Tengdar greinar

Varð alltaf fyllstur í partíinu

Karl á göngu í Santa Cruz á Tenerife.

Þegar Karl Eiríksson fann frelsið frá áfenginu fóru hlutirnir að gerast í lífi hans. Leiðin þangað var þyrnum stráð eins og alltaf er þegar fíknisjúkdómur er annars vegar en hann þakkar þeirri ákvörðun fyrst og fremst fyrir það sem hann á í dag sem hann segir að sé umtalsvert. Sú eign er þó ekki reiknuð til fjár þótt mikil sé. Nú eru liðin 30 ár frá því Karl setti tappann í flöskuna og á þeim tíma hefur hann eignast eiginkonu og dóttur og saman unnu þau að því að byggja upp fyrirtækið Móður Náttúru sem óhætt er að fullyrða að flestir Íslendingar kannist við. Þau hafa nú selt fyrirtækið og eru staðráðin í að nýta tímann vel og njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Kynntust á Grænum kosti

Karl kynntist Valentínu Björnsdóttur eiginkonu sinni, á Grænum kosti þar sem þau voru bæði að vinna en systir Karls er Solla sem stofnaði og rak þann veitingastað og margir þekkja. Kalli og Valla eru gjarnan nefnd í sömu andránni því þau hafa verið ,,dínamískt dúó” í mörg ár. Þegar þau hættu á Grænum kosti stofnuðu þau

Kalli og Valla á toppi Helgafells en útivist er eitt af áhugamálum þeirra.

fyrirtæki sitt, Móður Náttúru, en nú hafa þau selt þetta fjöregg sitt eftir að hafa átt þar margar ánægjustundir en líka erfiðar. Utanaðkomandi aðstæður gerðu þeim oft erfitt fyrir líkt og margir aðrir upplifðu á þessum árum sem þeirra fyrirtæki hefur lifað og dafnað þrátt fyrir allt. Þetta eru árin þegar bæði hrun og covid settu sitt mark á allan rekstur.

Gátum stækkað án mikillar skuldsetningar

Karl er matreiðslumaður að mennt og hafði ætlað að hjálpa systur sinni í nokkra daga þegar hún var að opna Grænan kost 1994. Sú vika varð að níu árum og þar rugluðu þau Valentína saman reitum sínum. Það kom að því að Kalla og Völlu langaði að stofna sitt eigið fyrirtæki og voru þá fyrst og fremst að hugsa um að elda fyrir leikskóla og skóla. ,,Valla hafði verið að elda fyir leikskóla og vissi að börnunum var ekki boðinn annar valkostur ef foreldrarnir vildu að þau borðuðu frekar grænmetisfæði. ,,Þá voum við svo heppin að fá eldhús upp í hendurnar,” segir Karl. ,,Við tókum að okkur að elda fyrir Áburðarverksmiðjuna og gerðum það í þrjú ár og á þeim tíma gátum við eignast öll tæki og tól sem þurfti til að elda rétti í stórum stíl án þess að skuldsetja okkur mikið. Við töldum okkur vita að það væri markaður fyrir þennan mat og það reyndist rétt. Við tókum svo að okkur að selja mat í fyrirtæki líka en ætluðum ekki í búðir með vöruna. En það kom að því að við  fórum að fá fyrirspurnir frá fólkinu sem kynntist matnum okkar í mötuneytunum um hvar væri hægt að kaupa réttina. Þá byrjuðum við með því að fá smá pláss í kjötborðinu í Melabúðinni, sem var okkar hverfisbúð. Þetta vatt strax upp á sig og við fóðrum fljótlega í fleiri verslanir með vöruna og fyrirtækið stækkaði hratt á þessum tíma.”

Og svo kom hrunið

Stína, dóttir Karls og Valentínu tók virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins. Hér er hún á matvælasýningu með foreldrum sínum 2007.

Árin frá 2005 til 2007 segir Karl að hafi verið mjög skemtileg og allt hafi gengið eins og í sögu. ,,Við vigtuðum og mótuðum alla réttina í höndunum og steiktum á stórri pönnu og lögðum mikið á okkur til að allt gengi upp. Við fjárfestum í tækjum og bílum og kælibúnaði og vorum passlega búin að stofna okkur í smá skuldir þegar hrunið dundi yfir. Auðvitað tók okkur langan tíma að vinna okkur upp úr því áfalli. Ég man að bankastjórinn okkar lagði til að við seldum sumarbústaðinn okkar til að borga skuldir en það vildum við ekki. Við leituðum allra ráða til að bjarga málunum án þess að selja bústaðinn  og það tókst,” segir Karl en þau eiga lítinn bústað í Grímsnesi sem þau hafa nostrað við.

