Vil líta út eins og 64 ára kona

Erna Indriðadóttir

Erna Indriðadóttir skrifar

„Þú lítur alls ekki út fyrir að vera 64ra ára“, var sagt við mig um daginn. Það vill svo til að ég er við góða heilsu, sólbrún og sælleg. En til hvers eru menn að segja við eldra fólk að það líti ekki út fyrir að vera jafn gamalt og það er?  Ég velti þessu stundum fyrir mér, vegna þess að mér finnst frábært að vera 64ra ára og finnst líka að ég líti út eins og 64ra ára kona.  Það er í mínum huga flott og enginn þarf að hugga mig með því að segja að ég sé yngri en aldurinn gefur til kynna.  Hrukkurnar koma og hárið gránar og ég skal játa, að mér finnst frekar „smart“ að vera gráhærður og hlakka til þegar ég verð orðin það sjálf.

Það er svo merkilegt með aldurinn, að allir vilja lifa sem lengst, en enginn vill verða gamall. En meðalaldur þjóðarinnar hækkar stöðugt og fólk lifir lengur en áður við góða heilsu, svo framarlega sem það veikist ekki af alvarlegum sjúkdómum, sem kemur auðvitað fyrir sum okkar.  Ég er farin að upplifa fleiri jarðarfarir en áður og sá nýlega á eftir gömlum skólafélaga yfir móðuna miklu. Ein vinkona mín orðaði það þannig að fólk á okkar aldri væri komið á jarðsprengjusvæði og enginn vissi hver yrði næstur. Það er umhugsunarefni og sýnir að það er sannarlega ástæða til að lifa lífinu lifandi og að lifa því núna.

Það virðist ekki þykja sérstaklega flott að vera gamall, best að hugsa sem minnst um það. Það heyrist ekki mikið um að þjónustan sem hjúkrunarheimilin veita gömlu fólki, standist ekki þær kröfur sem landlæknisembættið gerir.  Ríkið er einfaldlega ekki tilbúið til að greiða það sem þarf, til að hægt sé að uppfylla þær kröfur. Þetta vekur samt ekki sérstaka athygli í umræðunni dags daglega. Það eru fáir, ef nokkrir fjölmiðlar, sem fara út í að gera úttekt á þessum málum.  Hvernig skyldi það vera, að vera orðinn gamall, hafa ekki fjárráð og fólkið sem maður hefur mest samskipti við á hjúkrunarheimilinu talar ekki íslensku?

Fólki sem er komið yfir 67 ára mun fjölga gríðarlega á næstu áratugum. Það er þróun sem var fyrirséð og aðrar vestrænar þjóðir hafa upplifað þetta á undan okkur.  Þetta mun gera miklar kröfur til okkar og það er ástæða til að fara að huga að því í alvöru hvernig við ætlum að mæta þessu. Grái herinn sem starfar innan vébanda Félags eldri borgara í Reykjavík er baráttuhópur sem vill að kjör allra eldri borgara séu mannsæmandi og að það sé borin virðing fyrir eldra fólki.  Þetta er að sjálfsögðu líka  baráttumál Félaga eldri borgara um allt land, sem hafa starfað ötullega áratugum saman.  Með mikilli fjölgun eldri borgara, hljóta þessi mál að verða ofarlega á baugi á næstu árum og áratugum.

Erna Indriðadóttir febrúar 13, 2017 09:54