. Eiturefni við framleiðslu matvörunnar eru líka að skaða okkur svo og mikil lyfjaneysla.“

„Í janúar á þessu ári hringdi ég í eldri son minn og spurði hann hvort hann væri búinn að setja sér markmið fyrir árið,“ segir hún. „Jú, hann ætlaði að setja á fót nuddstofu, enda var hann að ljúka nuddnámi í vor. Ég sagði honum hins vegar að mitt markmið væri að í eitt skipti fyrir öll ætlaði ég að vinna á þessum útþanda kvið sem ég hef verið með frá því ég var barn og ég ætlaði að finna lausn. „Ég ætla að fá bikíní-body,“ sagði ég og vissi ekki þá hvað ég þyrfti að ganga í gegnum til að fá hann. En hann er kominn. Kviðurinn er ekki ekki lengur útþaninn og ég „lúkka“ bara í bikini. Stundum setur maður sér markmið án þess að vita nákvæmlega inn í hvaða ferli maður er að fara, en árangurinn skilar sér.“

Guðrún við Brúarhlöð.

Laxerolíubakstrar eyða bólgum

Hún hlær við en hugsar sig svo um og segir: „Já, ég byrjaði líka að nota laxerolíubakstra á kviðinn. Ég byrjaði á því í mars. Það voru bólgur og samgróningar í þörmunum og það hefur allt breyst svo ofboðslega mikið, enda hef ég verið með laxerolíubakstur á kviðnum nánast á hverri nóttu frá 7. mars.“

Þetta segir hún vera gamalt húsráð sem hafi, líkt og mörg önnur slík, verið afskrifað sem kerlingabækur. Dr. Barbara O‘Neill, ástralskur náttúrulæknir, hafi hins vegar farið að tala um að hægt væri að losna við samgróninga, bólgur og jafnvel krabbameinsæxli með slíkum bökstrum.

„Hér áður fyrr voru menn bara með bómullartuskur en í dag er hægt að kaupa bakstra sem eru með rakaheldu efni öðru megin en bómull hinum megin. Maður setur laxerolíuna í bómullina og dreifir úr henni. Síðan setur maður baksturinn utan um kviðinn og sefur með hann eða er með hann á sér á daginn. Rakahelda efnið í bakstrinum býr til hita í bakstrinum þegar hitinn frá líkamanum berst í gegnum bómullina og hitinn hjálpar olíunni að ganga inn í gegnum húðina. Olían hefur það lága eðlisþyngd að þegar hún er komin í gegnum húðina fer hún að vinna í líkamanum. Um leið og þetta fór að skila mér árangri í minni bólgum fannst mér ég verða að segja öðrum frá þessu.“

Til þess að koma þeim skilaboðum áleiðis skrifaði hún handbókina Undraolían sem virkar, sem skýrir vel hvernig og til hvers hægt er að nota laxerolíuna eða Castor Oil eins og hún er kölluð á ensku.

Guðrún með tveimur konum úr ferðamannahópnum sem heimsótti orkustaði landsins og magnaði upp orkuna.

Leiðsögn um orkustaði Íslands

Þessi kjarnorkukona stendur ekki bara í námskeiðahaldi og útgáfu handbóka. Hún er líka leiðsögumaður.

„Ég hef verið að leiðsegja fólki sem hingað kemur til að upplifa andlega orkustaði landsins. Bandarískur kennari og andlegur leiðbeinandi kom hingað til lands í fyrra og aftur á þessu ári með hóp af nemendum sínum. Starfsmaður Terra Nova hafði samband við mig í fyrra skiptið og sagði: „Við erum beðin um að skipuleggja svona andlega ferð um Ísland og við vitum ekki hvað við eigum að gera. Getur þú skipulagt ferðina?“ Ég sagðist vera til í það gegn því að fá að vera leiðsögumaður þeirra því ég þekkti alla staðina. Undir lok þeirrar ferðar sagði ég Gene að ég hefði fengið skilaboð um að vinna orkuvinnu við Hofsjökul, sem er höfuðstöð landsins, og svæðin sem landvættirnir eru á og opna orkulínur. Hann varð svo spenntur fyrir þessari hugmynd minni að hann sagði strax: „Ég ætla að koma aftur með hóp á næsta ári.“

Það var svo dásamlegt að sjá hversu uppnumið þetta fólk var af hálendinu. Að fá að standa bara úti þegar búið var að drepa á bílnum og hlusta á vindinn, heyra hljóðin í landinu, árnið, ís að brotna og annað sem barst í kyrrðinni. Þetta var þvílík upplifun fyrir þau. Við vorum í tíu daga á ferðalagi og fórum meðal annars í göngu með Bryndísi Fjólu Pétursdóttur sem er með Huldustígsgöngurnar í Lystigarðinum á Akureyri. Í framhaldi af því hafði Bryndís Fjóla samband við mig og sagði mér að sig langaði að halda námskeið til að hjálpa konum að opna fyrir innsæisvitund sína og tengja sig við hulduverur og álfa í náttúrunni. Hún var með Borgarnes í huga sem stað fyrir þetta námskeið og spurði hvort ég vildi halda námskeiðið með henni. Ég gæti þá komið inn á stjörnuspekina og þá krafta frá himintunglunum sem hafa áhrif á vitund okkar núna.

