Á island.is er nú orðið að finna mikið magn handhægra upplýsinga fyrir íslenska borgara og enn bætist við þann fjölda nú þegar tr.is flyst þangað. Samkvæmt fréttatilkynningu Tryggingastofnunar er þetta gert til að auðvelda fólki upplýsingaöflun og einfalda hlutina. Eftirfarandi frétt birtist inn á vefnum:
„Skýrar upplýsingar eru meðal þess sem við hjá TR leggjum áherslu á í starfi okkar. Á vefnum tr.is má finna mikið af fróðleik um réttindi og greiðslur almannatrygginga. Nú höfum við uppfært allt efnið og sett það upp á aðgengilegan hátt á vefnum Ísland.is. Þar er einnig aðgangur að Mínum síðum TR og reiknivél lífeyris sem er afar mikið notuð. Vefurinn tr.is verður opinn til 10. apríl nk., en eftir það vísum við á Ísland.is.
Með flutningi á Ísland.is viljum við einfalda leit að upplýsingum um almannatryggingar og auðvelda notendum að finna upplýsingar um réttindi og greiðslur í kerfinu. Hluti af flutningnum á Ísland.is felst í að setja upp þjónustuvef þar sem finna má svör við algengum spurningum þannig að notendur eru leiddir áfram til að finna rétt svar. Það er mun öflugri þjónusta en við höfum getað boðið uppá hingað til og mikið framfaraspor.
Við vonum að flutningur tr.is á Ísland.is muni gagnast notendum vefsins sem allra best og bjóðum ykkur öll velkomin til TR á Ísland.is“
Við hvetjum lesendur til að kynna sér island.is og kynna sér þær leiðir sem þar eru færar til að afla sér upplýsinga um réttindi sín og skyldur.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.