„Veldu mig, ég er æði“

Við sem erum með áratugalanga reynslu á vinnumarkaði, hvort sem við erum þar enn eða sest í helgan stein, vitum eflaust flest hvernig að sækja um vinnu með sem bestum árangri en það er auðvitað ekki sjálfgefið að kunna það. Hér fyrir neðan má lesa um nokkrar frekar skrautlegar atvinnuumsóknir sem hefði verið betra að fá einhvern til að lesa yfir fyrir sig.

Hér á landi gæti verið erfiðara að skrökva upp á sig reynslu og gráðum en í útlandinu stóra. En, eitt sinn skrifaði greinarhöfundur starfsumsókn í algjöru gríni, umsóknarfrestur var nýlega útrunninn og því lítil von til að fá þetta draumastarf … en ég fékk það nú samt – meira að segja þrátt fyrir að hafa stórlega ýkt hæfileika mína til starfsins, sem vinir og ættingjar í Þingeyjarsýslu gætu heldur betur borið vitni um …

– – – – –

Starfsumsóknir

„Vinsamlega ekki hafa samband við síðasta vinnuveitanda. Hann er eigandi fyrirtækisins sem ég vann hjá og við áttum í ástarsambandi. Konan hans komst að því og ég var rekin til að bjarga hjónabandi þeirra. Ég veit að ég fæ ekki sanngjarna umsögn frá honum.“

„Ég starfaði sem flugfreyja hjá Konunglega breska flughernum árin 1990-1997.“

„Ég tók mér pásu frá vinnu allt árið 2015 til að sinna hestinum mínum.“

„Ég starfaði við umönnun gamalla karla og þurfti að tékka reglulega á því hvort þeir væru lifandi eða dauðir.“

Hefurðu verið ákærð/ur fyrir glæp? „Já, ég skal útskýra það í viðtalinu.“

„Ég hef leingi starfað við prófargalestur.“

Meðmæli: „Guð.“

„Hann var ekki með neina framhaldsmenntun og í plássið sem hann átti að skrifa það í umsóknina setti hann á latínu: „Engin framhaldsmenntun“. Það virkaði svo flott og virðulegt að hann fékk starfið.“

„Fyrir mörgum árum var ég yfirmaður hjá símasölufyrirtæki. Kona, um það bil 45 ára, sótti um. Umsókn hennar var skrifuð með tússlitum í öllum regnbogans litum og skreytt með blómum og regnbogum. Kannski óþarfi að taka það fram að þessi kona gegnir nú gamla starfinu mínu.“

„Grafískur hönnuður sótti um hjá mér og í meðfylgjandi portfolio-möppu mátti finna fjölda verka sem unnin voru á síðasta vinnustað hans … af öðru fólki.“

Áhugamál/hobbí

Oft er fólk beðið um að segja frá áhugamálum sínum þegar það sækir um vinnu. Einn umsækjandi sagði: „Að leika við hundana mína tvo. Konan mín á þá reyndar en ég elska þessa hunda meira en hana.“

Ung kona sagðist hafa mest gaman af því að plokka augnabrúnir og önnur kvað sitt áhugamál vera að vaska upp. Ekki fylgdi sögunni hvort hún var að sækja um vinnu sem uppvaskari. Skemmtilegasta sem einn umsækjandinn vissi var að herma eftir jarðskjálftum með því að hrista borð. Annar kvað mestu skemmtunina vera fólgna í því að vera fullur á kvöldin niðri við vatnið, spila á gítar og reykja gras. Einn sagðist hreinlega elska að hafa það náðugt. 

Hæfileikar/kunnátta

„Er vinnusamur, mjög athugull, á gott með að vinna með öðrum, sjálfstæður í vinnubrögðum og mjög athugull.“

„Ég er góður í að veiða krókódíla.“

„Vann með pabba við að byggja ýmislegt og með mömmu við að þrífa húsið.“

„Góður með peninga, vinn best einn.“ Ástæða þess að þú hættir í síðasta starfi: „Rekinn fyrir þjófnað.“

Umsókn árið 2002: „Hef tíu ára reynslu í Java.“ Java kom á markað 1995.