Dásamleg dóttir bættist í fjölskylduna

Á þessum tíma eignuðust Karl og Valentína dóttur sem var fjögurra ára þegar mest gekk á við að bjarga fyrirtækinu eftir hrunið. ,,Hún var ekki vöknuð þegar ég fór í vinnuna og var svo sofnuð þegar ég kom heim dauðþreyttur,” segir Karl. ,,En með rosalegri vinnu hafðist þetta og við náðum landi enda ung og hraust á þessum tíma. Svo bauðst okkur að kaupa veitingastaðinn Krúsku af Náttúrulækningafélaginu 2010 og fara í veitingarekstur sem var mjög spennandi dæmi fyrir okkur. Valla tók að sér að reka Krúsku og gerði það mjög vel. Þannig rekstur er auðvitað þungur því þrír dagar í röð þar sem veður var vont þýddi mikið tap og veður er ekki alltaf gott á þessu landi.”

Náðum okkur vel upp en annað áfall var of mikið

Árin 2016, 17 og 18 segir Karl að hafi verið aftur mjög góður tími. ,,Við náðum landi með rosalegri vinnu sem var erfitt en líka gaman. Við sáum alltaf að erfiðið skilaði árangri og það var hvatningin til að

Hér er fjölskyldan á toppi Roque del Conde á Tenerife.

halda áfram. En svo þegar covid skall á og við sáum fram á að við tæki annar eins tími með vinnu öll kvöld og helgar þá sáum við að þetta var komið gott. Ég er kominn yfir sextugt og skrokkurinn eldist  auðvitað þótt ég sé í góðu formi og hugsi vel um mig. Ég vissi að ég var ekki tilbúinn að fara aftur í svona mikla vinnu til að halda fyrirtækinu á floti með tilheyrandi ábyrgð og áhyggjum.,” segir Karl.

Eru sjálf svokallaðir ,,flexiterians”

Þau Karl og Valentína eru ekki einstrengingsleg að neinu leyti þegar kemur að mataræði og borða í raun allt. ,,Við borðum alltaf hollan mat og mikið grænmeti en kjöt og fisk þegar það á við. Ég er búinn að finna út að rautt kjöt fer ekki vel í mig svo þá borða ég minna af því,” segir Karl en bætir við að þegar komi að mataræði sé skynsemin besti mælikvarðinn. Þau fylgi þeirri stefnu alltaf. Það viti allir að unnar kjötvörur eða mikill sykur eru ekki æskileg fæða og þá hljóti maður að velja að hafa þess konar fæði í minnihluta í daglegri fæðu.

Varð alltaf fyllstur í partíinu

Karl segir að hann hafi snemma verið orðinn dæmigerður alkohólisti án þess að vita af því. Hann hafi alltaf orðið fyllstur af öllum í partíinu sem var fyrsta merkið. ,,Mér þótti ég samt lengi vel alls ekki eiga við vandamál að stríða,” segir Karl og brosir. ,,Ég fann því fljótlega út að ég þurfti ekki að drekka. Það er munur á að þurfa ekki að drekka eða mega það ekki. Ég hætti líka að reykja og fann út að ég þurfti þess ekki heldur og ég stóð mig alltaf í vinnu svo mér þótti ég bara í góðum málum.”

Var skotinn í stelpu og hætti að drekka

Fjölskyldan á ferðalagi.

Saga sem Karl man eftir og er til marks um það þegar áfengið tók yfir í lífi hans er frá þeim tíma þegar hann var afskaplega óframfærinn, ungur maður. Hann var þá skotinn í stelpu sem vinur hans sagði að drykki ekki áfengi og reykti ekki heldur og ég yrði að gera eitthvað í mínum málum til að eiga séns. ,,Ég tók mig þá til og hætti að dekka og reykja og fannst það bara ekkert mál. Dagurinn hafði alltaf byrjað þannig að ég vaknaði við vekjaraklukkuna, teygði mig í sígarettu og reykti eina eða tvær áður en ég fór fram á bað. Svo var komið að gamlárskvöldi og við vorum saman fjórir einhleypir vinir sem höfðum hist í nokkur ár á gamlárskvöldi og ég sá alltaf um eldamennskuna. Ég hafði ákveðið að ég ælaði alls ekki að drekka þetta kvöld því mig hafði ekki langað í áfengi þennan tíma frá því ég ákvað að hætta. Þetta voru rúmir tveir mánuðir og það hafði svo margt gott gerst á þessum stutta tíma. Allt í einu átti ég pening sem hafði alltaf allur farið í brennivín og sígarettur og ég var síblankur. En svo var ég að græja matinn og strákarnir að fá sér bjór og horfa á sjónvarpið.”