Markmiðið var að fá bikíní-body, eða alveg sléttan maga og það tókst.

Við vorum með námskeið í Borgarnesi í október sem tókst frábærlega vel og stefnum á annað slíkt 24.-26. janúar á næsta ári. Þetta er mjög sérstakt námskeið því aðeins tólf konur komast að í einu svo þetta er gríðarleg upplifun fyrir hverja og eina. Bryndís Fjóla er mjög dugleg að kynna málstað álfa og huldufólks og segja má að kveikjan að þessu námskeið hafi tengst því að hún var að kortleggja álfabyggðir í landi Bjargs í Borgarnesi. Til stendur að leggja þjóðveginn meðfram Olís stöðinni og landi Bjargs, en þá myndu álfabyggðir þar hverfa og útivistarsvæði spillast.

Borgnesingar hafa verið svolítið glannalegir í umgengni við álfabyggðir, því þeir tóku nýlega niður stóran álfaklett við hliðina á elliheimilinu til að fara að byggja þar. Þess vegna er uppi svona verndunarátak bæði til að vernda sögur af samskiptum manna og álfa eða huldufólks og til að benda á að fólk þarf að hafa aðgengi að þessum stöðum til að geta tengst náttúrunni en sú tenging hefur að miklu leyti horfið.“

Guðrún með Gene sem skipulagði ferðina

Karlar of tregir að taka ábyrgð á heilsu sinni

Hvort viðleitni Guðrúnar og Bryndísar Fjólu verður til að álfabyggðum verði hlíft er ekki vitað á þessari stundu. En Guðrún hefur miklar áhyggjur af hversu mjög ungt fólk skortir jarðtengingu. En eru námskeiðin bara fyrir konur?

„Nokkrir karlmenn hafa spurt: „Hvað með okkur?“ Ég held að við þurfum að halda okkur við að hafa þau fyrir konur alla vega tl að byrja með. Karlmenn sækja síður svona námskeið en konur. Ég er búin að halda alls konar námskeið á síðustu þrjátíu og fimm árum og annað hvort kemur enginn karlmaður eða þeir eru tíu prósent af þátttakendum. Karlmenn hlusta hvorki á líkamleg né tilfinningaleg einkenni á sama hátt og konur gera. Þeim er ekki eins umhugað um að laga hlutina, eitthvað sem hugsanlega tengist gamalli karlmennskuímynd, en allt er að breytast..

Hægðavandamál eru líka svakalegt tabú hjá fólki. Ég hitti mann snemma á þessu ári og kynnti mig fyrir honum og hann sagði: „Já þú, þú ert hægðasérfræðingur Íslands.“

Ég svaraði: „Ég hef ekki gefið mig út fyrir það en ég hef vissulega verið að hjálpa fólki.“ Vinur hans hafði þá komið á námskeið hjá mér og sagt að ég hefði algjörlega bjargað honum með meltingarvandamálin, svo maður er skilgreindur á ýmsa vegu,“ segir hún og hlær. „En karlmenn sem hafa komið á hreinsunarnámskeið hjá mér eru yfirleitt mun duglegri að fylgja leiðbeiningum út í ystu æsar. Konur eru meira að svindla, svo þeir ná yfirleitt mun betri árangri.“

Karlar vantreysta konum og konur körlum

Frá því að tala um hvers vegna karlar rækta síður heilsu sína og tengsl við eigið innsæi en konur leiðist talið að almennum samskiptum kynjanna. Guðrún er ekki skoðanalaus fremur en venjulega.

„Undanfarið hefur ríkt mikil reiði í garð eins frambjóðanda til Alþingis vegna þess að hann hafði notað ófögur orð um konur í bloggfærslu. Vandinn er mun stærri en ljót orð, því konur nota þau líka um karlmenn. Ég sé þetta sem traustvandamál, því karlar treysta almennt ekki konum og konur ekki körlum. Við erum í einhverju fórnarlambshlutverki gagnvart hvort öðru og þurfum að umbreyta því,“ segir hún að lokum en frekari upplýsingar um námskeiðin og annað sem Guðrún er að gera má finna á vefsíðunni: https://gudrunbergmann.is/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn nóvember 22, 2024 07:00