„Verðum að þora að gera mistök“

Viktor Breki Óskarsson leirlistamaður og kennari rekur leirkeraverkstæðið Stúdíó Viktor Breki. Þar vinnur hann að list sinni og tekur á móti viðskiptavinum sem og áhugasömum nemendum. Auk þess að kenna í Myndlistaskóla Reykjavíkur býður hann nefnilega fólki að koma á mislöng námskeið á verkstæðinu og snerta, móta og skapa úr leir. Líklega muna flestir hve óskaplega gaman það var að búa til drullukökur í sandkassanum í gamla daga en þarna gefst færi á að taka þær upp á næsta stig.

Þú gefur fólki tækifæri til að reyna sig við leirmunagerð. Hver er ávinningurinn af því að skella sér á slíkt námskeið?

„Já mikið rétt. Ég sérhæfi mig í kennslu í leirrennslu, þar sem leir er unninn á rennibekk. Bæði kenni ég morguntíma í Myndlistaskólanum í Reykjavík ásamt því að vera með kvöld- og helgarnámskeið á minni eigin vinnustofu.

Ég myndi segja að ávinningurinn af svona námskeiðum sé margþættur. Áherslan sem ég reyni að setja á mín námskeið er sú að fólk upplifi núvitundina sem fylgir því að renna leirinn. Síðan skemmir auðvitað ekki fyrir að nemendur búa til sína fallegu nytjahluti sem þau geta notað um ókomna tíð,“ segir Viktor Breki.

Viktor Breki segir að allir geti búið til fallega hluti.

Allir geta mótað leir

Lifðu núna hefur hitt fólk sem tekið hefur þátt í námskeiðum hjá þér og eiga það sameiginlegt að hafa komið sjálfu sér á óvart. Geta allir lært að búa til fallega gripi eða þarf sérstaka hæfileika til?

„Allir geta lært að búa til fallega gripi. Fyrir suma getur líkamlega áreynslan verið of mikil við rennslubekkinn þar sem það tekur á hendurnar að læra handtökin en þá hafa nemendur oft valið að handmóta í staðinn.“

Leirmótun hefur verið notuð í meðferðarstarfi því leirinn er mjög mótanlegur og mjúkur og fólk sem þarf að ná upp handstyrk aftur eftir áföll nær iðulega meiri hreyfifærni og betri fínhreyfingum með hjálp hans. Sumir óttast að til að ná að renna leir þurfi styrkar hendur og gott grip. Þarf einhvern sérstakan undirbúning fyrir keramiknámskeið eða er eitthvað sem þú mælir með að fólk hafi í huga?

„Það getur verið ágætt að kynna sér kennslumyndbönd á youtube en hver og einn kennari nálgast kennsluna á ólíkan hátt. Erfitt er að renna leir með mjög langar neglur svo fínt er að klippa eða pússa þær. Annars finnst mér mikilvægast að undirbúa sig á þann hátt að við leyfum okkur að vera byrjendur og verðum að þora að „gera mistök“ fyrir framan aðra án þess að það dragi úr okkur kjarkinn. Það er ekki auðvelt að prófa nýja hluti, hvað þá fyrir framan aðra, en það gefur okkur svo mikið þegar við horfum til baka,“ segir hann eð áherslu.

Læra handtökin á fyrsta námskeiði

Það krefst ákveðinnar handlagni og góðrar tilfinningu fyrir efninu að renna leir svo vel sé og gripurinn verði tignarlegur og fallegur. Hvað getur fólk búast við að vera búið að ná mikilli færni eftir að hafa setið kvöldnámskeið hjá þér?

„Oftast byrjar fólk á því að prófa styttra námskeið eins og helgarnámskeið. Þar læra nemendur öll handtökin við að renna lítil form eins og bolla og skálar ásamt því að móta botninn á hlutnum með afrennslujárni daginn eftir. Á 8-12 vikna námskeiðum þar sem nemendur koma einu sinni í viku er farið í gegnum öll sömu skrefin en nemendurnir fá mun dýpri þekkingu á ferlinu ásamt því að glerja sjálf sína eigin hluti með mismunandi glerungum.“

Það getur verið erfitt að stíga skref út fyrir þægindarammann ekki hvað síst ef maður er einn á ferð. Kemur fólk eitt á námskeið til þín eða er algengast að vinahópar skrái sig?

„Það er mjög misjafnt eftir hópum en algengast er að fólk komi 2-3 saman á helgarnámskeiðin. Þá myndast strax öðruvísi stemning í hópnum og léttara er yfir fólki.“

Leirmunagerð er næstum jafngömul mannkyninu og á söfnum má sjá af hve miklu listfengi maðurinn hefur snemma lært að nota leirinn. En hvað er það við leirinn sem heillar fólk?

„Ætli það sé ekki misjafnt eins og með svo margt. En það sem að leirinn hefur kennt mér og hjálpað mér með er hraðinn í lífinu og væntingastjórnunin. Leirinn hægir á okkur og kennir okkur að stundum er bara allt í lagi að gera mistök og byrja upp á nýtt,“ segir Viktor Breki að lokum og líklega höfum við öll gott af því að læra svolítið meiri þolinmæði og njóta þess að gera mistök í öruggu umhverfi.