Eitt rauðvínsglas varð að mörgum

,,Síðan var maturinn til og ég hafði tekið með mér ávaxtasafa sem ég ætlaði að drekka í staðinn fyrir áfengi. Ég var að hella safanum í glasið og þá segir einn félaginn: ,,Kalli, viltu ekki eitt rauðvínsglas með þessum frábæra mat.” Það var svo skrýtið að mig langaði ekkert sérstaklega í það en hugsaði: ,,Já já, ég get örugglega tekið eitt rauðvínsglas með matnum.” En sannleikurinn er sá að ég man ekki meir og réð alls ekki við að hætta eftir eitt glas. Þetta eina glas varð að mörgum og ég drapst drykkjudauða skömmu síðar. Þá tóku við nokkrir svakalega erfiðir mánuðir. Ég gat ekki drukkið og ég gat ekki verið edrú. Þetta kvöld missti ég það sem ég hafði verið búinn að finna út að var svo mikils virði sem var frelsið frá áfenginu. Mér leið rosalega illa og lífið fór í mikið ójafnvægi sem endaði með því að skömmur síðar hringdi ég inn á Vog og fékk jáyrði um að komast í meðferð. Solla systir mín hafði farið þessa leið og hjálpaði mér þegar hún sá að ég var tilbúinn. Það var mikil gæfa.”

Og niðurstaðan er sú að ég veit að allt sem ég á í dag á ég þessari ákvörðun minni að þakka. Ég ætti ekki yndislega dóttur og eiginkonu nema af því ég fórnaði áfenginu fyrir það,” segir Karl.

Efaðist um að hann væri í raun alkohólisti

Karl hafði auðvitað fylgst með fólki koma úr meðferð og ganga misvel. ,,Ég spurði sjálfan mig hvort ég væri að gera eitthvað rangt eða hvort ég væri að sleppa einhverju í

Kalli og Valla eru mikið útivistarfólk. Hér eru þau í gönguferð í Búrfellsgjá.

ferlinu við að hætta af því mér gekk þetta bara nokkuð vel. Mér fannst eins og mér ætti að líða miklu verr en fann fyrst og fremst fyrir létti. Mitt tilfelli var bara öðruvísi en þeirra, auðvitað var ég bullandi alkohólisti. Ég held að við uppgjöfina hafi ég fengið frelsið sem þurfti til að láta mér líða vel. En svo tók auðvitað við mikil vinna við að ná bata og ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að svo mætti verða. Ég gekk til dæmis til sálfræðings í 20 ár eftir að ég hætti og sæki fundi í 12 spora samtökunum  reglulega ennþá og vil alls ekki sleppa þeim.

Æðri máttur og þakklætið

Karl segir að allir finni eitthvað til að trúa á þegar í þetta óefni er komið. ,,Það er talað um æðri mátt í 12 sporunum en það er ekki skilgreint nánar. Hver og einn finnur sinn æðri mátt, sama hvað hann heitir. Ég þakka til dæmis alltaf fyrir mig þegar ég fer að sofa og oft bið ég líka um styrk þegar ég vakna. Ég hef lært á þessari vegferð að iðka þakklæti. Niðurstaða mín er sú að ég veit að allt sem ég á í dag á ég þessari ákvörðun minni að losna við áfengið að þakka. Ég á yndislega konu og dóttur og ég hugsa um hvað ég hef verið gæfusamur í lífinu, allt af því ég fórnaði áfenginu. Þá verður allt annað bara svo agnarlítið í samanburði. Ég get staðfest að þetta svínvirkar,” segir Karl ákveðinn.

Enda á sama stað og þau byrjuðu

Þau Karl og Valentína eru enn hugsjónafólk og enn vinna þau saman, nú í Melaskólanum. Valentína vinnur þar á skrifstofunni en  Karl sér um mötuneytið á staðnum. Það rímar vel við hugsjón þessa duglega fólks sem hrun og covid brá fæti fyrir en stóð samt upprétt eftir.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifaði þetta viðtal, sem er hér endurbirt úr safni Lifðu núna.

 

Ritstjórn maí 26, 2023 07:00