Við gefum ekkert út um veðrið langt fram í tímann segir Júlíus Baldursson, ritari veðurklúbbsins á Dalbæ, dvalarheimili aldraðra á Dalvík, þegar Lifðu núna slær á þráðinn til hans til að spyrja hvað klúbburinn segi um veðrið í sumar, en sumardagurinn fyrsti er á morgun. Júlíus sagði að kuldakast væri væntanlegt í þessari viku, en sumarið kæmi svo eftir að því lyki. Annars sagði hann að klúbburinn gæfi ekkert út um sumarið á landinu í heild og skoðaði mest veðrið á Dalvík og þar í grennd. „Við verðum heppin með sumarið á Dalvíkinni, það er alltaf gott hér“, segir hann.
Veðurklúbbur í 20 ár
Veðurklúbburinn sem er landsfrægur, tók til starfa fyrir um 20 árum. Hann heldur formlega fundi í byrjun mánaðar og þá er farið yfir hvað þeim félögunum finnst um veðurútlitið næsta mánuðinn. Við gefum út veðurspá eftir fundinn og liggjum svo á bæn og vonum að hún standist“, segir Júlíus. Hann segir að veðurspáin fyrir desember hafi verið mjög góð, en veðrið hafi bara ekki skilað sér. „En spáin var góð“, segir hann.
Mánudagstungl eða laugardagstungl
Það eru 10-11 manns sem mæta reglulega á fundi veðurklúbbsins, en fjöldinn getur farið alveg upp í 16-17, enda er klúbburinn ætlaður til gamans og ótrúlega mörgum þykir skemmtilegt að spá í veðrið. „Við spekúlerum í tunglkomum, flettum gömlum dagbókum og svo eru það draumarnir“, segir Júlíus. Það skiptir sem sagt máli hvenær tungl kviknar, hvort það gerist á mánudegi eða laugardegi. „Mánudagstungl fara ekki vel í klúbbfélagana en laugardagstungl eru oft lukkutungl“, segir hann.
Að dreyma hvít eða flekkótt lömb
Ef menn dreymir hvít lömb getur það verið ávísun á gott veður eða hreinlega snjókomu, en flekkótt lömb í draumum geta þýtt umhleypinga og leiðindi. „En svo fer þetta eftir ýmsu öðru líka. En þú veist hvernig veðrið er. Það er ekkert hægt að stóla á það“, segir hann að lokum og hlær.