Margir verða varir við að hárið þynnist með aldrinum. Sumir glíma við hárlos, karlar fá skalla og eldri konur búa við það að vegna hormónabreytinga verður hárið þynnra.
Jane Fonda tíndi litla hártoppa úr höfðinu
Grace /Jane Fonda, í þáttunum Grace&Frankie á Netflix var eitt sinn að lýsa fyrir Nick, miklu yngri kærasta, hvað hún væri orðin gömul og tíndi úr stuttu hárinu litla hártoppa sem hún notaði greinilega til að gera það þykkara og líflegra. Bara svona til að sýna honum hvernig hún væri í raun og veru. Blaðamaður Lifðu núna hefur ekki orðið þess var að eldri konur á Íslandi séu mikið með slíkar viðbætur við hárið. En fór að spyrjast fyrir og var bent á hárgreiðslustofuna Beautybarinn í Kringlunni, kannski væri eitthvað til þar.
Hártoppar í setti
Heimsókn í Beautybarinn leiddi í ljós að þar var hægt að kaupa hártoppa í pakka. Það er sett með nokkrum toppum í. Þeir eru til í ýmsum lengdum og ýmsum litum. Og þetta eru toppar úr ekta hári, hægt að þvo þá, lita þá og klippa allt eftir smekk. Ekki nóg með það, heldur er þetta sama gerð viðbótarhárs og frægu konurnar í Bandaríkjunum nota, til dæmis Kim Kardashian, Christina Aguilera og Jennifer Lopez. Þær nota toppana aðallega til að lengja hárið og vera til dæmis með þykkar og flottar fléttur.
Hártoppar og lengingar ekki bara fyrir ungar konur
Hártopparnir sem fást í settunum í Beautybarnum eru í venjulegri sídd 45 cm. eða lengri og það hægt að klippa þá, þannig að þeir falli betur að hárinu sem á að setja þá í. „Við höfum verið að sérhæfa okkur í þessu síðustu 20 árin“, segir Ásta Bjartmarz eigandi stofunnar. „Það er algengt að konur haldi að þetta sé eingöngu fyrir ungar konur, en stór partur af okkar viðskiptavinum eru komnir yfir sjötugt. Það var óskrifuð regla, að þegar kona varð fertug væri það skylda hennar að láta klippa hárið stutt. Þetta hefur sem betur fer breyst“.
Auðvelt að smella toppunum í hárið
Ásta segir að hár kvenna þynnist oft með aldrinum og hártopparnir geti verið liður í að takast á við það vandamál. Það er hægt að velja um það hvort hárlengingarnar eða topparnir séu fastir við hárið eða hvort þeim sé smellt í það eftir hentugleikum. Séu þeir fastir þarf að koma á hárgreiðslustofuna á þriggja mánaða fresti til að halda þeim við. Smelltu hártoppana er hins vegar hægt að nota eftir eigin hentugleikum. „ Ef það á að fara eitthvað fínt er hægt að smella toppunum í og af því þeir eru í setti, geta konur stjórnað því sjálfar hversu mikið eða lítið af settinu þær vilja nota í einu“. Hún segir auðvelt að smella hártoppunum í hárið. „ Konur geta yfirleitt rúllað og blásið hárið sjálfar og þetta er auðveldara en það“, segir hún.
Hársettið með toppunum kostar rúmar 44.000 krónur.