Við sem erum blind og nafnlaus

Árni Þór Árnason

Árni Þór Árnason

Árni Þór Árnason kynningarstjóri Forlagsins, segist eingöngu lesa bækur Forlagsins eftir að hann fór að vinna þar, hann hafi ekki tíma í annað. Hann bendir lesendum Lifðu núna á nýja ljóðabók í þessari viku, Við sem erum blind og nafnlaus heitir hún og er eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur. „Þetta er ný rödd í bókmenntunum“ segir hann. Alda Björk er kennari í Háskólanum og sérfræðingur í Jane Austen.

Falleg og aðgengileg ljóð

Ljóðabókin hennar er ein af vorbókunum og hefur fengið mjög góða dóma. Bókin skiptist í fimm kafla sem heita Farvegir táknanna, Íslensk tregaljóð, Og ástin, Minnisblöð óþekktu húsfreyjunnar og Via Dolorosa. Ljóðin eru aðgengileg og falleg. Hérna er til dæmis eitt þeirra úr tregaljóðunum, sem Alda yrkir um dauða móður sinnar.

 

2.

Mamma deyr klukkan fjögur.

Klukkan sex förum við í sund,

pabbi minn og ég,

því þetta er venjulegur dagur

að öllu öðru leyti.

 

Skólasystir mín í sturtunni,

hvernig hefurðu það,bara fínt,

sjáumst síðar, já, bless, bless.

 

Fjölskylduvinur í sundinu,

loksins hefur hún fengið friðinn

já, loksins.

 

Ég tek sundtökin

því þetta er venjulegur dagur

að öllu öðru leyti.

Ritstjórn júní 25, 2015 12:48