Aðalhæfni: „Er skapandi, hugrakkur, hrokafullur, gáfaður og heiðarlegur.“

„Mig langar að verða geimfari og held að starfið í símaverinu muni hjálpa mér við að ná nægilegu sjálfsöryggi til að tala við stjórnstöð utan úr geimnum.“

„Ég er algjör sigurvegari. Meira að segja áður en ég fæddist sigraði ég í keppni við milljón aðrar sæðisfrumur.“

„Ég get gert 75 armbeygjur í röð.“

„Í 10. bekk vann ég keppni um að byggja brýr úr tannstönglum.“ 

Ástæða fyrir að hætta í fyrra starfi

„Eiginmaður minn var yfirmaðurinn, yfirgaf mig fyrir þjónustustúlku.“

Síðasta starf: „Rak eigið fyrirtæki.“ Ástæða þess að þú hættir: „Var rekinn.“

„Ég starfaði við að pípa (pípulagnir)“. Ástæða þess að þú hættir? „Ég gat ekki pípað.“ 

Vinnuveitandinn segir

Umsækjandinn …

– sendi okkur fína umsókn nema hann gleymdi að gefa upp nafn sitt.

– lét fylgja með bréf frá móður sinni.

– skrifaði ferilskrána eins og leikrit, 1. þáttur, 2. þáttur o.s.frv.

– lét fylgja með nektarmynd af sjálfum sér.

– sagði sjálfan sig vera snilling og bauð starfsmannastjóra fyrirtækisins að koma heim til sín til að taka starfsviðtalið.

– sagðist vera afar nákvæmur en stafaði þó nafn fyrirtækisins rangt.

– sendi umsókn sína með leiðréttingum einhvers annars þar sem m.a. var athugasemdin: „Ég held að þú viljir ekki segja þetta um sjálfa þig hér.“

– sendi ferilskrá sína inni í uppblásinni blöðru.

– sendi fjögurra síðna ferilskrá sem innihélt í smáatriðum allt um störf hans og sjálfboðavinnu frá tólf ára aldri.

– sagði í umsókn sinni að hann hefði flogið með fyrirtækisþotu.

– sendi rafræna ferilskrá, í hverri línu var eitt feitletrað orð og ef ýtt var á það leyndust þar skilaboð um frekari hæfileika hans og snilli.

– skrifaði það eitt í ferilskrána: „Veldu mig, ég er æði.“

– sendi ljósmyndir af sér frá barnæsku til fullorðinsára.

– sendi ferilskrá upp á fimm síður. Hún hafði unnið við pítsugerð og undir „starfsskyldur“ lýsti hún í smáatriðum hvernig pítsa væri búin til.

– sendi af sér stóra ljósmynd þar sem hann stóð fyrir framan límósínu en skýrði það ekki frekar.

– skrifaði orðið kaldhæðni sem áhugamál/hæfileika. Hann fékk starfið og er einn besti starfsmaður sem ég hef haft.

– setti engar upplýsingar um hvernig hægt væri að ná í hann, nema Twitter-aðgang sinn.

– skrifaði samviskusamlega heimilisföng fyrri vinnustaða en ekki nöfn þeirra.

– notaði enga hástafi í umsókn sinni.

– skrifaði í reitinn „sérkunnátta“ að henni hafi tekist að venja köttinn sinn á að nota klósett. Hún var að sækja um yfirmannsstöðu sem vélaverkfræðingur.

– sagði í reitnum „hæfileikar“ að hann talaði móðurmálið (ensku) reiprennandi og hefði tuttugu ára reynslu af því. Hann var nítján ára.

… skrifaði umsókn sína í bundnu máli og allt rímaði.

– kom í fylgd móður sinnar sem fyllti út umsókn hans. Undir „annað“ skrifaði hún fyrir hönd sonarins;: „Ég er elstur þriggja systkina og veit hvernig á að stjórna.“

– sagði í umsókn að hann hefði unnið hjá fyrirtækinu okkar. Í ljós kom að hann hafði haft það í ferilskránni þegar hann sótti um hjá öðrum fyrirtækjum en gleymt að eyða því þegar hann sótti um hjá okkur.

– sendi 398 síðna ferilskrá þar sem m.a. var hlekkjað í hugleiðingar afrísks listamanns um lífið og að gullernir búi yfir leynilegum ofurkröftum til að bjarga okkur.

– lét þess getið að fjölskylda hennar væri í mafíunni.

– notaði andlitsmynd af sér sem bakgrunn ferilskrárinnar.

– sendi umsókn sína í formi risastórs rubik-kubbs þar sem þurfti að ýta á kubbana á öllum hliðum til að geta séð hana. Hann var ráðinn.

– kvaðst tala antarktísku í umsókn sinni um starf á Suðurskautslandinu.

– lét fylgja með hlekk á heimasíðu sína sem innihélt nektarmyndir af henni.

– um hjúkrunarstarf tók það fram að henni væri meinilla við blóð og nálar.

– sendi níu síðna umsókn og með fylgdi fjögurra síðna ferilskrá.

Guðríður Haraldsdóttir, blaðamaður Lifðu núna, tók saman

Ritstjórn nóvember 14, 2023 10:00