„Eitt af meginmálunum þessi misserin eru kjaramál eldra fólks og þau munu setja svip sinn á þennan fund“, segir Viðar Eggertsson verkefnisstjóri Gráa hersins um baráttufund sem Landssamband eldri borgara, Félag eldri borgara í Reykjavík og Grái herinn standa að í Háskólabíói laugardaginn 14. október klukkan 13:00, undir yfirskriftinni Út úr fátæktargildrunni. „Það er fyrst til að taka að greiðslur almannatrygginga til þeirra sem eru komnir á eftirlaun, hafa ekki hækkað í samræmi við almennar launahækkanir“, segir Viðar. „Þá séu miklar skerðingar i kerfinu og persónuafslátturinn svo lágur að menn eru að greiða skatt af mjög litlum tekjum. Persónuafslátturinn var í upphafi tengdur lánskjaravísitölu, en ætti með réttu að vera tengdur launavísitölu. Ef svo væri þá væru kjör eldri borgara önnur og betri en þau eru í dag. Í upphafi árs 1989 var persónuafsláttur kr. 17.842 á mánuði og væri því, ef hann hefði fylgt launavísitölu, kr. 105.660 á mánuði vegna ársins 2017 og skattleysismörk nú kr. 286.032 á mánuði. Þess í stað eru mánaðartekjur umfram 142 þús. kr. skattlagðar. Persónuafsláttur hefur mest áhrif á þá tekjulægstu þar sem um fasta upphæð er að ræða. Því yrði veruleg hækkun hans mikil kjarabót fyrir lágtekjufólk“, segir hann og nefnir líka hækkun frítekjumarksins sem sé afar áríðandi þannig að þeim sem geti og vilji vinna einhverja launavinnu sé ekki refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitnina með skerðingum. Þá er líka vert að vekja athygli á að margir eru svo illa settir fjárhagslega að þeir neiti sér um heilbrigðisþjónustu, sérstaklega tannlæknaþjónustu.
Eldra fólk hafði áhrif í fyrra
Á fundinum í Háskólabíói munu fulltrúar allra flokka sem bjóða fram á landsvísu, koma og greina frá því hvað þeir hyggjast gera í málefnum eldra fólks komist þeir til áhrifa. Fyrir rúmu ári, fyrir síðustu alþingiskosningar, var haldinn svipaður fundur á sama stað, en þá var mörgum eldri borgurum mikið niðri fyrir og þeir fylltu húsið. Viðar segir að margir telji að þá hafi verið knúin fram meiri hækkun á grunnlífeyri almannatrygginga en ella hefði orðið, enda hefði eldra fólk látið vel í sér heyra á fundinum. Viðar segir að með því að koma á fundinn á laugardaginn en vera ekki þöglir heima, nöldrandi hver í sínu horni, geti eldri borgarar haft árif. Það hafi sýnt sig fyrir síðustu kosningar.
Mikilvægt að eldra fólk skili sér á kjörstað
Fólk 67 ára og eldra telur um 41.000 manns og þetta er sá hópur sem er þekktastur fyrir að skila sér á kjörstað. „Það er mikilvægt að þessi hópur láti engan bilbug á sér finna, þrátt fyrir kosningaþreytuna sem maður verður var við í þjóðfélaginu“, segir Viðar. „Þessi hópur verður að láta í sér heyra, mæta á fundinn og hann verður að kjósa. Ef kosningaþáttaka verður dræm, geta atkvæði þessa hóps vegið þyngra ef hann skilar sér á kjörstað. Það er því mjög mikilvægt að eldra fólk geri upp hug sinn, ákveði hvaða stjórnmálaflokki það treystir best fyrir kjörum sínum og kjósi samkvæmt því“, segir Viðar. „Það er eina leiðin til að koma af stað breytingum að láta vita af sér. Við værum enn í vistarböndum ef við hefðum trúað því að við gætum engu breytt“.